Nes á Seltjarnarnesi er kjörinn framtíðarstaður fyrir Náttúruminjasafn Íslands með hliðsjón af nánd við hafið, fjölbreyttri náttúru staðarins og menningarsögulegu gildi hans. Hús Lækningaminjasafns Íslands sem er hálfbyggt á Nesi hentar vel fyrir starfsemi safnsins. Auðvelt er að endurhanna húsið skv. nýjum þörfum, framkvæmdir tækju ekki langan tíma og áætlaður kostnaður er um 650 milljónir króna.
Þetta segir í skýrslu starfshóps mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem greindi möguleika í húsnæðismálum Náttúruminjasafns Íslands. Sem sakir standa er safnið, sem sett var á laggirnar árið 2007, ekki í eigin húsnæði, hvorki til sýningahalds né annars. Þó er undir þess merkjum uppi sýningin Vatnið í náttúru Íslands í Perlunni sem var opnuð 2018.
„Það er löngu tímabært að þjóðin eignist glæsilegt náttúrufræðisafn og að því stefnum við, segir á vef menntamálaráðuneytisins, haft eftir ráðherranum Lilju Alfreðsdóttur.
Það var 2007 sem fulltrúar frá Seltjarnarnesbæ, menntamálaráðuneytinu, Læknafélagi Íslands, Læknafélagi Reykjavíkur og Þjóðminjasafni Íslands sömdu um byggingu og rekstur Lækningaminjasafns Íslands. Framkvæmdir hófust 2008 og átti að ljúka árið eftir, en bankahrunið felldi þær áætlanir. Hefur húsið, sem er um 1.400 fermetrar að grunnfleti, staðið fokhelt um árabil.
Svo fór árið 2012 að Seltjarnarnesbær sagði sig frá samningi um að bæjarfélagið stofnaði og ræki safn um lækningaminjar – en bauð ríkinu húsið fyrir náttúruminjasafn sem þá var í undirbúningi. Nú hefur fýsileiki þess verið kannaður og bendir margt til að byggingin sé ákjósanleg í því skyni, eins og að framan greinir. sbs@mbl.is