Elías Rafn Ólafsson
Elías Rafn Ólafsson
Danska knattspyrnufélagið Fredericia skýrði frá því í gær að aðalmarkvörður liðsins, Elías Rafn Ólafsson, hefði greinst með kórónuveiruna þegar hann sneri aftur til Danmerkur eftir að hafa spilað með 21-árs landsliði Íslands í Lúxemborg á þriðjudaginn.

Danska knattspyrnufélagið Fredericia skýrði frá því í gær að aðalmarkvörður liðsins, Elías Rafn Ólafsson, hefði greinst með kórónuveiruna þegar hann sneri aftur til Danmerkur eftir að hafa spilað með 21-árs landsliði Íslands í Lúxemborg á þriðjudaginn. Fram kom að Elías væri frískur og einkennalaus en væri kominn í einangrun. Hann er hjá félaginu í láni frá dönsku meisturunum Midtjylland og hefur spilað alla leiki þess í B-deildinni á yfirstandandi tímabili.

Ljóst er að Elías mun missa af a.m.k. þremur næstu leikjum því leikið er þétt á næstunni. Norska félagið Strömsgodset skýrði frá því að Ari Leifsson og Valdimar Þór Ingimundarson, sem léku með Elíasi gegn Lúxemborg, væru komnir í sóttkví en þeir missa þar með af tveimur leikjum liðsins í norsku úrvalsdeildinni. Patrik Sigurður Gunnarsson gat ekki varið mark Viborg gegn Fremad Amager í gær af sömu sökum og Stefán Teitur Þórðarson lék ekki með Silkeborg gegn Hvidovre. Lið Íslands í umræddum leik var eingöngu skipað leikmönnum erlendra liða. Átta þeirra komu frá dönskum liðum. vs@mbl.is