Hörður Reynir Hjartarson fæddist í Björgvin á Eyrarbakka 9. ágúst 1929. Hann lést á heimili sínu Ási í Hveragerði 27. september 2020.

Foreldrar hans voru Lára Halldórsdóttir, f. 24.5. 1908, d. 29.7. 1990, og Hjörtur Ólafsson, f. 18.9. 1892, d. 12.1. 1984. Bróðir hans var Halldór Kristmundur Hjartarson, f. 27.5. 1927, d. 21.5. 2000.

Hörður ólst upp á Eyrarbakka og fór á sjó strax eftir fermingu.

6. júlí 1951 giftist hann eiginkonu sinni, Erlu Pálsdóttur, f. 15.2. 1932, d. 8.5. 2008. Saman eignuðust þau 4 börn. Þau eru Helgi Agnar, fæddur 4. apríl 1949, Hjörtur Lárus, fæddur 12. febrúar 1951, giftur Svövu Guðmundsdóttur, Ingibjörg Pála, fædd 17. maí 1956, gift Þórði Rúnari Þórmundssyni og Lilja Hafdís, fædd 1. mars 1968, gift Frank Þór Frankssyni. Herði og Erlu varð 11 barnabarna, 22 barnabarnabarna og 4 barnabarnabarnabarna auðið.

Útför Harðar verður frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag kl. 13. Streymt verður frá athöfn í Facebook-hópi Útför Harðar Hjartarsonar.

https://tinyurl.com/y6omwtl2

Virkan hlekk á slóð má nálgast á:

https://www.mbl.is/andlat

Elsku besti afi okkar og langafi kvaddi 27. september.

Afi var fyrirmynd okkar allra, traustur, rólegur, hlýr, ávallt stutt í húmorinn og listagóður smiður.

Það var alltaf svo gott og gaman að koma í heimsókn til afa og ömmu á Norðurvangi þegar við systur vorum litlar og síðan til Hveragerðis eftir að þau fluttu þangað. Gestrisnin var þvílík og alltaf fullt af kræsingum komið á borðið á augabragði. Eins eftir að amma dó og þú varst aleinn eftir í húsinu, allt var svo hreint og fínt hjá þér og í hvert sinn sem við komum í heimsókn var grillveisla og krakkarnir mínir muna svo vel eftir stóru og þykku belgísku vöfflunum sem þú steiktir handa okkur.

Eftir að við fluttum til Noregs fyrir 24 árum voruð þið amma svo dugleg að heimsækja okkar á húsbílnum, sem ykkur þótti svo gaman að ferðast um á. Okkur þótti óskaplega vænt um það. Síðasta skiptið sem þú komst til okkar var fyrir tveimur og hálfu ári í fermingarveisluna hans Fredriks.

Tengdapabbi fór með ykkur gestina frá Íslandi í bátsferð sem ég held að þér hafi þótt mjög gaman að. Við höfðum svo gaman af að vera með þér og heyra hversu ótrúlega minnugur þú varst og gaman að heyra þig segja frá öllu mögulegu milli himins og jarðar. Þetta eru dýrmætar minningar að eiga í hjartanu núna eftir að við fáum ekki að hitta þig aftur.

Þú varst listasmiður og ótrúlega laginn við að skera út í tré. Það eru ófáir hlutirnir sem þú ert búinn að skapa og mér þykir einstaklega vænt um að hafa fengið litla kistilinn með svo fallegum útskurði frá þér fyrir nokkrum árum og vera svo heppin að fá eiginhandaráritunina þína inn í hann, síðast þegar þú komst.

Mér þykir svo vænt um hversu sterk tengsl krakkarnir mínir höfðu við þig þrátt fyrir að hafa búið í Noregi alla sína tíð. Þau fundu fyrir hlýjunni og kærleikanum sem þú áttir svo mikið af og skemmtilegt að Ísak, langafastrákurinn þinn, hafi búið hjá þér í fyrra þegar hann var að keppa á Íslandsmótinu á skíðum í Bláfjöllum og fengið að kynnast þér ennþá betur.

Elsku afi, það er dapurleg tilfinning að fá ekki að fylgja þér síðasta spölinn, en við verðum með þér í huganum og horfum á útförina sem verður streymt á netinu. Þú átt eftir að verða svo glaður að fá að hitta ömmu aftur sem þú ert búinn að sakna svo mikið. Knúsaðu hana vel og mikið frá okkur líka.

Takk fyrir að vera heimsins besti afi og við eigum eftir að sakna þín mikið, það verður gott að eiga allar góðu minningarnar um þig og ömmu.

Farðu í friði, elsku afi.

Agnes, Katrín og fjölskyldur í Noregi.