Björn Ragnarsson fæddist 28. október 1940 á Hrafnsstöðum í Suður-Þingeyjarsýslu. Hann lést

25. september 2020 á heimili sínu í Reykjanesbæ.

Faðir hans var Ragnar Guðmundsson, f. 27. júlí 1912, d. 31. mars 1969, og móðir Guðbjörg Jónína Þórarinsdóttir, f. 25. maí 1914, d. 17. mars 1991. Kjörfaðir hans var Guðmundur Jóhann Einarsson, f. 19. ágúst 1916, d. 21. okt. 1993.

Systir Björns er Hallfríður Ingibjörg Ragnarsdóttir, f. 14. okt. 1939. Samfeðra systkin: Guðríður Ragnarsdóttir, f. 7. apríl 1933, d. 28. ágúst 2016. Kristján Viktor Ragnarsson, f. 15. sept. 1939, d. 9. apríl 1963. Arnfríður Margrét Ragnarsdóttir, f. 5. feb. 1943. Jónborg Júlíana Ragnarsdóttir, f. 5. feb. 1943.

Björn hóf ungur að vinna. Hann fór á sjó 16 ára gamall, keyrði olíubíl milli þess sem hann var á sjó, hann var um tíma á millilandaskipi.

Hann vann við beitningar, var verkstjóri hjá Skipaafgreiðslu Suðurnesja. Hann keyrði vörubíl fyrir fyrirtæki í Reykjavík og frá síðustu aldamótum vann hann á Byggðasafninu í Reykjanesbæ.

Útför hans fer fram í dag, 8. október 2020, frá Keflavíkurkirkju klukkan 13.

Björn Ragnarsson fór ekki með hávaða og látum í gegnum lífið. Hann gekk rólega um og gætti að hvort ekki mæti koma einhverju betur fyrir eða lagfæra eitthvað sem hefði aflagast. Alltaf var hann tilbúinn til aðstoðar og alltaf kunni hann ráð. Bjössi, eins og við samstarfsfólkið kölluðum hann alltaf, hóf störf hjá Byggðasafni Reykjanesbæjar upp úr síðustu aldamótum og strax frá fyrsta degi var ljóst að við hefðum unnið í lottóinu.

Hann hafði um ævina unnið hin ýmsu störf, bæði til sjós og lands, og bjó að margs konar reynslu en var nú atvinnulaus og kom til okkar í gegnum vinnuátaksverkefni sem átti bara að vera tímabundið. Okkar gæfa var sú að við áttuðum okkur nógu snemma á því að þarna var gullmoli á ferð og hann var fastráðinn um leið og tækifæri gafst. Hans aðalstarfsstöð innan menningarsviðs bæjarins var í Duus Safnahúsum og þar var hann vakinn og sofinn yfir hverju verkefni, hverri þraut sem þurfti að leysa allt þar til hann lét af stöfum vegna aldurs. Hann hafði ekki bara þá handlagni sem til þurfti heldur líka skapandi hugsun sem oft gerði útslagið. Engin sýning var sett upp án Bjössa, hvorki á vegum listasafns né byggðasafns og enginn viðburður haldinn án hans tilkomu, hvort heldur hann var í hlutverki starfsmanns eða gests.

Hann heillaði alla upp úr skónum með sinni elskulegu framkomu og sinnti öllum af stakri samviskusemi og hlýju, hvort sem um var að ræða safngesti eða samstarfsmenn. Bjössi var líka mikill dýravinur og safnkötturinn Dúsi átti góða ævi undir verndarvæng Bjössa. Eftir að Bjössi hætti fastri vinnu hjá okkur hélt hann áfram að koma í kaffi og alltaf hafði hann vakandi auga á safnahúsunum og lét vita ef gleymst hefði að loka glugga eða eitthvað þyrfti að skoða betur. Mig langar að þakka honum Bjössa mínum sérdeilis góða viðkynningu og vináttu og veit að ég tala þar fyrir munn allra samstarfsmanna hans hjá Reykjanesbæ. Þarna var eðalmaður á ferð.

Valgerður Guðmundsdóttir.