Meyvant Þórólfsson
Meyvant Þórólfsson
Eftir Meyvant Þórólfsson: "Vísindalegt læsi er lykillinn að því að skilja samhengi hlutanna; þess vegna er ástæða til að styðja þær fyrirætlanir stjórnvalda að auka vægi náttúruvísinda í almenna skólakerfinu."

Meðal afleiðinga hnattvæðingar er samanburður menntakerfa undir merkjum alþjóðlegra rannsókna. Niðurstöður hinnar svonefndu TIMSS-rannsóknar IEA um miðjan 10. áratug síðustu aldar ollu eftirminnilegu óðafári hérlendis, þar sem íslenskt skólakerfi fékk slæma útreið hvað kunnáttu nemenda í náttúruvísindum og stærðfræði snerti. Af niðurstöðum PISA-rannsókna OECD má ráða að staðan hefur lítt batnað eftir því sem liðið hefur á nýja öld. Þær benda til að læsi íslenskra unglinga í náttúruvísindum hafi hrakað jafnt og þétt þá tvo áratugi sem PISA hefur verið við lýði. Samkvæmt niðurstöðum 2015, þegar megináhersla var síðast lögð á læsi í náttúruvísindum, lentu 26% íslenskra ungmenna í lægsta þrepi af 6 mögulegum. Þau töldust því ekki hafa náð lágmarkshæfni til að nýta sér þekkingu á sviði náttúruvísinda til gagns í lífi og starfi. Aðeins 4% töldust hins vegar hafa náð afburðahæfni á þrepum 5 og 6.

Hnattrænt kapphlaup

Þátttökuþjóðum PISA hefur fjölgað jafnt og þétt; til viðbótar OECD-ríkjunum 36 tóku 43 önnur ríki þátt árið 2018 og dylst engum að pólitísk áhrif PISA fara vaxandi. Þjóðarleiðtogar hafa hneigst til að bregðast við slöku gengi sinna skólakerfa með skyndilausnum og fjölmiðlar hafa ekki látið sitt eftir liggja. Dramatísk viðbrögð fyrrverandi menntamálaráðherra Noregs, Kristin Clemet, voru skýr vottur um þá þróun sem síðan átti sér stað, þegar hún lét þau orð falla að slæmt gengi í PISA væri eins og að koma heim frá vetrarólympíuleikum án gullmedalíu. Þar með líkti hún þátttöku í PISA við hnattrænt kapphlaup á borð við Ólympíuleika. Í kjölfarið boðaði hún djarfar breytingar á norska skólakerfinu í von um að bæta árangur sinnar þjóðar á næstu „læsisleikum“ OECD.

Af svipuðum meiði var fjárfrekt átak Barack Obama, fv. Bandaríkjaforseta, í menntamálum árið 2009, Race to the Top. Þannig hafa þjóðarleiðtogar, fjölmiðlar og almenningur í vaxandi mæli litið á samanburðarrannsóknir menntakerfa sem kapphlaup, eins og höfundar ritsins The Global Education Race: Taking the Measure of PISA and International Testing lýstu svo skilmerkilega. Þar er þróun þessa hnattræna kapphlaups rakin og bent á ýmsar óheppilegar afleiðingar og áhrif PISA. Aftur á móti benda bókarhöfundar einnig á mögulega gagnsemi PISA, sem mætti gefa meiri gaum en raun ber vitni.

„Við þurfum ekki fleiri skóflur ef enginn er að moka“

Ísland er þátttakandi í þessu hnattræna kapphlaupi og hefur verið það um nokkurt skeið. Stjórnvöld hér á landi hafa nú kynnt menntastefnu sína til ársins 2030. Meðal boðaðra breytinga þar er að vægi náttúruvísinda á unglingastigi verði aukið til muna. Rökin eru viðvarandi slakur árangur í PISA og einnig að færa þurfi hlut náttúruvísinda í námskrám nær því sem þekkist hjá nágrannaþjóðum okkar. Ég tel ástæðu til að styðja þessar fyrirætlanir, sér í lagi vegna þess að mikilvægi vísindalegs læsis fer að mínu mati vaxandi í almennri menntun nú á dögum sem forsenda virkrar borgaravitundar.

