„Við hlífum ekki okkur og gerum grín að þeim veruleika sem við erum sjálfar þátttakendur í,“ segir Birna Anna.
„Við hlífum ekki okkur og gerum grín að þeim veruleika sem við erum sjálfar þátttakendur í,“ segir Birna Anna. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skáldsagan 107 Reykjavík eftir Auði Jónsdóttur og Birnu Önnu Björnsdóttur kemur út í vikunni. Sagan er farsi um miðaldra konur í Vesturbænum sem lenda í ótrúlegum ævintýrum.

Skáldsagan 107 Reykjavík eftir Auði Jónsdóttur og Birnu Önnu Björnsdóttur kemur út í vikunni. Sagan er farsi um miðaldra konur í Vesturbænum sem lenda í ótrúlegum ævintýrum. Auður og Birna Anna segja samstarfið hafa gengið afburðavel og oft hafi þær skrifað sem ein vitund. Á döfinni er bæði sjónvarpssería eftir samnefndri bók og sjónvarpsmynd þar sem Covid kemur við sögu. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

Sögusvið bókarinnar 107 Reykjavík er eins og titillinn gefur til kynna Vesturbærinn. Það er því vel við hæfi að eiga stefnumót á Ægisíðunni við rithöfundana Auði Jónsdóttur og Birnu Önnu Björnsdóttur. Þær stöllur eru eins og svart og hvítt, að minnsta kosti í útliti. Birna Anna er hávaxin með rennislétt ljóst hár, blá augu og klædd í æpandi bláa kápu; Auður er lágvaxin og dökk á brún og brá með hrokkið hár, í brúnni kápu og ullarsokkum undir skónum. Við bregðum á leik í fjörunni og þær stilla sér upp fyrir framan myndavélina, þó með góða tvo metra á milli sín; jafnvel þrjá. Veðrið ákveður að skipta skapi nokkrum sinnum á sama korterinu; sem gerir myndatökuna bara áhugaverðari. Sólin rembist við að kíkja í gegnum skýin yfir sjó og land og í einni svipan brestur á með þéttum úða. Risastór regnbogi rammar allt í einu húsin á Ægisíðunni inn. Sem sannar að lífið er eins og skáldsaga, eða skáldsaga eins og lífið, en einmitt á blaðsíðu 203 í nýjustu bók þeirra 107 Reykjavík má lesa: Gríðarstór regnbogi gnæfði yfir Ægisíðunni, eins og fyrirheit um að allar óskir íbúanna við götuna myndu rætast hvað úr hverju; sólin braust út á milli skýjanna eftir súld næturinnar.

Mögulega erum við staddar mitt í sögunni!

Tengjast á margan hátt

Daginn eftir myndatökuna ákváðum við að hittast á netinu og spjalla, til að gæta fyllstu sóttvarna. Birna Anna stjórnar zoomfundi af röggsemi.

Birna Anna: Auður, þú þarft að setja hljóðið á! Við heyrum ekkert í þér. Það er þarna neðst til vinstri, í horninu.

Leifur sonur Auðar er mættur og bjargar mömmu sinni og rödd Auðar fær að njóta sín.

Auður: Heyrið þið í mér?

Já, núna! Nú byrjum við viðtalið. Hvernig þekkist þið tvær?

Auður: Við kynntumst á þeim tíma sem við vorum báðar gefa út einar af fyrstu bókunum okkar. Hún var að gefa út Klisjukenndir og ég Fólkið í kjallaranum. Við ákváðum að halda saman útgáfupartí, sem er mjög eftirminnilegt.

Birna Anna: Við vissum samt hvor af annarri fyrr. Við vorum þá líka báðar að vinna á blöðum; ég á Mogganum og hún á Fókus. Svo eigum við mikið af sameiginlegum vinum. Það er mikið af tengslum.

Auður: Birna var á miklu virðulegra málgagni, á Mogganum.

