Hress Ingó veðurguð.
Hress Ingó veðurguð. — Ljósmynd/Óskar Pétur
Sjaldan höfum við, pestþvæld þjóðin, haft eins mikla þörf fyrir góða afþreyingu og á þessum síðustu og verstu tímum. Stöð 2 brást nýlega við því og teflir nú fram Ingó veðurguði og vinum hans á föstudagskvöldum.

Sjaldan höfum við, pestþvæld þjóðin, haft eins mikla þörf fyrir góða afþreyingu og á þessum síðustu og verstu tímum. Stöð 2 brást nýlega við því og teflir nú fram Ingó veðurguði og vinum hans á föstudagskvöldum. Þeir þættir, Í kvöld er gigg, hafa komið skemmtilega á óvart og óhætt að segja að Ingó sé á góðri siglingu, alþýðlegur og sérvitur sem hann er.

Sérstaklega hafði ég gaman af síðasta þætti, þar sem rokktröllin Stebbi Jak og Palli Rós (ég tala bara eins og ég þekki þessa menn, sem ég geri ekki, þetta lítur bara svo vel út) sungu úr sér lungun og Stefanía Svavars, enn eitt söngundrið úr Mosfellsbænum, gaf þeim ekki þumlung eftir. Eftir þá keyrslu var hnausþykk móða á rúðunum í sjónvarpsálmu sveitaseturs míns.

Á engan er þó hallað þegar fullyrt er að minn maður, Bjössi sax, hafi stolið senunni fram að þessu, leiftrandi músíkalskur og hnýtir sínar lykkjur af aðdáunarverðri smekkvísi við lögin á saxófóninn. Fæddur skemmtikraftur, Bjössi.

Helgi Björns má alveg vera á tánum gagnvart þessu teymi. Hann fór rólega af stað í nýju setti, sem er hvergi nærri eins heimilislegt og það gamla, en Eyþór Ingi skaut honum aftur á sporbaug um jörðu í öðrum þættinum. Talandi um skemmtikrafta. Hélt svo að Ólafía Hrönn, eða öllu heldur hliðarsjálf hennar, Hannes að nafni, ætlaði að drepa okkur hjónin um liðna helgi. Úr hlátri.

Orri Páll Ormarsson

Höf.: Orri Páll Ormarsson