Fjölmargar rannsóknir á menntakerfum hafa reyndar sýnt að slíkar ofansæknar umbætur (top-down reform), þar sem yfirvöld hlutast til um innra starf skóla, eru vandasamar og krefjast trausts og samvinnu allra sem eiga hlut að máli. Þess vegna ber að fagna þeirri ákvörðun menntamálayfirvalda að kynna þessar fyrirætlanir í samráðsgátt og kalla eftir umsögnum. Þegar þetta er skrifað höfðu 49 umsagnir borist, auk þess sem ýmsir aðilar hafa tjáð sig um þær í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Þannig hafa skapast gagnlegar umræður meðal hagsmunaaðila. Að vísu kemur í ljós að andstaðan við þessar breytingar er sterk. Í umsögnunum er náttúruvísindum t.d. lýst sem óspennandi bóknámsfagi, sem sé til þess fallið að láta nemendum leiðast; það að auka veg þess byggi á úreltri kerfishugsun frá síðustu öld. Varað er við stýrandi áhrifum PISA, ákjósanlegra sé að hlusta á raddir nemenda og leyfa þeim að velja sér skapandi viðfangsefni miðað við áhugasvið, þar sem það fyrirbyggi kvíða og vanlíðan. Og vitnað er í þekkta samlíkingu þar sem dýrin í skóginum eru látin þreyta samræmt próf í því að klifra upp í tré.

Höfundur þessarar greinar óttast að í þessum umsögnum felist vanþekking á eðli og mikilvægi náttúruvísinda í almennri menntun. Einn þekktasti hugsuður 19. aldar, Herbert Spencer, var ekki í vafa þegar hann hélt því fram að náttúruvísindi væru mikilvægust allra námssviða í almenna skólakerfinu. Auðveldlega má færa fyrir því rök að góð náttúruvísindamenntun sé enn þarfari nú á dögum en þá og því mikilvægt að auka veg hennar í viðmiðunarstundaskrá. En eins og margir benda réttilega á í samráðsgáttinni er vandinn þar með ekki leystur.

Náttúruvísindi eru nefnilega ekki dæmigert bóknámsfag kennt við hefðbundnar aðstæður í almennri kennslustofu, heldur krefst þetta námssvið skapandi og gagnrýninnar hugsunar og verklegrar færni jafnt innan veggja skóla sem utan, auk sérstaks búnaðar, gagna, aðstöðu og sérbúinna kennslustofa. Þegar kemur að forsendum þeirra sem ætlað er að kenna náttúruvísindi syrtir því miður í álinn. Í einni umsögninni er svo komist að orði að slakt gengi skýrist af því að „grunnskólakennarar eru upp til hópa ekki náttúrufræðimenntaðir... og hafa því ýmist ekki metnað fyrir eða skilning á því sem þeim er ætlað að kenna“. Þetta eru stór orð sem taka þarf alvarlega og krefjast því nánari skoðunar. Sami aðili lauk máli sínu þannig: „Við þurfum ekki fleiri skóflur ef enginn er að moka.“

Janusarandlit PISA

Albert Einstein sagðist ekki vilja líta á skólanemendur sem ílát til að fylla, heldur kyndla er þyrfti að „lýsa upp“. Það „að vera upplýstur“ er önnur tveggja merkinga sem orðabækur gefa orðinu læsi, lykilhugtaki í rannsóknum PISA. Hin merkingin er „að vera læs og skrifandi“. Eins og kunnugt er þá snýst PISA um rannsóknir á almennu læsi, stærðfræðilegu læsi og vísindalegu læsi. Hér er það síðastnefnda til umfjöllunar. Rannsókn á vísindalegu læsi felst með öðrum orðum í að meta hvort 15 ára unglingar séu nægilega „upplýstir“, þ.e. læsir á náttúruvísindaleg hugtök og hugmyndir til að geta tekið þátt í verkefnum og samræðu um náttúruvísindi og tækni sem virkir þegnar í nútímasamfélagi. Svo aftur sé vitnað í orðabækur má benda á að þar er ólæsi (illiteracy) m.a. skýrt sem þekkingarskortur eða fáfræði um ákveðið þekkingarsvið.

