Víkingur AK Síldarvertíð gekk vel og tók aðeins um þrjár vikur.
Víkingur AK Síldarvertíð gekk vel og tók aðeins um þrjár vikur. — Morgunblaðið/Eggert
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Veiðar íslensku skipanna á norsk-íslenskri síld eru langt komnar. Skip Brims hf., Venus NS og Víkingur AK, luku vertíðinni um helgina og liggja nú í Sundahöfn.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Veiðar íslensku skipanna á norsk-íslenskri síld eru langt komnar. Skip Brims hf., Venus NS og Víkingur AK, luku vertíðinni um helgina og liggja nú í Sundahöfn. Ingimundur Ingimundarson, útgerðarstjóri uppsjávarskipa hjá Brimi, segir að vertíðin hafi gengið einstaklega vel. Í gær var búið að landa um 73 þúsund tonnum af norsk-íslenskri síld, en heildarkvóti íslenskra skipa í ár er rúmlega 91 þúsund tonn.

„Það var eiginlega ekki hægt að hugsa sér betri gang í þessu,“ segir Ingimundur. „Við lönduðum fyrstu síldinni 11. september að lokinni makrílvertíð og þremur vikum síðar var búið að landa ellefu þúsund tonnum, sem var kvóti skipanna. Þegar best lét voru þau um þrjá tíma af miðunum fyrir austan land að bryggju á Vopnafirði og hráefnið var mjög gott, sérstaklega framan af vertíðinni. Skipin voru yfirleitt með 1.000-1.100 tonn og það tók þau nánast alltaf innan við sólarhring á miðunum að ná skammtinum.“

Aðspurður segir Ingimundur að verð fyrir síldina hafi verið þokkalegt miðað við aðstæður og heldur betra en í fyrra, þegar það var lágt. Langmest af síldinni er fryst fyrir markaði í austanveðri Evrópu, nema hvað nokkuð er saltað hjá Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði.

Íslensk síld og kolmunni

Skip Brims fara væntanlega til veiða á íslenskri sumargotssíld upp úr næstu mánaðamótum. Þar er ætlunin að veiða um 1.500 tonn, en kvótinn er ekki mikill, auk þess sem gætt verður að því að eiga eitthvað eftir af íslenskri síld til að eiga vegna meðafla á makrílveiðum næsta sumar.

Að þessu verkefni loknu verður stefnan tekin á kolmunnaveiðar í færeyskri lögsögu. Eitt íslenskt skip, Bjarni Ólafsson AK, hefur undanfarið verið á kolmunna fyrir austan land. Kolmunnakvóti ársins er 247 þúsund tonn og samkvæmt yfirliti á vef Fiskistofu er búið að landa um 187 þúsund tonnum.