Birna Anna: Við vorum líka báðar að vinna í bókabúðum, þannig að við vorum alltaf að gera svipaða hluti.

Nú hafið þið báðar búið lengi í útlöndum, það hefur þá verið eftir fyrstu kynnin?

Birna Anna: Jú, ég flutti til New York árið 2005 en hef dvalið hér langdvölum inn á milli. Ég er hér að jafnaði um fjóra mánuði á ári en núna höfum við fjölskyldan verið hér síðan í mars, vegna Covid, og ætlum að vera hér í vetur. En í gegnum árin úti hef ég verið að skrifa bæði fyrir Moggann og svo bækur.

Auður: Ég flutti til Kaupmannahafnar árið 2003 og skrifaði líka fyrir Moggann, pistla. Ég fékk átján þúsund fyrir hvern pistil og skrifaði tvo á mánuði. Það dugði ágætlega því ég gat alveg lifað á einum kebab á dag. Það varð líka meira úr peningum þarna þá, ólíkt því sem er nú. Þetta reddaði mér til að ég gæti skrifað Fólkið í kjallaranum. Ég flutti svo seinna til Barcelona og svo Berlínar.

Birna Anna: Við eigum það sameiginlegt, ég skrifaði líka pistla fyrir Moggann þegar ég bjó í Kaliforníu og líka frá New York.

Rosalegur hugarbræðingur

Hvernig kviknaði þessi hugmynd að skrifa þessa bók saman?

Birna Anna: Fyrir tveimur sumrum sátum við saman yfir kaffibolla og fórum að tala um alls konar týpur. Þá datt okkur í hug að það væri gaman að gera sjónvarpsseríu um íslenskar konur á okkar aldri og reyna að fanga svolítið tíðarandann. Við teiknuðum upp útlínur að sjónvarpsseríu; persónur og atburðarás. Það verkefni lifir ennþá. Svo lögðum við þetta aðeins til hliðar. Í samkomubanninu í mars vorum við svo að kjafta saman og þá kom upp þessi hugmynd að skrifa bók. Það er nefnilega oft svo langt ferli að hugmynd verði að sjónvarpsseríu.

Auður: Já, og við skrifuðum líka sjónvarpsmynd þá, en hún er alveg óskyld þessu. En það var svo í júní, eftir að hafa verið innilokaðar í Covid, sem við ákváðum að skella í gamansögu þar sem við áttum þetta efni.

Birna Anna: Við ákváðum bara að prófa hvað myndi gerast ef við settum efnið í bókarform.

Auður: Svo gátum við ekki hætt að skrifa og allt í einu var komin bók.

Birna Anna: Persónurnar voru til og við vorum búnar að móta þær þannig að þær voru orðnar safaríkar og góðar. Atburðarásin var líka til, þannig að við þurftum bara að skrifa textann. Það er kannski ekkert bara. En við vorum alveg fáránlega fljótar að skrifa. Við duttum í kast saman og vorum helteknar í allt sumar og skrifuðum og skrifuðum.

Hvernig skiptið þið með ykkur verkum, hvernig skrifar maður bók með annarri manneskju?

Auður: Við skrifuðum saman á netinu. Við erum með eina vitund, og það er það sem er svo furðulegt við þetta. Við erum rosalega samstiga þegar við skrifum og verðum eins og einn hugur. Stundum vorum við að skrifa sömu setninguna á sama tíma.

Birna Anna: Þetta var alveg magnað. Við vorum með opið skjal og settum tóninn í upphafi og vorum svo bara inni í honum saman. Ég skrifaði kannski setningu og Auður kláraði og þá skrifaði hún kannski orðin sem ég var að hugsa. Sama orðalag. Við vorum í rosalegum hugarbræðingi.

Veruleikinn oft farsakenndur

Nú er sögusviðið Vesturbærinn, af hverju og hvað er svona sérstakt við Vesturbæinn?

