Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is „Við viljum halda strúktúrnum í launaumhverfinu þannig að ekki verði samanþjöppun á töxtunum. Ef sama krónutala flæðir yfir þá þjappast kjör ólíkra hópa saman.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

„Við viljum halda strúktúrnum í launaumhverfinu þannig að ekki verði samanþjöppun á töxtunum. Ef sama krónutala flæðir yfir þá þjappast kjör ólíkra hópa saman. Við viljum halda því launabili sem hefur verið á milli hópa,“ segir Reinhold Richter, trúnaðarmaður starfsmanna sem starfa fyrir ISAL í álverinu í Straumvík.

Samþykktu starfsmenn verkfallsboðun sem að óbreyttu verður að veruleika 1. desember næstkomandi. Í tilkynningu frá ISAL kemur fram að það séu vonbrigði að starfsfólk hafi samþykkt verkfall. Samkvæmt upplýsingum frá Reynhold felldu félagsmenn í VR verkfallsboðun í atkvæðagreiðslu.

70% þátttaka í kosningunni

Hins vegar tilheyra starfsmenn álversins einnig fjórum öðrum stéttarfélögum, Rafiðnaðarsambandinu, VM, Fit og Hlíf. Samþykktu þeir verkfallið með miklum meirihluta. Að sögn Reinholds var yfir 70% þátttaka í atkvæðagreiðslunni og 81,2% samþykktu verkfallsboðun. 306 voru á kjörskrá og 224 kusu.

Fram kom í tilkynningu frá ISAL í gær að starfsmönnum hefðu verið boðin kjör sem séu í samræmi við lífskjarasamninginn. „Fyrirtækið hefur þegar boðið stéttarfélögum hækkun upp á 24.000 krónur á regluleg laun í samræmi við lífskjarasamninginn sem þau hafa hafnað,“ segir í tilkynningunni.

ISAL
» Starfsfólk samþykkti verkfallsboðun í atkvæðagreiðslu.
» Félagsmenn VR höfnuðu því að fara í verkfall.
» 81,2% samþykktu verkfallsboðun í atkvæðagreiðslu.
» ISAL segir verkfallsboðunina vera mikil vonbrigði.