Jóhannes Geir Halldórsson fæddist í Sveinbjarnargerði á Svalbarðsströnd 26. ágúst 1940. Hann lést 10. október 2020. Jóhannes var sonur hjónanna Halldórs Jóhannessonar frá Sveinbjarnargerði og Axelínu Geirsdóttur frá Veigastöðum. Systkini hans voru Jónas, f. 29.8. 1936, Haukur, f. 25.1. 1945, og Vigdís, f. 15.8. 1946.

Jóhannes kvæntist 21. október 1962 Herdísi Jónsdóttur frá Fornastöðum, f. 6. september 1940, d. 22. nóvember 2014. Hún var dóttir hjónanna Jóns Jónssonar frá Fornastöðum og Guðríðar Guðnadóttir frá Lundi. Börn Jóhannesar og Herdísar eru Halldór, vélfræðingur, f. 31. ágúst 1962, og Ingibjörg, hársnyrtimeistari og síðar skrifstofustjóri, f. 13. febrúar 1965. Halldór er kvæntur E. Fjólu Þórhallsdóttur heilsunuddara. Börn þeirra eru Jóhannes Guðni, f. 8.7. 1990, Anna Kristín, f. 25.2. 1993, Þórhallur Forni, f. 27.12. 2002, og Herdís Lilja, f. 25.8. 2005. Ingibjörg er gift Helga Þór Ólafssyni matreiðslumeistara. Synir þeirra eru Jón Axel, f. 23.4. 1993, og Andri Geir, f. 8.4. 1995.

Jóhannes ólst upp í Sveinbjarnargerði ásamt systkinum sínum og að loknum grunnskóla stundaði hann nám við Alþýðuskólann á Laugum og útskrifaðist þaðan úr smíðadeild. Gegnum árin hefur hann unnið ýmsa vinnu bæði til sjós og lands, og var hann á ýmsum fiski- og farskipum. Jóhannes var mikill áhugamaður um flug og allt því tengt.

Hann lærði meðal annars til einkaflugmannsprófs og vissi fátt skemmtilegra en að svífa um loftin á litlum rellum.

Bedford-vörubíl keypti hann giftingarárið 1962 og vann að vegagerð á honum hjá Bílstjórafélagi Þingeyinga í nokkur ár. Þá vann hann hjá Vegagerðinni sem vélamaður og bílstjóri, meðal annars við gerð vegarins fyrir Ólafsfjarðarmúla og var þar á jarðýtu. Um tíma bjuggu þau hjónin á Akureyri en árið 1965 keyptu þau lóð úr landi Veigastaða og reistu þar nýbýlið Vaðlafell og bjuggu þar síðan alla tíð.

Jóhannes vann um langan tíma sem vélamaður og síðar verkstjóri hjá Norðurverki allt frá stofnun félagsins, við gerð virkjana og samgöngumannvirkja, þar á meðal við gerð Laxárvirkjunar og Kísilvegarins. Árið 1974 keyptu þeir bræður jörðina Veigastaði og rak Jóhannes þar fjárbú, auk þess að vera héraðslögreglumaður. Árið 1975 lét hann ásamt Heimi Stefánssyni frá Breiðabóli smíða trilluna Vilmund ÞH-173 og reru þeir á henni, bæði til atvinnu og ánægju. Meðfram þessu vann hann svo í mörg ár við Alifuglabúið Fjöregg og varð síðar eignaraðili að Eggjabúinu Gerði og var það til 70 ára aldurs.

Aðalstarf Jóhannesar var þó síðustu áratugina að hugsa um sína kæru eiginkonu, sem var ekki heilsuhraust, og gerði hann það af mikilli alúð og elsku.Útför Jóhannesar fer fram frá Svalbarðskirkju á Svalbarðsströnd í dag, 17. október 2020, klukkan 14. Streymt verður á Facebook undir Jarðarfarir í Svalbarðskirkju

https://tinyurl.com/y34pdoq9

Virkan hlekk á slóð má nálgast á

https://www.mbl.is/andlat

Útsending við kirkju verður á FM 106,9.

Elsku pabbi minn. Það er komið að kveðjustund, eftir stutta en snarpa baráttu við erfið veikindi.

Ósköp mun nú lífið breytast mikið hér hjá okkur á brekkubrúninni. Síðustu árin varst þú vanur að rölta yfir planið eftir 10-fréttir á morgnana og kíkja í kaffi.