PISA-rannsóknin er eins og tvíeggjað sverð, horfir í tvær áttir eins og rómverski guðinn Janus og hefur því bæði veikleika og styrkleika. Margsinnis hefur verið bent á veikleika rannsóknarinnar, til dæmis hið hnattræna kapphlaup sem áður var lýst og það skelfilega óðafár sem því fylgir með óheppilegum afleiðingum. Í öðru lagi þykir áherslan á almennt læsi, stærðfræðilegt læsi og vísindalegt læsi hafa dregið athyglina frá öðrum mikilvægum þáttum menntunar, t.d. list- og verknámi. Í þriðja lagi hefur verið bent á að PISA stuðli að einsleitni og stöðlun menntunar á heimsvísu. Í fjórða lagi hafa ýmsir dregið í efa réttmæti og samanburðarhæfi gagnanna frá einu menningarsvæði til annars; verkefnin eru jú lögð fyrir á ólíkum tungumálum, þýðingar eru misgóðar og samhengi viðfangsefna misframandi eða -kunnuglegt svarendum. Loks þykir mörgum óljóst hvað PISA mælir í raun og veru og þar með hvað niðurstöður segja um gæði þeirra skólakerfa sem taka þátt.

Þrátt fyrir allt hefur PISA-rannsóknin þó tiltekna styrkleika sem ber að gefa gaum. Hnattvæðing er óumflýjanleg staðreynd og þar með ýmiss konar félagslegar, menningarlegar og efnahagslegar tengingar milli samfélaga heimsins. Hófleg og skynsamleg skoðun og túlkun PISA-niðurstaðna getur því tvímælalaust verið gagnleg, til dæmis athugun á því hvað þær segja um einkenni ólíkra menntakerfa, bakgrunn nemenda, líðan, viðhorf, jafnrétti til náms, aðgengi að upplýsingum, stafrænt læsi o.s.frv. Sjálf verkefnin í PISA eru samin af sérfræðingum í náttúruvísindamenntun. Þau má nýta sem fyrirmynd við skipulag náms og kennslu.

Hér á landi þekkjast dæmi um sveitarfélög og einstaka skóla sem hafa óskað eftir eigin niðurstöðum í því augnamiði að læra af þeim, til dæmis einn stór unglingaskóli í Reykjavík. Árið 2015 var árangur þess skóla í náttúruvísindum fyrir ofan meðaltal OECD og reyndar einnig fyrir ofan meðaltal Finnlands á meðan Ísland í heild var neðst allra Norðurlandaríkja. Vart þarf að taka fram að mun hærra hlutfall nemenda þessa skóla lenti í efri hæfniþrepum en á landinu í heild.

Vísindalegt læsi: Þekking á bláu reikistjörnunni, eðli hennar og umhverfi

Við tilheyrum öll bláu reikistjörnunni, sem hringsnýst um sólina eftir svonefndu lífbelti (habitable zone) sólkerfisins. Ásamt dýrum og plöntum lifum við og hrærumst undir viðkvæmum lofthjúpi hennar, sem verndar gegn áhrifum geislunar og inniber efni sem öllum lífverum eru nauðsynleg. Hvað sem allri tækniþróun líður, stafrænu læsi, fjórðu iðnbyltingunni eða kröfunni um sjálfstæði, skapandi hugsun, litagleði og fjölbreytileika, þá gilda hér sömu náttúrulögmál og þegar Newton sá eplið falla til jarðar og uppgötvaði lögmálið um þyngdarkraft og sömu lögmál efnafræðinnar og þegar Mendelejev kynnti til sögunnar útgáfu sína af lotukerfinu. Hér gilda enn sömu lögmál og gerðu plöntum og þörungum kleift að nýta ljósorku til tillífunar löngu áður en manneskjan kom til sögunnar. Því traustari sem þekking almennings er á þessum náttúrulögmálum og þar með á orkuflæði, lífbreytileika, vistkerfum, veirum, bakteríum, bylgjuhreyfingum og öðrum mikilvægum fyrirbærum af sviði náttúruvísinda, þeim mun meiri líkur eru á skynsamlegum aðgerðum til verndar jörðinni og lofthjúpi hennar, þ.e. „getu til aðgerða“ svo vísað sé í texta aðalnámskrár.

Vísindalegt læsi er lykillinn að því að skilja samhengi hlutanna. Neysluvörur nútímamanneskju hafa ferðast um jörðina þvera og endilanga. Fæst okkar íhuga uppruna þeirra, hvar þær voru framleiddar, af hverjum, við hvaða aðstæður eða hver fórnarkostnaðurinn var fyrir vistkerfið og fyrir samfélög víðs vegar um hnöttinn. Vísindalegt læsi eykur líkurnar á ábyrgri afstöðu í þeim efnum.

Höfundur er dósent við Háskóla Íslands.

Höf.: Meyvant Þórólfsson