Christopher Nolan
Christopher Nolan
Margir velta nú fyrir sér framtíð kvikmyndahúsa víða um heim sem hefur ýmist verið lokað eða fjöldatakmarkanir settar vegna Covid-19-farsóttarinnar.

Margir velta nú fyrir sér framtíð kvikmyndahúsa víða um heim sem hefur ýmist verið lokað eða fjöldatakmarkanir settar vegna Covid-19-farsóttarinnar. Guy Lodge, blaðamaður T he Guardian , er einn þeirra sem velt hafa þeim málum fyrir sér og segir í nýlegri grein hans á vef dagblaðsins að kvikmynd Christophers Nolans, Tenet , hafi mistekist að bjarga bíóhúsunum og að kvikmyndaverin séu nú hikandi við að frumsýna kvikmyndir sínar sem standi eða falli með bíóaðsókn.

Lodge bendir á að Tenet sé sú kvikmynd Nolans sem minnstum tekjum hafi skilað frá því The Prestige var frumsýnd fyrir 14 árum. Tenet kom loks í bíó eftir að hafa verið frestað í tvígang og sex vikum eftir frumsýningu voru miðasölutekjur 235 milljónir punda sem kann að hljóma vel í eyrum margra en er þó langt undir því sem síðasta kvikmynd hans, Dunkirk , skilaði á sínum tíma, 405 milljónum. Var sú tala þó lág í samanburði við miðasölutekjur af The Dark Knight Rises sem voru 830 milljónir. Framleiðslukostnaður Tenet var 154 milljónir punda og myndin því komin vel yfir núllið. Þó þykja tekjurnar mun lægri en búist var við en Lodge bendir á að framleiðendur geti verið kátir að hafa þó náð þeirri upphæð í kófinu. Miklar vonir voru bundnar við að Tenet myndi bjarga bíóhúsunum en Lodge telur myndina vera fórnarlamb hinna óvenjulegu aðstæðna. Við hafi svo bæst misjafnar viðtökur gagnrýnenda og umsagnir bíógesta virðist ekki hafa leitt til þess að fólk flykktist í bíó.

Lodge segir að mögulega hafi Warner Bros, framleiðandi myndarinnar, veðjað á ranga mynd til að bjarga bíóunum og veltir fyrir sér hvað hefði gerst ef nýja Bond-myndin, No Time to Die , hefði verið frumsýnd í hennar stað en henni hefur verið frestað fram á næsta vor.

Lodge segir aðsóknina að Tenet hafa hrætt kvikmyndaverin sem bindi nú vonir við vorið 2021. Bond kemur í apríl, Black Widow um svipað leyti sem og West Side Story eftir Spielberg. Lokanir Cineworld, annarrar umfangsmestu bíókeðju heims, á kvikmyndahúsum sínum í Bretlandi og Bandaríkjunum benda líka til þess að ástandið sé verulega slæmt í bíóheimum og hafa þær aukið áhyggjur manna af því að mögulega verði ekki mörg bíó eftir til að sýna myndirnar þegar loksins kemur að frumsýningum.