Árskógar Fjölbýlishúsin tvö sem Búseti er að byggja og verða tilbúin næsta sumar. Við hliðina, hægra megin, er húsið sem Félag eldri borgara í Reykjavík, FEB, byggði í Árskógum 1 til 3. Verslunarmiðstöðin í Mjódd er fjær.
Árskógar Fjölbýlishúsin tvö sem Búseti er að byggja og verða tilbúin næsta sumar. Við hliðina, hægra megin, er húsið sem Félag eldri borgara í Reykjavík, FEB, byggði í Árskógum 1 til 3. Verslunarmiðstöðin í Mjódd er fjær. — Ljósmynd/Búseti
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Nú standa yfir framkvæmdir í Árskógum 5 og 7 í Mjóddinni í Reykjavík þar sem Búseti reisir tvö fjögurra hæða fjölbýlishús með alls 72 íbúðum.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Nú standa yfir framkvæmdir í Árskógum 5 og 7 í Mjóddinni í Reykjavík þar sem Búseti reisir tvö fjögurra hæða fjölbýlishús með alls 72 íbúðum. Í húsunum eru stúdíóíbúðir sem eru aðallega hugsaðar fyrir ungt fólk, sem er að hefja búskap.

Búseti lauk nýlega framkvæmdum við Keilugranda í Reykjavík, þar sem byggðar voru 78 íbúðir, og voru þær afhentar nýjum kaupendum í sumar.

Að sögn Ágústu Guðmundsdóttur, sölu- og markaðstjóra Búseta, verða íbúðirnar í Árskógum tilbúnar til afhendingar næsta sumar. Í boði eru 32 þriggja herbergja íbúðir, 14 tveggja herbergja og 26 stúdíóíbúðir. Sala á búseturéttum er hafin og getur hver umsækjandi sótt um fleiri en eina íbúð og forgangsraðað. Mikill áhugi sé hjá félagsmönnum enda húsin í næsta nágrenni við íþróttasvæði ÍR, grunnskóla og leikskóla svo og verslunarmiðstöðina í Mjódd.

Huga að „fyrstu kaupendum“

Bjarni Þór Þórólfsson, framkvæmdastjóri Búseta, segir að í þessu verkefni endurtaki Búseti það sem hafi vakið athygli í nýlegu verkefni félagsins við Keilugranda. Hluti hinna 72 íbúða á byggingarreitnum eru svokallaðar stúdíóíbúðir, sem eru ekki síst ætlaðar þeim sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð. Búseturéttur á þeim íbúðum er frá um 5,3 milljónum króna og mánaðarlegt búsetugjald rúmlega 120 þúsund.

„Í boði er fjármögnunarleið, í samstarfi við viðskiptabanka Búseta, sem gerir fólki kleift að flytja í nýja íbúð fyrir um 2,7 milljónir króna. Þá er miðað við 50% fjármögnun búseturéttar á 5,4 milljónir króna. Verkefnið var m.a. hugsað sem hagkvæmur og aðgengilegur kostur fyrir ungt fólk til að eignast sitt fyrsta heimili á viðráðanlegu verði,“ segir Bjarni Þór.

Flestar stúdíóíbúðir eru á bilinu 42-43 fermetrar. Þriggja herbergja íbúðirnar eru flestar nálægt 95 fermetrum að stærð. Verð búseturéttar er um 10,5 milljónir á þeim íbúðum og mánaðarlegt búsetugjald um 225 þúsund á mánuði. Ef fólk selur eignina (búseturéttinn) fæst hann endurgreiddur uppreiknaður miðað við vísitölu neysluverðs.

Að sögn Ágústu eru félagsmenn Búseta yfir 5.000. Rúmlega 1.000 af þeim eru búseturéttarhafar. Hluti af félagsmönnum eru börn og ungmenni yngri en 18 ára, aðrir vilja vera í félaginu upp á seinni tíma ef fjölskylduaðstæður breytast og/eða vilja binda minna fjármagn í eign þegar þeir eru komnir á efri ár. Ágústa segir að talsverður fjöldi ungs fólks, jafnvel fyrir tilstilli foreldra, gerist félagsmenn í Búseta. Með þessu hafi unga fólkið sýnt mikla fyrirhyggju. Félagsmenn geta keypt búseturétt þegar þeir eru orðnir lögráða, 18 ára að aldri.

Búseti er húsnæðissamvinnufélag að norrænni fyrirmynd sem býður upp á meira en 1.000 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu. Ágústa segir að nýir félagsmenn séu velkomnir og að áhugasamir geti skráð sig í félagið og sótt um búseturétt. Árgjaldið er 5.500 krónur fyrir fullorðna og hálft gjald fyrir börn.

A2F arkitektar hönnuðu húsin í Árskógum. Um er að ræða lyftuhús og því hindranalaust aðgengi að svölum og sérafnotareitum. Bílastæði í sameiginlegum bílakjallara fylgja hluta íbúðanna og þar eru möguleikar á tengingum fyrir rafhleðslu bifreiða. Lóðarhönnun var í höndum Teiknistofunnar Storðar. Jáverk ehf. reisir húsin við Árskóga og verkeftirlit annast EFLA verkfræðistofa.