Auður: Þarna safnast saman ólíkt auðmagn. Fjármagnsauðmagn, félagslegt auðmagn og menningarlegt auðmagn. Jafnvel stjórnmálalegt og akademískt. Þarna er mikill valdasambræðingur á litlum bletti. Á Kaffi Vest má finna milljónamæringa, stjórnmálamenn, listamenn og svo unglinga og gamlar konur.

Birna Anna: Ísland er svo lítið samfélag að hér blandast frekar saman ólíkar kreðsur en gerist erlendis. Hér þekkjast allir og í Vesturbænum ýkist það enn. Vesturbærinn er Ísland í eimaðri merkingu.

Auður: Gamla ásýnd Vesturbæjarins er ekki lengur til; nú koma Range Rovererarnir niður Holtsgötuna í hjörðum eins og rollur. Þetta er góðborgarahverfi. Við erum að leika okkur með góðborgarafíling. Við erum líka að gera grín að eigin veruleika. Ég er fastagestur á Kaffi Vest.

Birna Anna: Við hlífum ekki okkur og gerum grín að þeim veruleika sem við erum sjálfar þátttakendur í.

Nú eru týpurnar í bókinni oft steríótýpur, er það viljandi gert?

Auður: Já, steríótýpur eru eins og klisjur í þeim skilningi að þær eru týpur af því að fyrirmyndirnar eru til. Klisjur og steríótýpur búa í sameiginlegu minni okkar af því við þekkjum þær. En við erum líka að leika okkur með táknmyndir og svo er bókin satíra. Þetta er farsi, og þá er maður svolítið inni í formi farsans, það er að segja sagan lýtur lögmálum hans.

Birna Anna: Við drögum upp persónur með afgerandi hætti en svo gerðist það í skrifunum að þær verða mannlegri þegar líður á.

Nú eru þið miðaldra konur að skrifa um miðaldra konur. Eigið þið eitthvað sameiginlegt með þessum persónum eða hvar eru fyrirmyndirnar?

Auður: Við eigum stóra vinkonuhópa og erum að leika okkur með sögur og atvik úr nærumhverfinu. Það skrítna sem gerðist var að okkur fannst kannski eitthvað vera of fáránlegt en svo gerðist bara eitthvað alveg eins í raunveruleikanum, eða fáránlegra.

Birna Anna: Þótt maður sé að skrifa farsa er veruleikinn oft farsakenndari en skáldskapurinn. Höfundar þurfa stundum jafnvel aðeins að dempa lýsingar, því atburðir í sögu þurfa að lúta lögum frásagnar en veruleikinn lýtur engum lögmálum. En varðandi aldurinn, þá er þetta mjög áhugavert æviskeið. Fólk er ekki lengur ungt og efnilegt en heldur ekki gamalt. Það eru enn tækifæri til að breyta og umturna lífi sínu. Fólk á þessum aldri er oft ólgandi að innan og getur togstreitan á milli ytri veruleikans og hins innri valdið miklu drama og miklum húmor.

Auður: Þetta eru ráðvilltar konur. Þær eru mikið að reyna að marka sér félagslega stöðu en koma sér sífellt í vandræði. Þær eru svolítið eins og í seinni unglingaveiki, eins konar gráum fiðringi. Þetta er bleiki fiðringurinn. Þær eru á fimmtugsaldri en svolítið eins og unglingar, en ekki eins mikið með á nótunum og unga fólkið, ekki eins „streetwise“.

Birna Anna: Það getur verið svo fyndið og við leikum okkur mjög mikið með það, þessa viðleitni þeirra. Og eins og í góðum farsa eru oft áform sem fara úrskeiðis.

Auður: Nútímaveruleikinn getur verið svo absúrd en þessar konur eru svolítið afsprengi gamla tímans. Þær eru að reyna að fóta sig en þær kunna það ekki alveg. En við lögðum okkur fram við að gera þær að mjög femínískum kynverum. Þær eru með mikla kynóra og sprikla mjög tilfinningalega.

