Systkinin níu Hér er allur systkinahópurinn komin saman, en myndin er tekin í sextugsafmæli Jódísar í júní árið 2018. Frá vinstri: Jódís, Róbert, Binna, Jón Hrafn (Krummi), Bryndís, Valþór, Erna, Orri og Hlöðver (Toddi).
Systkinin níu Hér er allur systkinahópurinn komin saman, en myndin er tekin í sextugsafmæli Jódísar í júní árið 2018. Frá vinstri: Jódís, Róbert, Binna, Jón Hrafn (Krummi), Bryndís, Valþór, Erna, Orri og Hlöðver (Toddi).
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bryndís fæddist á Selfossi 8.10. 1960, en fjölskyldan bjó þá í Skálmholti í Flóa, síðar í Ey II í Vestur – Landeyjum. Hún ólst þar upp til 10 ára aldurs þegar fjölskyldan flutti í Kópavog. Bryndís var í sveit á sumrin, fyrst í Hjarðarnesi í Nesjum og síðar þrjú sumur á Syðri-Rauðamel í Hnappadal. „Ég er algjör sveitastelpa í eðli mínu og mér fannst alveg ömurlegt að flytja úr sveitinni í bæinn. Enn þann dag í dag líður mér hvergi betur en í sveitakyrrð.“

Bryndís fæddist á Selfossi 8.10. 1960, en fjölskyldan bjó þá í Skálmholti í Flóa, síðar í Ey II í Vestur – Landeyjum. Hún ólst þar upp til 10 ára aldurs þegar fjölskyldan flutti í Kópavog. Bryndís var í sveit á sumrin, fyrst í Hjarðarnesi í Nesjum og síðar þrjú sumur á Syðri-Rauðamel í Hnappadal. „Ég er algjör sveitastelpa í eðli mínu og mér fannst alveg ömurlegt að flytja úr sveitinni í bæinn. Enn þann dag í dag líður mér hvergi betur en í sveitakyrrð.“

Bryndís gekk fyrstu árin í skóla í Njálsbúð í Landeyjum, þá Digranesskóla í Kópavogi og síðar Víghólaskóla. Eftir stúdentspróf frá Flensborg vann hún m.a. á lögfræðiskrifstofu Jóns Þóroddssonar, en starfið þar hafði mikil áhrif á námsvalið. „Þar sannfærðist ég um að lögfræðin væri málið fyrir mig.“ Bryndís lauk lögfræðiprófi frá HÍ 1992 og starfaði með námi og að lokinni útskrift í dómsmálaráðuneytinu, en síðar sem lögfræðingur Alþýðusambands Íslands. Á árunum 1995-2005 átti hún sæti á Alþingi fyrir Alþýðubandalag og síðar Samfylkingu.

Frá 2005 starfaði hún við Háskólann á Bifröst, fyrst sem deildarforseti lagadeildar og dósent í stjórnskipunarrétti, síðar sem aðstoðarrektor og rektor, fram til ársins 2013. „Það var mjög spennandi að fara inn í akademíuna og rýna í stjórnskipunina fræðilega eftir að hafa starfað sjálf á þeim vettvangi,“ segir Bryndís sem hefur skrifað greinar á sviði stjórnskipunarréttar, einkum um samspil löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Eftir átta ár á Bifröst ákvað Bryndís að breyta til, frá 2013-16 var hún starfsmannastjóri Landspítala, en þá tók hún við starfi ríkissáttasemjara sem hún sinnti næstu rúm fjögur árin. Frá ársbyrjun 2020 hefur Bryndís verið ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu.

„Það er gaman að vinna í stjórnarráðinu, engir tveir dagar eru eins og verkefnin fjölbreytileg. Maður veit aldrei hvað næsti dagur ber í skauti sér og tekur bara þá bolta sem koma inn á borð.“

Bryndís stýrði sérfræðingahópi Alþingis um þingeftirlit á árunum 2008-2009 og einnig vinnuhópi forseta Alþingis um endurskoðun kosningalaga á árunum 2018-2020. Hún hefur setið í stjórnum fjölda fyrirtækja og stofnana og m.a. verið stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, Landsvirkjunar og Lífeyrissjóðs verslunarmanna.

Bryndís hefur lengi haft áhuga á jafnréttismálum, sat í stjórn Kvenréttindafélags Íslands um skeið og var formaður þess á árunum 1995-1997. Hún sat einnig um árabil í siðaráði landlæknis og hefur auk þess setið í yfirkjörstjórn Reykjavíkurkjördæmis og landskjörstjórn.

Helstu áhugamál Bryndísar eru fjallgöngur og ferðalög um hálendi Íslands en einnig hefur golf bæst við síðari árin. Hún segir þau Stefán heimsækja heimaslóðir hans í Kalmanstungu þegar færi gefst, og það sé gott að geta átt athvarf í sveitinni. Þá taki hundurinn Nói sinn tíma og athygli.

Fjölskylda

Sambýlismaður Bryndísar er Stefán Valgarð Kalmansson, f. 9.2. 1961, viðskiptafræðingur og kennari við Háskólann á Bifröst. Foreldrar hans eru hjónin Kalman Stefánsson, f. 28.3. 1935, d. 17.2. 2011 og Bryndís Jóna Jónsdóttir, f. 27.5. 1939, bændur í Kalmanstungu. Börn Stefáns eru 1) Inga Valgerður, f. 6.1. 1988, lögfræðingur í sambúð með Alexander Þór Crosby, f. 12.3. 1988, húsasmið. Börn þeirra eru Sara Kristín, f. 2016 og Stefán Baltasar, f. 2020. 2) Kalman, f. 2.12. 1992, lögfræðingur í sambúð með Karitas Sigurðardóttur, f. 14.5. 1993, viðskiptafræðingi. Barn þeirra er Katla Andrea, f. 2019. 3) Jóhanna Katrín, f. 19.1. 2001, nemi í Háskóla Íslands.

Tvíburasynir Bryndísar eru Hlöðver Skúli, nemi í Sciences Po í París og Magnús Nói, nemi í Tækniskóla Íslands, f. 9.10. 1997, synir Hákonar Gunnarssonar viðskiptahagfræðings, f. 18.10. 1959. Dóttir Magnúsar Nóa og Mörtu S. Frímannsdóttur er Ronja Esther, f. 2019.

Systkini Bryndísar eru Binna, f. 29.10. 1946, þroskaþjálfi, Vestmannaeyjum; Erna, f. 28.8. 1948, hjúkrunarfræðingur, Reykjavík; Róbert, f. 30.10. 1950, framkvæmdastjóri, Hveragerði; Valþór, f. 6.4. 1952, framkvæmdastjóri, Reykjavík; Jódís Hlöðversdóttir, f. 16.6. 1958, myndlistarmaður, Garðabæ; Jón Hrafn, f. 26.5. 1962, byggingafræðingur, Garðabæ; Orri Vignir, f. 20.6. 1964, framkvæmdastjóri, Kópavogi og Hlöðver, f. 26.3. 1966, pípulagningameistari, Borgarbyggð.

Foreldrar Bryndísar voru hjónin Hlöðver Kristjánsson, rafvirkjameistari og öryggisfulltrúi hjá ISAL, f. 11.12. 1925, d. 12.2. 2003 og Kristjana Esther Jónsdóttir, sjúkraliði, f. 5.3. 1927, d. 29.4. 2020. Þau bjuggu lengst af í Kópavogi.