Sífellt dynja á landsmönnum góð ráð, hvernig við eigum að lifa lífinu svo að heilsan verði sem best og að við náum að forðast sóttir af ýmsu tagi. Sérstaklega hefur verið áberandi umræða vegna farsóttar sem kennd er við kórónur. Talið er að fólki sem reykir tóbak sé hættara við alvarlegum afleiðingum Covid 19 en þeim sem ekki reykja. Þetta veldur eðlilega áhyggjum, en hvað er þá til ráða?
Reykir þú og langar þig að hætta?
Rannsóknir benda til að á hverjum tíma vilji meirihluti þeirra sem reykja hætta. Það reynist sumum erfitt að finna stað og stund til þess. Svo eru þau sem finnst ekkert mál að hætta en segja grínsögur af því að þau byrji bara fljótlega aftur. Ósigrar í því ferli geta fælt fólk frá því að reyna að hætta. Það er lærdómsferli að ná að hætta að reykja, hver og einn þarf að skoða hvernig hans venjur eru, hversu sterk fíkn hans sé og hvaða aðferðir hafa brugðist áður. Þarna eru hliðstæður við það t.d. þegar börn læra að ganga. Á bak við þá færni eru endurteknar tilraunir til að rísa upp, ná jafnvægi og bregðast við óvæntum atburðum.
Heilsugæslan getur hjálpað
Í samtali við skjólstæðinga heilsugæslunnar er daglega opnað á umræðu um mikilvægi þess að hætta reykingum. Með ráðgjöf fagmanna og eftirfylgd er hægt að auka líkur á bindindi til langframa verulega. Viðmið í starfi heimilislækna er að hverjum þeim sem reykir bjóðist stuðningur við að hætta, einu sinni á ári. Gagnlegan fróðleik má nálgast á www.heilsuvera.is og í símaráðgjöf 800-6030 virka daga milli kl. 17 og 20. Það að hafa fallið í tóbaksbindindi er ekki tilefni til að gefast upp, heldur að draga lærdóm af hverri tilraun, hvað gekk vel og hvað illa.Aðstæður okkar og umhverfi eru misjafnlega styðjandi þegar kemur að reykleysi. Ef aðrir reykja á heimili eða vinnustað getur verið erfiðara að ná árangri. Hins vegar er mikill styrkur að því að fá fleiri með sér í verkefnið, þá verða breytingar á umhverfi auðveldari. Vinnustaðaátak í meðferð við tóbaksfíkn hefur sýnt sig að vera mjög árangursrík og jákvæð leið til reykleysis. Sama getur átt við á heimilum, ef maki reykir einnig þá er mikill fengur að því að fá hann með í för.
Reykir enginn nálægt þér?
Tóbaksvarnir eru verkefni alls samfélagsins, hvort sem við reykjum eða ekki. Við erum svo lánsöm hér á landi að meirihluti landsmanna hefur ýmist aldrei reykt eða er hættur. Það var sögð saga af ungu barni sem sá aftan á eldri mann þar sem hann sat og reykti tóbak. Blessað barnið kallaði í móður sína og sagði stundarhátt: „Það er kviknað í karlinum.“ Þessi saga lýsir barni sem elst upp við reykleysi og viðbrögð þess eftir því. Enn þurfa þó foreldrar að gæta þess að börn og ungmenni þekki viðhorf þeirra til reykinga og tóbaksnotkunar. Þau eru einnig í lykilaðstöðu til að minna smásöluaðila í nærumhverfi á hlutverk sitt í tóbaksvörnum.
Fikt verður fíkn
Reykingar og tóbaksneysla eru faraldur sem hefur geisað hér á landi í áratugi með miklum heilsufarslegum afleiðingum. Í stað smits sem leiðir til sóttar innan skamms tíma hefst hann með fikti sem breytist fljótt í fíkn. Daglegar reykingar á sígarettum kosta einstaklinginn 4-500 þúsund krónur á ári og hvati viðskiptalífsins töluverður, enda eru tekjur smásöluaðila af sölu á sígarettum rúmir tveir milljarðar króna á landsvísu. Fáir kaupmenn eða verslanir hafa kosið að hafa tóbak ekki í sölu, breytingin undanfarin ár hefur frekar verið að lengja afgreiðslutíma verslana og þannig auka aðgengi fólks að tóbaki.
Tölum um reykingar
Október er góður tími til að hugsa um reykingar, hvort nú sé rétti tíminn til að hætta og hvaða leiðir séu bestar til að ná árangri. Fólk á miðjum aldri hefur mikið að vinna með því að hætta reykingum. Hér þarf ekki að hlusta eftir fyrirmælum frá þríeykinu, en þau sem reykja og vilja aðstoð við að hætta eiga stuðning vísan hjá heilsugæslunni.Lilja Sigrún Jónsdóttir heimilislæknir, Heilsugæslunni Efstaleiti í Reykjavík