Það verður að forðast að atvinnuleysi verði viðvarandi á Íslandi

Horfur eru dökkar í atvinnumálum um þessar mundir. Á miðvikudag var greint frá því í forsíðufrétt hér í Morgunblaðinu að atvinnuleysi hefði verið 9,8% í september samkvæmt mælingu Vinnumálastofnunar, væri nú sennilega komið yfir 10% og myndi enn aukast næstu mánuði.

Verst er ástandið á Suðurnesjum þar sem atvinnuleysi mældist 19,8% í september og er því spáð að það verði 1komið í 21,9% í desember. Dekkst er spáin fyrir Reykjanesbæ. Þar er því spáð að atvinnuleysið verði komið í 24,6% í jólamánuðinum.

Í frétt í Morgunblaðinu á fimmtudag var fjallað um langtímaatvinnuleysi. Þar kom fram að einstaklingum, sem hafa verið á atvinnuleysisskrá og án atvinnu lengur en í hálft ár, hefði fjölgað hratt upp á síðkastið og hefðu í september verið fjórfalt fleiri en í sumarlok í fyrra.

Í Reykjavík höfðu 39% þeirra sem voru atvinnulausir í ágúst verið án vinnu og á atvinnuleysisskrá í hálft ár eða meira og 19% í eitt ár eða meira.

Hátt atvinnustig og mikil þátttaka á vinnumarkaði hefur löngum einkennt íslenskt atvinnulíf. Iðulega hefur hlutfallstala atvinnuleysis verið svo lág að segja hefur mátt að talan mældi aðeins fólk tímabundið á milli starfa og atvinnuleysi hér væri ekkert.

Þetta litla atvinnuleysi ásamt mikilli virkni á vinnumarkaði hefur verið einn helsti styrkleiki íslensks atvinnulífs. Atvinnuleysi getur verið mikið þjóðfélagsmein. Það þarf ekki að fjölyrða um neikvæð áhrif langvarandi atvinnuleysis, jafnvel kynslóð fram af kynslóð, á sálarlíf þjóða.

Í sumum hagkerfum hefur meiri áhersla verið lögð á að koma í veg fyrir þenslu en að halda atvinnuleysi niðri. Í ríkjum Evrópusambandsins hefur atvinnuleysi löngum verið mun hærra en hér á landi og á evran sinn þátt í því mikla atvinnuleysi, sem er í sumum löndum þess.

Meira að segja eftir að bankarnir féllu fyrir rúmum áratug og atvinnuleysi jókst hratt hér á landi voru fleiri atvinnulausir í löndum ESB.

Í ágúst var atvinnuleysi á Íslandi meira en í ESB eða 9,4% hér á landi, 8,1% á evrusvæðinu og 7,4% í ríkjum ESB.

Það er mikið til vinnandi að festast ekki í því fari atvinnuleysis, sem ráðið hefur ríkjum í Evrópusambandinu og í meira mæli á evrusvæðinu.

Hér áður fyrr var einfalt að fella gengið þegar ójafnvægi skapaðist í efnahagslífinu. Þannig var hægt að þurrka út launahækkanir á einu bretti. Það komu kannski fleiri krónur í umslagið, en minna fékkst fyrir þær. Þessu fylgdu hins vegar ýmsar óæskilegar aukaverkanir og vitaskuld snúast kjaramál um að bæta kjör, ekki að skreyta sig með sýndarávinningum á meðan laun lækka í raun.

Sveigjanleiki í kjaramálum hlýtur að ganga í báðar áttir. Þegar vel gengur er hægt að bæta kjör og auka kaupmátt. Á undanförnum árum hefur kaupmáttur aukist verulega.

Nú þrengir að og fjöldi manns hefur misst vinnuna. Þá mætti ætla að áherslan hjá launþegahreyfingunni væri að verja störfin. Þess í stað er hamrað á því að hvergi megi koma til móts við atvinnurekendur líkt og forsvarsmenn stéttarfélaga lifi og hrærist í öðrum veruleika en við hin. Hættan við þessa afstöðu er að hún leiði til enn meira atvinnuleysis – kosti beinlínis skjólstæðinga stéttarfélaganna vinnuna.

Það er raunhæft að gera ráð fyrir því að ferðaþjónustan muni taka vel við sér þegar aftur verður hægt að slaka á sóttvarnaaðgerðum hér og annars staðar. Spurningin er hversu lengi þurfi að bíða og hvernig bilið verði brúað.

Meginatriði er að vinna gegn atvinnuleysi. Það verður helst gert með því að auðvelda og létta rekstur fyrirtækja þannig að þau þurfi ekki að rifa seglin og geti haldið í starfsfólk. Mörg fyrirtæki hafa átt fullt í fangi með að ráða við launahækkanir undanfarinna missera, en það tókst án þess að verðlag færi úr böndum. Nú þarf að afstýra bakslagi. Það verður að forðast að hér verði viðvarandi atvinnuleysi.