Birna Anna: Hallgerður, aðalpersónan, er konan sem notar stjórnsemi til að ráða við allt sem er innan í henni sem hún ræður ekki við. Hún vill svo vel og er með risastórt hjarta, og henni finnst hún ekki vera að stjórna vinkonum sínum. En hún er sjarmerandi og hún er afl.

Frí frá Covid

Er einhver Hallgerður í ykkur? Hvor ykkar fékk að stjórna meira, voru einhver átök við skrifin?

Auður: Nei, það er voða lítil Hallgerður í mér. Ég man ekki eftir neinum átökum.

Birna Anna: Nei, og við erum ekki bara að segja þetta. Þetta var fáránlega áreynslulaust og flæðandi samstarf. Við vorum ekkert alltaf hundrað prósent sammála en þá ræddum við hlutina alveg niður í smáatriði. Við enduðum alltaf á að komast að sameiginlegri niðurstöðu.

Nú er þetta samtímasaga, skrifuð í sumar, en samt gerist hún ekki á Covid-tímum. Hvers vegna ekki?

Birna Anna: Hugmyndin kom í vor á þessum súra samkomubannstíma, svolítið eins og tímarnir eru núna. Við hugsuðum þá: vá hvað væri gaman að geta skrifað fyndna og skemmtilega bók sem kæmi út í haust. Eitthvað sem fólk getur gleymt sér yfir og hlegið. Það er svo gott fyrir sálina. Þá varð þetta að vera heimur þar sem Covid væri ekki til. Þetta er ekki flótti en kannski frí frá því. Það mætti þá segja að sagan gerðist í hliðarveruleika árið 2020 þar sem Covid er ekki til. Nú eða hún gæti gerst sumarið 2019. Hvort sem er. Þetta er núna, en það er ekki Covid.

Nú notið þið mikið þekkta þjóðfélagsþegna sem þið nafngreinið, en aðrir sem gegna stöðum sem raunverulega eru til heita skálduðum nöfnum. Hvað veldur?

Auður: Já, alvörufólk rataði inn í fantasíuna.

Birna Anna: Allar persónur sem eru gerendur, eða aktívar sögupersónur, eru skáldaðar persónur. En svo þegar við nefnum alvörupersónur er það meira til að skapa sögusviðið og stemningu.

Flókið og frelsandi

Er bókin bara fyndin eða er alvarlegur undirtónn?

Birna Anna: Það er alveg pólitísk ádeila í bókinni. Það koma dökkir og djúpir þræðir inn á milli.

Auður: Að skrifa farsa er stundum besta leiðin til að vera með ádeilu, því þær eru oft hlægilegar. Það er stundum betri aðferð til að afhjúpa hlutina eða sýna fram á fáránleika þeirra að nota húmor og farsa en að skrifa fullt af reiðum greinum.

Birna Anna: Það er líka femínískt þema í bókinni.

Auður: Við notum líka ákveðið „lingo“ í bókinni. Ég man að eitt sem mér fannst skrítið þegar ég flutti heim frá Berlín var að ég var oft að lenda í því að fullir kallar kæmu til mín og kölluðu mig kommúnista. Mér finnst þetta svo fyndið; ég hlýt þá að vera kampavínskommúnisti því ég tengist kommúnisma ekki að neinu leyti nema að móðurafi minn var sósíalisti og kenndur við kommúnisma. Ég veit um fleiri sem lenda í þessu, að vera kallaðir kommúnistar. Og á einum stað í bókinni notum við þennan frasa en ritstjórinn setti spurningarmerki við þennan talsmáta. Við sögðum bara að fólk talaði víst svona í dag.

Hvernig finnst ykkur að vera miðaldra konur? Er það gaman eða er krísa í gangi?

