Jarðböðin Atvinna í Mývatnssveit grundvallast á ferðaþjónustu.
Jarðböðin Atvinna í Mývatnssveit grundvallast á ferðaþjónustu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Byggðastofnun hefur gengið frá samningum við þrjú sveitarfélög um stuðning við atvinnuuppbyggingu vegna fækkunar ferðafólks í kjölfar kórónuveirufaraldursins.

Byggðastofnun hefur gengið frá samningum við þrjú sveitarfélög um stuðning við atvinnuuppbyggingu vegna fækkunar ferðafólks í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Samningarnir kveða á um stuðning ríkisins við tiltekin verkefni við atvinnuuppbyggingu og nýsköpun.

Í fjáraukalögum var gert ráð fyrir 150 milljóna króna fjárveitingu til sértækra aðgerða hjá sex sveitarfélögum sem samkvæmt greiningu Byggðastofnunar standa hvað verst að vígi vegna niðursveiflu í ferðaþjónustu. Fjármunirnir skiptast þannig að Mýrdalshreppur, Skaftárhreppur og Skútustaðahreppur fá hver um sig 32 milljónir króna og Bláskógabyggð, Rangárþing eystra og Hornafjörður fá 18 milljónir, hvert sveitarfélag. Búið er að ganga frá samningum við Skútustaðahrepp, Skaftárhrepp og Hornafjörð. Hinir samningarnir eru í undirbúningi. Þannig áformaði Mýrdalshreppur að ganga frá sínum verkefnum í gær.

Sveitarfélögin leggja sjálf fram tillögur að verkefnum og fara verkefnahópar yfir þau. Þau eru með allskonar verkefni í undirbúningi og jafnvel framkvæmd. Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar, segir að þau hafi verið metin út frá því hversu mörg störf þau séu líkleg til að skapa eða varðveita.

Sem dæmi um verkefni sem njóta stuðnings má nefna Skútustaðahrepp sem fyrstur gekk frá sínum samningi. Þar er hamingjuverkefni Skútustaðahrepps stutt sem og aðgerðaáætlun verkefnisins Nýsköpun í norðri og greining orkukosta.

Aðalsteinn segir að sveitarfélögin fái 80% fjárveitingarinnar við undirritun samninga og 20% þegar verkefnum lýkur. Miðað er við að staðan verði tekin í marsmánuði og að sveitarfélögin skili greinargerðum um verkefnin fyrir 1. apríl. helgi@mbl.is