[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Reykjanesbær freistar þess nú að taka 8,4 milljarða lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga (LS) í því skyni að kaupa fasteignir bæjarfélagsins út úr Eignarhaldsfélaginu Fasteign (EF).

Baksvið

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Reykjanesbær freistar þess nú að taka 8,4 milljarða lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga (LS) í því skyni að kaupa fasteignir bæjarfélagsins út úr Eignarhaldsfélaginu Fasteign (EF). Verði áætlanir þessar að veruleika verður lánsfénu varið til uppgreiðslu skuldabréfs sem Lífeyrisstjóður starfsmanna ríkisins á og stendur til greiðslu vegna fasteignanna sem nú eru vistaðar í EF. Með hinu nýja fjármagni mun bæjarsjóður því eignast fasteignirnar að nýju. Kjartan Már Kjartansson segir að þetta skref sé ekki aðeins jákvætt fyrir bæjarsjóð heldur nauðsynlegt enda tryggi það bænum full yfirráð yfir eignunum og lækki afborganabyrði af þeim.

Fasteignaævintýri á enda

„Með þessu mun tæplega tveggja áratuga „ævintýri“ ljúka sem hófst með stofnun Fasteignar árið 2002,“ segir Kjartan. Bendir hann á að eftir fall bankanna árið 2008 hafi skuldir félagsins endað í höndum Glitnis Holdco. sem hafi á sínum tíma ekki talið rétt að bærinn hefði stjórnunarlega ábyrgð á félaginu.

„Það þýddi að stjórn félagsins var skipuð fólki sem annaðhvort var lauslega eða alls ekki tengt bæjarfélaginu og þeim verkefnum sem því er ætlað að sinna.“

Þegar uppgjör slitabúa föllnu bankanna fór fram afhenti Glitnir Holdco. skuldabréfið á EF sem hluta af stöðugleikaframlagi sínu í ríkissjóð. Þaðan fór bréfið inn í Seðlabanka Íslands og Lindarhvol en heimildir Morgunblaðsins herma að sú afhending hafi verið á lægra gengi en því sem núverandi krafa hljóðar upp á, þ.e. 8,4 milljarða króna.

í uppgjöri milli ríkissjóðs og LSR var að lokum ákveðið að skuldabréfið rynni inn í eignasafn lífeyrissjóðsins og þangað hafa afborganir og vaxtagreiðslur runnið síðustu misserin en skuldabréfið er á lokagjalddaga eftir aldarfjórðung og ber 4,2% verðtryggða vexti.

„Eins og staðan er á markaði í dag teljum við tækifæri til þess að fjármagna þessar skuldbindingar með hagstæðari hætti,“ segir Kjartan og vísar þar til samkomulagsins við LS. „Við höfum væntingar um að geta fengið kjör sem standi í kringum 1% og því er vaxtamunurinn gríðarlegur. Jafnvel þótt uppgreiðslugjald upp á 0,5% falli ekki niður á skuldabréfinu hjá LSR fyrr en í lok febrúar þá getur það borgað sig að byrja að borga inn á skuldabréfið um leið og útgáfa LS hefst. Þetta metum við allt þegar það skýrist betur hver kjörin verða.

Stórt fjármögnunarverkefni

Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri LS segir ánægjulegt að geta komið að þessu endurfjármögnunarverkefni Reykjanesbæjar. Hann viðurkennir að verkefnið sé stórt í sniðum en til samanburðar má geta þess að LS hefur veitt lán fyrir um 19 milljarða króna það sem af er ári en að til samanburðar hafi heildarútgáfan hjá sjóðnum numið um 30 milljörðum í fyrra.

„Við teljum að þetta sé vel gerlegt án þess að það trufli aðra og hefðbundnari útgáfu hjá okkur. Markaðurinn brást ekki sérlega vel við tíðindunum í morgun og ávöxtunarkrafan hækkaði nokkuð en við förum í útboð í þarnæstu viku og þá fáum við betri tilfinningu fyrir því hvernig landið liggur. Ég hef trú á því að þetta muni ganga vel,“ segir Óttar.

Vaxtabyrðin lækkar verulega

Kjartan Már bendir á að með þessu skrefi geti bæjarsjóður lækkað vaxtabyrði sína um 250 til 300 milljónir á ársgrundvelli og að það muni um minna þegar mjög svo gefi á bátinn hjá Reykjanesbæ eins og öðrum sveitarfélögum um landið en bærinn hefur orðið fyrir miklum skakkaföllum eftir að kórónuveiran lamaði nær allar flugsamgöngur til og frá landinu.

Verði lánafyrirgreiðsla LS að veruleika verður Reykjanesbær annar stærsti skuldunautur sjóðsins með u.þ.b. 13,8 milljarða króna lán hjá honum. Aðeins Hafnarfjarðarkaupstaður er með stærri skuldbindingar tengdar sjóðnum eða um 14,5 milljarða króna.