Sóttvarnargrímur Sífellt fleiri bera grímu til að verjast kórónuveirunni.
Sóttvarnargrímur Sífellt fleiri bera grímu til að verjast kórónuveirunni. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Covid vekur okkur til umhugsunar um mikilvægi neföndunar. Neföndun er náttúruleg leið líkamans til að anda en aðalhlutverk munnsins er að borða og tala,“ segir Hrönn Róbertsdóttir, eigandi tannlæknastofunnar Brossins.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Covid vekur okkur til umhugsunar um mikilvægi neföndunar. Neföndun er náttúruleg leið líkamans til að anda en aðalhlutverk munnsins er að borða og tala,“ segir Hrönn Róbertsdóttir, eigandi tannlæknastofunnar Brossins.

Sífellt fleiri þurfa nú að bera grímu fyrir vitum sér vegna kórónuveirunnar og reynist grímunotkun sérstaklega erfið fyrir þá sem hafa vanið sig á munnöndun eða almenna oföndun, en allir sem anda með munninum ofanda. Það er því mikilvægt fyrir fólk að grípa tækifærið núna, nýta sér aðstæður og grímunotkun til að þjálfa sig upp í hægari öndun með nefinu, segir Hrönn, en öndun á að vera næstum ósýnileg, með þindinni og nefinu og um það bil 8-12 andardrættir á mínútu eða 4-6 lítrar af lofti.

Hrönn segir að ýmsar ástæður séu fyrir því að margt fólk sé farið að anda með munninum í stað nefsins; streita, mataræði og matarvenjur, of heitt húsnæði, ofnæmi og stíflað nef. Hún segir að þetta sé ekki nýtt vandamál en aukin grímunotkun geri vandamálið sýnilegra því flestir sem anda með munninum eru viðkvæmari fyrir koldíoxíði. Við grímunotkun upplifi þetta fólk meiri köfnunartilfinningu. „Ef öndun er eðlileg ætti tímabundin grímunotkun ekki að trufla. Gríman gerir okkur að minnsta kosti meðvituð um öndunina sem annars er ósjálfráð. Við getum ekki lagað það sem við ekki sjáum,“ segir Hrönn.

Getur leitt til tannskemmda

Aðspurð segir hún að á sinni tannlæknastofu sé unnið mikið með öndunarþjálfun í tengslum við munnöndun bæði hjá börnum og fullorðnum, meðal annars vegna bitskekkju og kæfisvefns. „Munnöndun er að verða sífellt algengari en augljósar afleiðingar munnöndunar geta meðal annars verið munnþurrkur, þurr hósti, andremma, tannholdsbólgur og tannskemmdir. Munnöndun á sér líka alvarlegri afleiðingar eins og hrotur, svefntruflanir, bit- og tannskekkjur og óeðlilegan þroska kjálka hjá börnum.

Gríman ætti að vera góð ábending fyrir fólk að huga að öndun. Nefið er líffærið sem er hannað til að anda með. Það síar, hitatemprar, rakamettar og hefur bakteríudrepandi áhrif, og gegnir því mikilvægu hreinsi- og varnarstarfi. Í munninum eru engar slíkar varnir, það fer allt beint niður í lungun.“