Auður: Mér finnst það mjög flókið. Það er auðvitað mismunandi; Birna er gift, ég er skilin. Svo er þetta aldurinn sem breytingaskeiðið bankar upp á. Mér finnst þetta hafa verið eitt flóknasta tímabil í lífi mínu. Ég þarf að skilgreina allt upp á nýtt. En um leið er það skemmtilegt og gefandi. Maður veit loks hver maður er.

Birna Anna: Mér finnst það vera fínt og frelsandi. Með aldrinum verður manni meira sama hvað öðrum finnst og hvílir betur í sér. Þegar ég var yngri var ég meira að hugsa um að gera öðrum til hæfis og mér finnst ég laus við það að mestu. Það kemur með aldrinum.

Auður: Ég var í hjónabandi og fann mig í því að vera húsmóðir og rithöfundur. Svo skildi ég og flutti á milli landa og þá fór allt í upplausn aftur. Maður er á nýjum forsendum og þarf að staðsetja sig upp á nýtt.

Týnum okkur í flæði

Þið sögðuð hér í upphafi að sagan hefði verið hugsuð sem sjónvarpssería en endað sem bók. Verður sjónvarpsserían gerð?

Birna Anna: Það vonum við og það er enn í ferli. Inga Lind Karlsdóttir og Skot eiga kvikmyndaréttinn að þessari sögu og við erum að vinna með þeim. Það er í bígerð. Hún mun líka heita 107 Reykjavík. Titillinn er klárlega vísun í bók Hallgríms Helgasonar, 101 Reykjavík en við erum báðar miklir aðdáendur hans. Við erum að kinka kolli til hans með þessum titli.

Við förum að slá botninn í þetta stelpur. Er frekara samstarf á döfinni?

Auður: Við skrifuðum sjónvarpsmynd í mars. Reynir Lyngdal ætlar að leikstýra henni.

Birna Anna: Hún er alveg óskyld þessari bók. Hún verður framleidd á RÚV eftir áramót. Þetta er stutt sjónvarpsmynd um Covid. Við megum ekki segja meir en við getum upplýst að það er verið að undirbúa tökur.

Rosalega eruð þið öflugar!

Auður: Þetta var allt gert í einsemdinni í Covid, í gegnum tölvu.

Birna Anna: Nú förum við bráðum að skrifa handritið að sjónvarpsseríunni 107 Reykjavík.

Sjáið þið fyrir ykkur framhaldsbók? Framhaldssjónvarpsseríu?

Auður: Já, það gæti vel verið.

Birna Anna: Þegar við enduðum seríuna skildum við eftir þræði sem gætu nýst í aðra seríu.

Auður: Við áttum í raun miklu meira efni en komst í bókina.

Getið þið ekki skrifað hlutverk fyrir mig inn í seríuna, hlutverk blaðamanns á Morgunblaðinu?

Auður: Jú, algjörlega!

Birna Anna: Það sem er svo gaman við svona nútímasögur er að það er svo mikið pláss og hægt að toga inn í þær alls konar persónur og fjalla um alls konar hluti sem gerast í raun.

Auður: Þetta er svolítið eins og að vera í Barbie. Ég hugsa að ef við Birna hefðum þekkst sem börn hefðum við verið mjög góðar saman og örugglega týnt okkur mjög einbeittar í leik.

Birna Anna: Já, þetta er eins og sitja með dúkkurnar sínar og segja: mín gerir þetta og þá gerir þín þetta.

Auður: Við erum báðar dundarar og mikið fyrir að vera einar en í svona flæði getum við endalaust týnt okkur. Eins og tvær stelpur í Barbie.

Birna Anna: Við eigum mjög mikið af sameiginlegum vinkonum sem segja gjarnan að við séum svo ólíkar og ná því ekki hversu vel við vinnum saman. Ég er sammála að við erum dálítið ólíkar en á sama tíma erum við á einhvern hátt alveg brjálæðislega líkar. Og við náðum einhvern veginn að bræða okkur saman við skrifin.