Jakob Steingrímsson fæddist í Reykjavík 20. desember 1943. Hann lést á heimili sínu í Reykjavík 27. september 2020. Foreldrar hans voru Steingrímur Jónatansson, f. 11.2. 1918, d. 26.9. 1977, og Hulda Guðmundsdóttir, f. 10.8. 1916, d. 6.6. 1996. Systir Jakobs er Hildur, f. 14.5. 1956.
Jakob kvæntist hinn 30.12. 1967 Karen Þorvaldsdóttur frá Reykjavík, f. 7.5. 1945. Foreldrar hennar voru Þorvaldur Jónsson, f. 25.12. 1916, d. 9.1. 1993, og Margrét Gísladóttir, f. 7.10. 1918, d. 3.9. 2005. Börn Jakobs og Karenar eru: 1) Hulda, f. 20.11. 1967, sambýlismaður Jón Árni Rúnarsson. 2) Anna Margrét, f. 28.7. 1975, eiginmaður Tómas Gunnar Viðarsson. Börn þeirra eru Brynjar Berg, Sölvi Rafn og Daníel Darri.
Jakob starfaði alla sína tíð hjá Landsbankanum, lengst af í lögfræðideildinni. Hann var virkur í félagsstörfum og var meðal annars í stjórn Handknattleiksdeildar Ármanns og Handknattleiksráðs Reykjavíkur.
Útför hans fer fram frá Árbæjarkirkju í dag, 8. október 2020, klukkan 13.
Það er erfitt að trúa því að Kobbi, tengdapabbi, sé farinn frá okkur. Það er sárt og óraunverulegt.
Kobbi reyndist mér alltaf vel og ég man alltaf eftir því hvað hann og Karen tóku mér vel þegar ég kom inn í fjölskylduna. Hann spurði spurninga á hæverskan hátt. Honum þótti líka skemmtilegt þegar ég hóf störf hjá Landsbankanum enda hafði hann unnið þar í fjöldamörg ár og þekkti allt og alla og þótti vænt um bankann sinn. Og ekki fannst honum leiðinlegt að rifja upp skemmtilegar sögur eða spyrja mig hvort ég þekkti til gamalla starfsmanna.
Aldrei heyrði ég Kobba tala illa um nokkurn mann. Og hann vildi alltaf allt fyrir alla gera. Þegar við vorum að byggja eða vinna í garðinum eða smíða pallinn var hann alltaf að bjóða okkur aðstoð, gefa góð ráð og lána okkur verkfæri, já eða koma með kerruna. Enda átti Kobbi allar græjur og fannst gott að geta aðstoðað á sinn hátt því oft var bakið að stríða honum.
Takk fyrir allt, Kobbi, þín verður sárt saknað.
Tómas Gunnar.