Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mætir Rúmeníu í undanúrslitum umspils um laust sæti í lokakeppni EM í kvöld en upphaflega átti leikurinn að fara fram í nóvember á síðasta ári.
Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mætir Rúmeníu í undanúrslitum umspils um laust sæti í lokakeppni EM í kvöld en upphaflega átti leikurinn að fara fram í nóvember á síðasta ári. Biðin eftir landsleiknum er því orðin ansi löng og strembin en í gegnum tíðina hefur íslenska karlalandsliðið verið hálfgert sameiningartákn þjóðarinnar.

Gullaldarkynslóðin í íslenska liðinu er komin eða er að komast á fertugsaldurinn og því spyrja margir sig hversu mörg góð ár þeir eiga eftir með landsliðinu. Það er alla vega alveg ljóst að liðið á enn þá góða möguleika á því að fara á þriðja stórmótið í röð sem yrði stórkostlegur árangur hjá þjóð sem telur ekki yfir 365.000 manns.

Það er öllum ljóst að leikurinn gegn Rúmeníu verður afar strembinn og fari svo að liðinu takist að vinna bíður liðsins annað strembið verkefni gegn annaðhvort Búlgaríu eða Ungverjalandi í úrslitaleik um laust sæti á EM. Eftir að hafa setið blaðamannafund með Aroni Einari Gunnarssyni, fyrirliða íslenska liðsins, í gær þá er ekki hægt annað en að vera bjartsýnn.

Maðurinn er ekki bara fæddur sigurvegari heldur er hann líka stútfullur af sjálfstrausti, alltaf. Hann gæti eflaust sannfært Kim Jong-un um að segja af sér sem forseti Norður-Kóreu þegar þannig liggur á honum. Hann sannfærði mig alla vega á blaðamannafundi gærdagsins og ég hef enga trú á öðru en að Ísland fari á sitt þriðja stórmót í röð.

Íslenska þjóðin er að ganga í gegnum erfiða tíma en landsliðið hefur oftar en ekki sameinað landann þegar mest á reynir og mikið er undir. Áfram Ísland!