Björg í bú Refur á Hornströndum með langvíu í kjaftinum.
Björg í bú Refur á Hornströndum með langvíu í kjaftinum. — Ljósmynd/David Gibbon
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Fjögurra ára vinnu á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands við skráningu og kortlagningu refagrenja lauk að mestu í lok síðasta árs. Skráð hafa verið yfir 5.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Fjögurra ára vinnu á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands við skráningu og kortlagningu refagrenja lauk að mestu í lok síðasta árs. Skráð hafa verið yfir 5.500 greni í öllum hreppum á landinu, en það gæti samsvarað 80-90% af öllum grenjum, að sögn Esterar Rutar Unnsteinsdóttur spendýravistfræðings.

Hún segir að út frá veiðigögnum frá 2000-2015 megi gróflega ætla að 1.500-1.700 greni hafi verið í ábúð hvert ár, en í refastofninum eru nú talin vera 7-8 þúsund dýr. Minnstur var stofninn um 1.300 dýr um 1980. Mörg grenin hafi verið í ábúð í fjölda ára, jafnvel í aldir, og þar hafi búið margar kynslóðir ref fram af ref.

Upplýsingar um greni hafa að mestu fengist úr veiðiskýrslum Umhverfisstofnunar frá árunum 1989-2015. Fyrir liggur að bera staðsetningar grenja undir staðkunnuga og uppfæra kortið eftir því sem leiðréttingar berast. Ester Rut segir að kortlagning refagrenja sé tímamótaverk og upplýsingarnar gagnist ekki síst til að kanna útbreiðslu og ábúðarþéttleika í tengslum við stofnbreytingar hjá refnum.

Þéttbýlast á Vestfjörðum

Ester Rut segir að Vestfirðir séu langþéttbýlasta svæði refa á landinu, líklega vegna lengdar strandarinnar miðað við flatarmál lands.

„Ströndin sér refum fyrir fæðu allan ársins hring og fuglabjörgin veita ríkulega yfir þann tíma þegar tímgun á sér stað og uppvöxtur afkvæma. Greni eru um allt land, meðfram ströndinni, upp til fjalla og fram til heiða,“ segir Ester. Hún segir að á grenjakortinu sem nú hefur verið unnið sjáist að næg grenstæði séu fyrir hendi og þau séu því ekki takmarkandi þáttur.