[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjórn og handrit: Roy Andersson. Aðalleikarar: Bengt Bergius, Anja Broms, Marie Burman, Amanda Davies. Framleiðslulönd: Svíþjóð, Þýskaland, Noregur, Frakkland. Framleiðsluár: 2019. Tímalengd: 76 mínútur.

Sænski leikstjórinn Roy Andersson er einn dáðasti kvikmyndahöfundur Svía á 21. öldinni. Einstakur og tragíkómískur frásagnarheimur hans birtist áhorfendum fullskapaður í þríleiknum um mannlega tilvist, sem samanstendur af kvikmyndunum Söngvar ofan af annarri hæð (2000), Þú sem lifir (2007) og Dúfa sat á grein og hugleiddi lífið og tilveruna (2014).

Nýjasta og sjötta kvikmynd Anderssons, Um óendanleikann , var frumsýnd í fyrra og hóf Bíó Paradís almennar sýningar á henni í vor, rétt áður en fyrsta bylgja kófsins skall á. Sýningar á kvikmyndinni eru nú hafnar á ný í þessu íslenska lögheimili listabíósins og er þetta sennilega í fyrsta sinn sem kvikmynd eftir Andersson er í almennri sýningu hér á landi. Flest fyrri verka hans hafa þó ratað í takmarkaða sýningu á RIFF og öðrum kvikmyndahátíðum.

Um óendanleikann sver sig í ætt við áðurnefndan þríleik sem Andersson er hvað frægastur fyrir. Kvikmyndin samanstendur af rúmlega þrjátíu senum og er hverri þeirra miðlað í einu samfelldu og óklipptu myndskeiði. Myndavélin er alltaf óhreyfð og mætti kalla nálgun Anderssons á viðfangsefnið myndlistarlega, þar sem gaumgæfileg uppröðun og samsetning hluta innan kyrrstæðs myndramma býr til heildstæða fagurfræði. Þó er þetta unnið af mikilli naumhyggju og sjónarspilið æpir aldrei á áhorfandann.

Myndefnið er einatt af ýkja hversdaglegum toga og er því gjarnan lýst af alviturri kvenkyns sögumannsrödd sem mælir í þátíð: „Ég sá ungan mann sem hafði ekki fundið ástina“, „Ég sá móður sem átti í vandræðum með skóbúnað sinn“, „Ég sá mann sem hafði gengið á jarðsprengju og var sorgmæddur“ og svo framvegis. Svipmyndir þessar eru oftast nær úr sænskum nútíma og lýsa í senn eymd, leiðindum og fáránleika sem fyrirfinnst í mannlegri tilvist. Þó sjáum við einnig senur úr sögulegri fortíð, til að mynda af Hitler og SS-sveinum í neðanjarðarbyrginu en einnig sigraða þýska hersveit í halarófu á leið í vinnubúðir í Síberíu. Upphafsatriðið prýða kona og maður sem ríghalda hvort í annað og svífa í faðmlagi milli skýjaslæðna og undir hljómar englakór sem gefur senunni vigt og dramatískan blæ. Um miðbik myndar bregður svífandi parinu aftur fyrir í víðari mynd og í ljós kemur að undir flugi þeirra liggur evrópsk stórborg í rústum. Ofbeldi í aldanna rás og arfleifð þess er þar með ætíð undir í myndinni, jafnvel þegar fylgst er með miðaldra manni sem hefur drepið á bílnum rétt fyrir utan Stokkhólm.

Samhengi milli atriða myndarinnar er lítið, einna helst þematískt, og er ekki um línulega frásögn að ræða. Þó koma nokkrar persónur fyrir í fleiri en einu atriði og eiga þær sameiginlegt að vera allar sænskir karlar í eldri kantinum í einhvers konar tilvistarkreppu. Eftirminnilegust þeirra er presturinn sem hefur glatað trúnni. Í martröð sinni ber hann kross á bakinu upp þröngt múrsteinastræti og er hýddur og niðurlægður af samferðafólki sínu. Síðar sjáum við hann drekka messuvínið af stút á meðan á messu stendur og leita ítrekað á náðir sálfræðings vegna guðsmissisins. Vandamál prestsins kallast á við prestinn í Vetrarnótt Ingmars Bergmans en í kaldhæðnum heimi Anderssons leitar presturinn úrkula vonar á náðir sálfræðingsins í stað þess að nota mátt bænarinnar.

Frásagnarform myndarinnar líkist helst meinfyndnum sketsagrínþætti sem hefur farið í gegnum grámyglulega síu skandinavíska listabíósins. Myndin er alfarið tekin upp í kvikmyndaveri Anderssons og því allt sem fyrir augu ber meðhöndlað og staðsett á meðvitaðan hátt af höfundi þess. Það er líkt og Andersson eimi hversdagleikann í öreindir sínar og spýti honum aftur út í kvikmyndalegum búningi. Þetta veitir myndinni lítillega óraunverulegt yfirbragð, sem sést hvað greinilegast í förðuninni (leikarar eru ósjaldan málaðir eins og vofur). Þetta er ekki endilega bersýnilegt í fyrstu, heldur fær maður hægt og bítandi tilfinningu fyrir óraunveruleikanum þegar líður á myndina. Í einni senu fylgist áhorfandinn til að mynda með lest koma og fara. Kona verður eftir á lestarpallinum og bíður vonsvikin eftir að unnustinn taki á móti sér. Á endanum kemur sá á harðaspretti og biðst afsökunar á töfinni og faðmar og kyssir konuna. Þessi svipmynd varir líklega í tvær mínútur en það var ekki fyrr en í enda atriðsins að gagnrýnandi tók eftir því að skýin í bakgrunni myndrammans hreyfðust ekki og væru líklega máluð á baktjald. Það sem í fyrstu virðist einfalt er í raun margslungið.

Helst mætti finna að því í myndinni að nokkrar af léttvægari senum hennar, til að mynda af konunni sem elskar kampavín og stúlkunum sem dansa fyrir utan veitingastað, virðast vera uppfyllingarefni. Gagnrýnandi kom á myndina sem nýgræðingur í höfundarverki Anderssons og spillti það alls ekki fyrir. Um óendanleikann er í fullkominni lengd (76 mínútur, en Andersson var 76 ára við útgáfu myndarinnar) og í senn fyndin og sorgleg – og alltaf áhugaverð á að líta. Óhætt er að hvetja fólk til að berja hana augum í bíói – og vera þá sem næst tjaldinu.

Gunnar Ragnarsson

Höf.: Gunnar Ragnarsson