Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Fyrir skömmu kom Vala, nýr hægindastóll á snúningsfæti, á markað í Bandaríkjunum. „Fyrstu viðbrögð eru góð en það tekur alltaf tíma að markaðssetja nýjan lúxusstól og ef vel tekst til getur stóllinn verið í sölu í tíu til fimmtán ár og jafnvel lengur,“ segir Hlynur V. Atlason, hönnuður stólsins.
Hönnunin hófst fyrir um tveimur árum að ósk framleiðandans Hermans Millers fyrir DWR (Design Within Reach). Hlynur segir að mikið sé lagt upp úr þægindunum og einfaldleikinn skipti miklu máli. Miklar prófanir hafi farið fram þar til endanleg niðurstaða hafi fengist. Stóllinn sé nettur og laus við aukahluti eins og rafmagn og stillingar. Sérstök mótuð froða komi frá norsku fyrirtæki og geri stólinn einstaklega þægilegan. Gott sé að sitja í honum við lestur eða handavinnu og halli maður sér aftur komi fótskemill út. „Markaðurinn er mjög gamaldags þegar kemur að hægindastólum og Vala er svar við því,“ segir Hlynur.
Lífið að lifna við
Eftir að hafa verið í Parsons-hönnunarskólanum í París í eitt ár hélt Hlynur náminu áfram í Parsons í New York. Eftir útskrift 2001 fékk hann vinnu og stofnaði eigið iðnhönnunarfyrirtæki, Atlason Studio, 2003. Hann hefur komið að margs konar hönnun fyrir fyrirtæki eins og Johnson & Johnson, Microsoft, Ikea og Anheuser-Busch vegna Stella Artois-bjórsins, hannað nytjavörur fyrir heimili og pakkningar fyrir smá sem stór fyrirtæki, en húsgögn hafa verið fyrirferðarmikil í starfseminni undanfarin ár. Síðan 2017 hefur hann unnið við að hanna húsgögn fyrir Herman Miller og 2018 hóf fyrirtækið meðal annars sölu á línulaga stólnum Línu, sem Hlynur hannaði og hefur selst vel. „Við erum að vinna í ýmsum verkefnum sem líta dagsins ljós á næstu tveimur árum.“
Lífið í New York er aðeins að lifna við. Hlynur býr með eiginkonu sinni og tveimur börnum þeirra í Upper West Side og fyrirtækið er í Soho á Manhattan. „Borgin var eins og eyðiborg í mars og fáir á ferli, ekki hægt að treysta á almenningssamgöngur, búðum lokað og atvinnulíf lamað, en farið er að örla á lífi, þótt enn sé langt í land,“ segir Hlynur. Hann er nú aðeins 16 mínútur að aka í vinnuna, sem segir margt um umferðina sem áður var á hraða snigilsins. Hann bætir við að kórónuveirufaraldurinn hafi óneitanlega haft áhrif á reksturinn enda haldi menn að sér höndum í óvissunni og bíði gjarnan með að láta hanna fyrir sig.
DWR er með verslanir víða í Bandaríkjunum. „Ég hef líkt þessum verslunum við Epal,“ segir Hlynur og leggur áherslu á að þolinmæði sé nauðsynleg þegar lúxusvörur eru settar á markað. „Lögð er áhersla á gæði og módelhönnun og vörurnar eru því í frekar háum verðflokki.“ Í því sambandi segir hann að Vala kosti um 4.000 dollara, um hálfa milljón króna. „Þetta er hágæðavara.“