Öllum leikjum á Íslandsmótunum í handknattleik og körfuknattleik hefur verið frestað næstu tólf dagana, eða til mánudagsins 19. október, vegna tilmæla sóttvarnalæknis og almannavarna um að gert yrði hlé á íþróttastarfi vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.
Knattspyrnusamband Íslands tilkynnti enn fremur í gærkvöld að öllu mótahaldi á Íslandsmótinu yrði frestað um eina viku, eða til 14. október.
HSÍ og KKÍ stóðu frammi fyrir því að mælst var til þess að engir íþróttaviðburðir færu fram innanhúss en hins vegar hefði KSÍ getað haldið áfram keppni utanhúss með mjög ströngum reglum um sóttvarnir og án áhorfenda.
Tvær umferðir í hvorri grein
Í handboltanum þýðir þetta að tveimur umferðum í úrvalsdeildum karla og kvenna hefur verið frestað. Konurnar áttu að leika 4. umferð deildarinnar frá kvöldinu í kvöld til laugardags og 5. umferðina laugardaginn 17. október.Karlarnir áttu að leika fimmtu umferð sína frá laugardegi til þriðjudags og sjöttu umferð 17. og 18. október.
Sama er að segja um efstu deildirnar í körfuboltanum. Konurnar áttu að leika sína fjórðu umferð í gærkvöld og fimmtu umferðina næsta miðvikudag. Karlarnir áttu að leika aðra umferð á föstudag og laugardag og þriðju umferðina viku síðar.
Engin frestun hjá körlunum
Í knattspyrnunni hefur viku frestun ekki áhrif á keppni í úrvalsdeild karla en þar er ekki umferð á dagskrá fyrr en fimmtudaginn 15. október vegna landsleikjanna næstu daga. Fjórar síðustu umferðir deildarinnar eiga að fara fram á tímabilinu 15. til 31. október.Hins vegar átti að leika sautjándu og næstsíðustu umferð úrvalsdeildar kvenna á laugardaginn kemur, ásamt því að tveir áður frestaðir leikir KR-inga áttu að fara fram á þessu tímabili. Viðureign Fylkis og KR sem átti að fara fram í gærkvöld var blásin af.
Tveimur umferðum er ólokið í úrvalsdeild kvenna og einni til tveimur umferðum í neðri deildum karla og kvenna. KSÍ getur hvenær sem er blásið Íslandsmótið endanlega af og þá mun staða liða, samkvæmt hlutfalli stiga og leikja, verða endanlega lokastaða í viðkomandi deildum. vs@mbl.is