[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú er ég í þeirri stöðu, eins og eflaust margir jafnaldar mínir á gervihnattaöld, að þrátt fyrir að hafa verið mikill lestrarhestur á yngri árum hef ég heldur betur misst það niður í seinni tíð.

Nú er ég í þeirri stöðu, eins og eflaust margir jafnaldar mínir á gervihnattaöld, að þrátt fyrir að hafa verið mikill lestrarhestur á yngri árum hef ég heldur betur misst það niður í seinni tíð. Ég veit hins vegar að ég elska að lesa, og hef því hægt og rólega verið að reyna að bæta úr því þótt enn sé langt í land.

Nokkuð sem ég hef fundið fyrir er að það er þeim mun auðveldara að taka upp bók og lesa hana því styttri sem hún er. Þess vegna var heppilegt að meðal þeirra þriggja Laxnessa sem systir mín gaf mér í jólagjöf í fyrra var Barn náttúrunnar , frumraun Halldórs og hans stysta bók. Ég las hana stuttu eftir jól og finnst hún alveg yndisleg. Það er ekki nema von að það biðu eftir þessum gutta Nóbelsverðlaun fyrst honum tókst að setja þessa frásögn saman sextán ára. Falleg saga um fallegar en afar ófullkomnar persónur og sterkur en einfaldur boðskapur bóndans; að rækta eigið land og njóta ávaxtanna. Hinir tveir Laxnessarnir voru Gerpla og Sjálfstætt fólk , fyrir áhugasama.

Önnur kilja í styttri kantinum sem féll mér í kjöltu nýlega er Mánasteinn eftir Sjón. Hún var matreidd og snædd á tveimur kvöldum og þótti boðsgestum hún býsna góð, en umfram allt fannst mér hún áhugaverð upp á tímann sem hún segir frá. Sagan gerist nefnilega á Kötlugos-, spænskuveiki- og sjálfstæðisbaráttuárinu 1918 og Sjón vefur þetta viðburðaríkasta ár Íslandssögunnar meistaralega saman við meginfrásögn bókarinnar.

En hvað ef mig langar svo að færa mig eitthvað yfir 150 blaðsíðurnar? Jú, það vill svo til að þau skötuhjú Meistarinn og Margaríta hafa haft það huggulegt uppi í gluggakistu hjá mér í nokkra mánuði. Einhvern tíma hefur mér tekist að komast þrjá eða fjóra kafla inn í hana og get ekki beðið eftir að hætta mér lengra. Einhver tilfinning undir niðri segir mér að rússneskar bókmenntir séu málið og þegar ég hef lokið mér af við Meistarann er spurning hvort ég haldi ekki bara áfram í þá átt; ég set þá tékkmerki við Búlgakov og vind mér kannski í Dostojevskí, en mér sýnist að mamma eigi Glæp og refsingu uppi í hillu hjá sér.