Útgáfa Guðni Th. Jóhannesson með bókina. Með honum á myndinni eru f.v. vinstri Jón Baldvin, Helgi Már og Atli Rúnar Halldórssynir sem gefa út.
Útgáfa Guðni Th. Jóhannesson með bókina. Með honum á myndinni eru f.v. vinstri Jón Baldvin, Helgi Már og Atli Rúnar Halldórssynir sem gefa út.
Út er komin bókin Beckmann, saga tréskurðarmeistarans Wilhelms Ernsts Beckmanns sem flúði undan nasistum frá Þýskalandi til Íslands árið 1935, settist hér að og lést 1965.

Út er komin bókin Beckmann, saga tréskurðarmeistarans Wilhelms Ernsts Beckmanns sem flúði undan nasistum frá Þýskalandi til Íslands árið 1935, settist hér að og lést 1965. Saga hans er dramatísk á köflum en fáum kunn og fremur hljótt hefur líka verið um merkilega og fjölbreytta listsköpun hans. Eftir Beckmann eru meðal annars altaristöflur, skírnarfontar og fleiri munir í að minnsta kosti 13 kirkjum hérlendis. Hann vann að húsgagnaframleiðslu og skar út margvíslega nytjahluti og listmuni, teiknaði og málaði og vann við grafíska hönnun. Beckmann teiknaði til að mynda merki Hótels Borgar í Reykjavík 1946. Það er enn notað.

Meðal höfunda efnis í bókinni um Beckmann eru Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur, Lilja Schopka-Brasch, íslenskur sagnfræðingur búsettur í Þýskalandi, og Hrafn Andrés Harðarson, formaður stjórnar Stofnunar Wilhelms Beckmanns. Svarfdælasýsl forlag sf. gaf bókina út á vegum Stofnunar Wilhelms Beckmanns.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, fékk bók afhenta í útgáfuhófi í safnaðarheimilinu Borgum í Kópavogi á dögunum og afhenti svo tveimur ungum myndlistarmönnum starfslaun Stofnunar Wilhelms Beckmanns, Rannveigu Jónsdóttur, f. 1992, og Fritz Hendrik IV, f. 1993, 1,2 milljónir króna hvoru.

Wilhelm Beckmann bjó lengst af í Kópavogi og var fyrsti bæjarlistamaður Kópavogs. Yfirlýst markmið Stofnunar Wilhelms Beckmanns er að varðveita sögu, listsköpun og listaverk hans, kynna þau almenningi og styðja unga myndlistarmenn til náms og starfs.