Guðmundur Arnfinnsson yrkir á Boðnarmiði og kallar „Allt í steik“: Farsóttarþreytu er farið að gæta, fjölgar hér smitunum jafnt og þétt, vistun í sóttkví menn verða að sæta, varla oss gleður ein einasta frétt.

Guðmundur Arnfinnsson yrkir á Boðnarmiði og kallar „Allt í steik“:

Farsóttarþreytu er farið að gæta,

fjölgar hér smitunum jafnt og þétt,

vistun í sóttkví menn verða að sæta,

varla oss gleður ein einasta frétt.

Dagbjartur Dagbjartsson skrifar: „Eitt af þekktari kvæðum Steins Steinarr er Gras sem er að nokkru leyti byggt á kvæði Carls Sandburg, Grass, sem Magnús Ásgeirsson hafði áður þýtt og vildi svo slysalega til við frumbirtingu á kvæði Steins að láðist að geta þess að um þýðingu væri að ræða. Nokkrar umræður urðu um þessi mál og sökuðu sumir Stein um ritstuld. Af því tilefni orti Leifur Haraldsson eina af sínum meinlegu vísum:

Um hirðusemi er hneyksli næst að fjasa,

sú höfuðdyggð af náð er mönnum veitt.

Hjá Carli Sandburg kennir margra grasa

- menn komast varla hjá að taka eitt.

Indriði á Skjaldfönn rifjar upp „Haustvísu“ eftir Ólaf Björn Guðmundsson lyfjafræðing, en hann dó árið 2008:

Þau hittust á haustdegi köldum,

það var hrollkalt að búa í tjöldum.

En Geir átti romm

og Gunna varð bomm.

Ég veit ekki af hvers konar völdum.

Jón Atli Játvarðarson vitnar til þess, að hann hafi tekið upp 100 kíló af kartöflum fyrir dóttur sína og tengdason, en þau voru upptekin við daglegt amstur og frostnætur í kortunum. Hann tekur síðan fram, að kartöflur séu á borðum meðan hann þyngist ekki meir en um 1,5 kg.

Ég hirði lítt fisk eða foreldað ket

og fylgi helst nautnum og losta.

Kartöflur bústnar ég brasa og ét

í beinlínu heimfengra kosta.

Heiðreki Guðmundssyni skáldi var boðið í flugferð ásamt blaðamanni:

Fljúgum yfir fjöll og snjó,

fagrar birtast sýnir.

Hærra uppi eru þó

ýmsir vinir mínir.

Heiðrekur orti á skemmtigöngu:

Andann dreg ég djúpt og hylli

dýrð vors bæjar, sæll og hress,

er ég rölti einn á milli

Öskuhauga og Krossaness.

Um „þessi nýju kerti“ orti Heiðrekur:

Það varpaði birtu um bæjargöng

ef borin var týra í fjósið.

Nú þekki ég mannkerti mörg og löng.

En maður sér ekki ljósið.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is