Endurbætur Á leikskólanum Ægisborg í Vesturbæ Reykjavíkur hefur lóðin verið tekin í gegn og skipt um leiktæki. Þetta mæltist vel fyrir hjá krökkunum á leikskólanum.
Endurbætur Á leikskólanum Ægisborg í Vesturbæ Reykjavíkur hefur lóðin verið tekin í gegn og skipt um leiktæki. Þetta mæltist vel fyrir hjá krökkunum á leikskólanum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Við erum mjög ánægð með útkomuna og krakkarnir voru afskaplega spenntir að fá að prófa nýju leiktækin,“ segir Auður Ævarsdóttir, leikskólastjóri á Ægisborg í Vesturbæ Reykjavíkur.

„Við erum mjög ánægð með útkomuna og krakkarnir voru afskaplega spenntir að fá að prófa nýju leiktækin,“ segir Auður Ævarsdóttir, leikskólastjóri á Ægisborg í Vesturbæ Reykjavíkur.

Verið er að ljúka við endurbætur á lóð leikskólans og virðist vel hafa tekist til. Lögð var áhersla á að lóðin sé fjölbreytt og krefjandi fyrir eldri börnin, að sögn Auðar. Þetta var seinni hluti endurbótanna en í fyrra var endurgert svæðið næst leikskólahúsinu.

Þetta var síður en svo eina framkvæmdin við skóla í borginni. Vegna áhrifa kórónuveirunnar var bætt við fjármunum til endurgerðar skóla- og leikskólalóða í Reykjavík. Framlag til grunnskóla fór úr 200 milljónum í 270 milljónir og framlag til endurgerðar leikskólalóða fór úr 300 milljónum í 525 milljónir. Framkvæmdum þessum er að mestu lokið eða þær eru á lokametrunum.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg fóru 45 milljónir af þeim sjötíu sem bættust við endurgerð grunnskólalóðanna í Brúarskóla og í lóð Ártúnsskóla fóru 25 milljónir. Af þeim 225 milljónum sem komu til viðbótar við endurgerð leikskólalóðanna, fóru 45 milljónir á Garðaborg, 30 milljónir á Furuskóg, 20 milljónir á Hólaborg, 25 milljónir á Sólborg, 20 milljónir á Langholt-Sunnuborg, 20 milljónir á Sunnufold-Frosta og 65 milljónir í Langholt-Holtaborg. hdm@mbl.is