Skógurinn, bæði í eiginlegri merkingu og sem tákn fyrir nánast hvað sem er, er meginstefið í bók Jónasar Reynis, Dauði skógar . Hún segir frá Magnúsi, miðaldra karlmanni í litlu þorpi, sem finnst hann vera örlítið á skjön við samfélagið sem hann býr í. Lesandinn fær að fylgjast með Magnúsi gera upp fortíðina eftir dauða föður síns í tætingslegri nútíð.
Þrjár kynslóðir utangátta karlmanna birtast í bókinni, Magnús sjálfur, faðir hans og sonur. Tilfinningin sem bærist innra með þeim öllum kemst áleiðis til lesandans, óþægileg tilfinning þess sem finnst hann ekki tilheyra samfélaginu og langar jafnvel ekki að vera í tengslum við það.
Skógurinn er áþreifanlegur í bókinni, skógurinn sem var og skógurinn sem verður, skógurinn sem dó og skógurinn sem brennur, og fléttast inn í nánast hvert einasta orð bókarinnar. Hann er tákn fyrir minningar, lífið og dauðann, og vekur það því djúpa sorg hjá lesandanum þegar tré fellur eða deyr, rétt eins og um manneskju væri að ræða.
Jónasi Reyni, höfundi bókarinnar, tekst reglulega vel að tengja alla anga bókarinnar saman með skóginum og mynda þannig eina gróðursæla heild og skilja lesandann eftir saddan. Texti Jónasar hefur rætur sem liggja allar á einn eða annan hátt saman og tengist hvert textabrot í bókinni þannig öðru textabroti. Flæðið í bókinni er í stuttu máli hrein unun.
„Rauð lína skipti skóginum í tvennt, í dauðan skóg og lifandi, og landamærin færðust hratt til.“
Þrátt fyrir að þræðir sögunnar fléttist svo vel saman er söguþráðurinn í heild sinni á tíðum stefnulaus og er erfitt að sjá hvaða markmið söguhetjan hefur. Sagan virðist vera eins konar innlit í líf Magnúsar og þeirra sem hann umkringja án þess að um eiginlega ferð frá A til B sé að ræða.
Persónusköpunin er almennt til fyrirmyndar, flestar persónur bókarinnar eru áhugaverðar og samkvæmar sjálfum sér. Hildi, eiginkonu Magnúsar, sem leikur stórt hlutverk í bókinni, er þó einungis lýst nokkuð yfirborðslega og verður hún þannig þreytandi karakter, án þess að það sé nauðsynlegt sögunni sjálfri. Lesandinn spyr sig hvort það hefði veitt sögunni aukna dýpt ef Hildur hefði fengið að vera sjálfstæðari persóna sem hefði eitthvað annað að gera en að skammast og taka til.
Bókina er erfitt að leggja frá sér og Jónasi Reyni tekst að hrífa lesandann og vekja spennu um það sem gerist næst í þessari þriðju skáldsögu hans. Þótt fyrri verk Jónasar hafi heillað undirritaða meira er Dauði skógar bók sem óhætt er að mæla með.
Ragnhildur Þrastardóttir