Grunnskólanemum gefst nú tækifæri til að taka þátt í áhugaverðu og skapandi menningarstarfi í gegnum verkefnið List fyrir alla, sem er skipulagt af menntamálaráðuneytinu. „Við viljum jafna aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag og einnig setja þeirra eigin sköpun og menningu í öndvegi,“ segir Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra í tilkynningu.
Í öndvegi er efni sem stuðlar að sköpun og skilningi nemendanna sjálfra á ólíkum listgreinum. Því er meðal annars kynnt til sögunnar glænýtt efni fyrir unga listamenn sem áhuga hafa á kvikmyndagerð. Hefur námsefni verið gert aðgengilegt þar sem nemendur í elstu bekkjum grunnskólans eru leiddir í gegnum það ferli að búa til stuttmynd. Upplýsingar um verkefnin má nálgast á vefnum listfyriralla.is.