[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is Þeim sem sóttu um listamannalaun sem til úthlutunar eru í janúar fjölgaði um tæp 46% milli áranna 2020 og 2021.

Baksvið

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

Þeim sem sóttu um listamannalaun sem til úthlutunar eru í janúar fjölgaði um tæp 46% milli áranna 2020 og 2021. Frestur til að sækja um listamannalaun fyrir 2021 rann út í upphafi þessa mánaðar og alls bárust 2.253 umsóknir samanborið við 1.544 umsóknir fyrir janúarúthlutun 2020.

Samkvæmt upplýsingum frá Rannís fjölgar umsóknum milli ára mismikið eftir listgreinum. Mest fjölgar umsóknum hjá sviðslistafólki eða um rúm 55%. Því næst koma tónlistarflytjendur, en umsóknum þeirra fjölgar um tæp 54% milli ára meðan fjölgun umsókna er tæp 46% hjá tónskáldum, tæp 42% hjá myndlistarmönnum, 27% hjá rithöfundum og rúm 26% hjá hönnuðum.

Sótt um 28% fleiri mánuði

Þegar horft er til fjölda þeirra mánaða sem sótt er um fyrir árið 2021 sést að þeim fjölgar samtals um rúm 28% milli ára. Fyrir úthlutunina í janúar 2020 var sótt um samtals 11.176 mánuði, en fyrir úthlutunina í janúar 2021 er sótt um alls 14.323 mánuði. Aukningin er mjög mismikil eftir listgreinum. Mest er hún hjá sviðslistafólki en þar fjölgar umsóttum mánuðum um 51%. Næstmest fjölgun er hjá tónlistarflytjendum eða rúm 44%. Tónskáld sækja um tæplega 38% fleiri mánuði milli ára, myndlistarmenn tæplega 26%, hönnuðir tæplega 14% og rithöfundar tæplega 9% fleiri mánuði. Framangreindar tölur kallast á við ábendingar sviðslista- og tónlistarfólks þess efnis að heimsfaraldurinn hafi bitnað harðast á þessum tveimur listgreinum í fyrstu bylgju heimsfaraldursins sem gekk yfir landið fyrr á árinu þegar sviðslista- og tónlistarfólk var svipt atvinnumöguleikum sínum vegna samkomutakmarkana.

Samkvæmt lögum um listamannalaun nr. 57/2009 skulu samanlögð starfslaun miðast við 1.600 mánaðarlaun, sem skiptast þannig að hönnuðir fá 50 mánuði, myndlistarmenn 435, rithöfundar 555, sviðslistafólk 190, tónlistarflytjendur 180 og tónskáld 190 mánuði.

Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2021 sem lagt var fram fyrr í haust kemur fram að ætlunin sé að leggja til ný ákvæði til bráðabirgða við lög um listamannalaun þess efnis að samanlögðum starfslaunum árið 2021 verði fjölgað tímabundið um 550 mánuði og fari þar með úr 1.600 mánaðarlaunum árið 2020 í samtals 2.150 árið 2021. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu eru samtals 905,6 milljónir króna eyrnamerktar launasjóðum listamanna 2021 en voru um 680 milljónir króna í fyrra.

Í sama frumvarpi má sjá að framlög til starfsemi atvinnusviðslistahópa, sem mennta- og menningarmálaráðherra úthlutar samkvæmt tillögu frá sviðslistaráði, hækka um tæp 46% milli ára, þ.e. fara úr tæpum 94 milljónum króna árið 2020 í 137 milljónir árið 2021. Samkvæmt upplýsingum frá Rannís hafa borist alls 143 umsóknir frá sviðslistahópum með 948 einstaklingum innanborðs vegna úthlutunar til sviðslistahópa í janúar 2021. Til samanburðar bárust fyrir ári alls 105 umsóknir með 761 einstakling innanborðs, sem þýðir að umsóknum hefur fjölgað um 36% milli ára.

Ekki fást svör um skiptingu

Í kjölfar heimsfaraldursins kom mennta- og menningarmálaráðuneytið fyrr á þessu ári á aukaúthlutun til starfslauna listamanna, en um var að ræða sérstakt tímabundið fjárfestingarátak til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar kórónuveiru. Aukaúthlutunin úr launasjóðunum sex nam 600 mánaðarlaunum, sem samsvarar rúmum 244 milljónum, sem úthlutað var í júní. Fjöldi umsækjenda var 1.390 sem sóttu alls um 5.747 mánuði. Þess utan bárust 190 umsóknir frá 170 atvinnuleikhópum og sviðslistafólki sem gátu sótt um styrk í sérstakt átaksverkefni til handa atvinnuleikhópum. Ákveðið var að veita 95 milljónir króna til 30 verkefna.

Skrifleg fyrirspurn var send til aðstoðarmanns Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, um miðja vikuna og spurt hvort fyrir lægi hvernig aukamánuðunum 550 á árinu 2021 yrði skipt milli launasjóðanna sex, en engin svör fengust þar um. Rifja má upp að sviðslista- og tónlistarfólk gagnrýndi það harðlega um mitt þetta ár að hlutfallsleg skipting launasjóðanna sex héldist óbreytt þegar kom að aukaúthlutuninni á 600 mánuðum átaksverkefnis ríkisstjórnarinnar.

Þeirri spurningu var einnig beint til ráðherra hvort hún teldi fyrirhugaða fjölgun mánaðarlauna á árinu 2021 og hækkun til framlaga gegnum sviðslistaráð nægilega til að mæta því mikla tekjutapi sem listafólk hérlendis hefur orðið fyrir í kjölfar heimsfaraldursins, en engin svör fengust við þeirri spurningu.

Samkvæmt fjárlögum 2020 voru starfslaun listamanna 407.413 kr. á mánuði og var þar um verktakagreiðslu að ræða. Heildarumfang greiðslna til listamanna í upphafi síðasta árs voru því tæplega 652 milljónir. Ekki er ósennilegt að mánaðarlaunin muni hækka um 5% milli ára líkt og raunin hefur verið síðustu tvö árin til að halda í við þróun verðlags, en ekki reyndist unnt að fá það staðfest hjá ráðuneytinu.