Vaxtaákvörðun Seðlabankans í gær var eðlileg og í samræmi við það sem vænst var. Vextir eru mjög lágir og í ljósi aðstæðna var sjálfsagt að halda þeim þar, jafnvel þótt verðbólga sé aðeins yfir mörkum. Bankinn telur að mikill slaki í þjóðarbúskapnum muni að óbreyttu leiða til þess að verðbólga hjaðni þegar áhrif gengisveikingar fjara út, eins og það er orðað, og því sé ekki ástæða til að ætla að verðbólga til meðallangs eða lengri tíma fari úr böndum.
Lágir vextir Seðlabankans hafa án efa hjálpað og munu hjálpa í þeirri erfiðu glímu við efnahagslegar afleiðingar farsóttarinnar sem nú stendur yfir. Þá er ekki að efa að þær aðgerðir sem ríkisvaldið hefur gripið til með ríkissjóð að vopni hafa létt undir víða og komið í veg fyrir að atvinnuleysi yrði enn verra en það þó er og efnahagssamdrátturinn harkalegri. Seðlabankinn segir að hagvöxtur hafi reynst heldur þróttmeiri á fyrri hluta ársins en gert hafi verið ráð fyrir í ágúst, en vísbendingar séu þó um að hægt hafi á vexti eftirspurnar í lok sumars og vegna aukinnar útbreiðslu veirunnar hafi efnahagshorfur versnað.
Þetta er án efa rétt mat og nýjustu fréttir af veirufaraldrinum eru síst til að ýta undir bjartsýni um gang efnahagsmála á næstu mánuðum. Í því sambandi skiptir þó miklu hvernig til tekst að slá á útbreiðsluna og halda faraldrinum niðri. Þar er fram undan mikill línudans því að finna þarf jafnvægi á milli heilbrigðissjónarmiða og efnahags. Um leið og verja þarf landsmenn fyrir veirunni eins og kostur er á, einkum þá sem veikastir eru fyrir, þarf að gera allt sem hægt er til að efnahagsleg áhrif verði í lágmarki, þó að þau verði alltaf tilfinnanleg.
Atvinnulífið, og þar með efnahagur landsins í heild sinni, varð fyrir viðbótarhöggi þegar ákveðið var á dögunum að samningar á vinnumarkaði skyldu standa eins og ekkert hefði í skorist. Þar sýndu ýmsir forystumenn í verkalýðshreyfingunni fádæma ábyrgðarleysi sem félagsmenn þeirra og aðrir verða óhjákvæmilega að líða fyrir á næstu mánuðum og misserum með færri atvinnutækifærum og auknu atvinnuleysi.
Ríkisvaldið brást við þessu með nokkrum aðgerðum, meðal annars þeirri að atvinnulífinu yrði tímabundið hlíft við hækkun tryggingagjalds vegna launahækkananna. Sú aðgerð vegur þó ekki þungt og mun meira þarf til á tekjuhlið ríkissjóðs til að styðja við atvinnulífið í landinu og hafa áhrif á atvinnuleysið. Ríkissjóði hefur hingað til í þessum faraldri verið beitt mjög á útgjaldahliðinni en til lengri tíma – og faraldurinn virðist því miður ekki á förum á næstunni – er farsælla að stuðla að sterkara atvinnulífi með myndarlegri lækkun skatta, þar með talið tryggingagjaldi, en með því að auka útgjöld ríkisins. Nauðsynlegt er við þær aðstæður sem nú eru uppi og verða að öllum líkindum næstu mánuði og misseri, að ríkið geri það sem það getur til að stuðla að kröftugra atvinnulífi og hvetji með skattalækkunum til fjárfestinga, uppbyggingar og atvinnusköpunar.
Kórónuveirufaraldurinn kemur þrátt fyrir allt að ýmsu leyti á heppilegum tíma fyrir Ísland. Skuldir voru hóflegar og aðstæður fyrir hendi til að lækka vexti. Lágt vaxtastig er einnig talið hjálpa víða erlendis og gera ríkisvaldinu kleift að skuldsetja sig enn frekar, jafnvel þar sem það er skuldum vafið fyrir. Ýmsir sem áður voru þekktir fyrir að hvetja til aðhalds mæla nú með auknum útgjöldum, ekki síst með vísun til lágra vaxta.
Lágir vextir gera ríkissjóði vissulega léttara að safna skuldum því að vaxtabyrðin verður ekki mjög íþyngjandi á meðan vextir haldast lágir, sem líkur eru á að verði jafnvel næstu misseri eða ár. Öll rök hníga þó að því að vextir fari á ný upp í eðlilegar hæðir og þá er hætt við að hratt þrengi að víða, einkum erlendis en einnig hér á landi ef við gætum ekki að okkur. Þegar að þessum skuldadögum kemur skiptir öllu máli að atvinnulífið hafi fengið svigrúm til að vaxa og að verðmætasköpun hafi átt sér stað. Verði fjármununum sóað nú án þess að þeir skili verulegri verðmætaaukningu í framtíðinni verður útlitið dökkt í mun lengri tíma. En verði rétt á málum haldið eru allar líkur á að innan skamms birti til og að við getum siglt hratt upp úr þessum öldudal.