Hundurinn okkar hann Rex sá líka til þess að við hittumst oft á dag því hann heimtaði reglulegar heimsóknir til þín, besta vinar síns, til að fá hundanammi. Mér hefur alltaf fundist, frá því að ég var pínulítil, að þú værir besti maður í heimi, svo sterkur og traustur og það breyttist ekkert í áranna rás. Þakka þér fyrir allt sem þú kenndir mér; umhyggju, umburðarlyndi, þolinmæði og að það væru aldrei nein vandamál, bara verkefni til að leysa.

Svo varstu svo fín Pollýanna líka með þína léttu lund og einstakt lag á að gera alla daga góða hjá þér og mömmu. Já, mömmu sem þú hugsaðir svo vel um alla tíð.

Ég man þegar við fórum saman í fjárhúsin þegar við systkinin vorum yngri og þú kenndir okkur stjörnumerkin á himninum og við reyndum að feta í sporin þín án þess að detta á hausinn, því sporin sneru alltaf alveg þvert í snjónum.

Á seinni árum fannst mér svo gott að geta verið ykkur mömmu innan handar með ýmislegt þegar heilsan fór að bila og árin að færast yfir – það gaf mér mikið.

Þú varst með svo góða nærveru að allir sem kynntust þér fundu fyrir væntumþykjunni, fjölskyldan þín, systkini og vinir.

Nú finnst mér alveg ómetanlegt að við gátum öll saman haldið upp á 80 ára afmælið þitt á Hótel Hallormsstað í ágúst síðastliðnum.

Þar áttir þú yndislega daga með fjölskyldu og vinum í fallega Hallormsstaðarskógi, þar sem þið mamma komuð svo oft.

Það eru margar yndislegar minningar að orna sér við þegar sorgin sverfur að. Við fjölskyldan munum sakna þín mikið.

Hvíl í friði, elsku pabbi.

Þín

Ingibjörg (Inga).

Nú er kær mágur minn farinn yfir móðuna miklu og er hans sárt saknað. Ég hef þekkt hann frá því ég var barn og nánast alist upp með honum og maður leit kannski á hann sem hluta af landslaginu sem tilheyrði manni.

Ég var 15 ára þegar Dísa og hann byggðu sér hús í Veigastaðalandi sem þau nefndu Vaðlafell. Það er eftirminnilegt að þá fór ég að passa börnin þeirra, Ingu og Dóra, þegar á þurfti að halda. Þar byrjuðum við Haukur bróðir hans að líta hvort á annað.

Jói bróðir, eins og öll mín fjölskylda kallaði hann, var einstaklega skapgóður og þolinmóður, vildi alltaf vera að segja brandara. Síðast þegar hann kom í öldrunarkaffi í Valsárskóla sagði hann brandara þó að það væri farið að draga mjög af honum.

Svo gat hann verið stríðinn og uppátektasamur. Margar sögur eru sagðar af honum þegar hann var ungur strákur og einnig þegar hann var að stríða vinnufélögum sínum. Það verður haldið áfram að segja þær sögur þegar minnst verður á Jóa bróður. Það er einnig einstakt hvað hann hugsaði vel og með umhyggju um Dísu konu sína, sem mestalla sína ævi var mikill sjúklingur.

Við Haukur ferðuðumst þó nokkuð með þeim hjónum. Meðal annars til Spánar fyrir 50 árum þegar við Haukur giftum okkur. Í þá daga var það ekki svo algengt að fara í sólarferðir. Við eigum mikið af myndum af okkur þar, og góðar sögur. Og alveg nýlega fór Jói bróðir með okkur til Kanaríeyja. Þá var hann orðinn lélegur, en langaði að fara með. Hafði reyndar göngugrind með sér til að létta undir. Var það eitt kvöldið að við fórum út að borða með góðum vinum. Á leiðinni til baka í íbúðina fannst honum hann ekki halda eins í við okkur hin, svo hann var látinn setjast á göngugrindina. Grindin er ekki byggð til þess og það fór ekki betur en svo að keyrt var á kantstein og hjólin brotnuðu undan grindinni. Það varð uppi fótur og fit og umferð var stoppuð, en þetta fór betur en á horfðist.

Fyrir okkur heitir þessi staður héðan í frá Jóhannesartorg. Þetta fannst honum mjög fyndið.

Síðustu árin hans rákum við saman hænsnabú ein 15 ár í Sveinbjarnargerði. Og alltaf var hann tilbúinn að leysa hvern þann vanda sem upp kom og vildi alltaf öllum vel.

Einu sinni sagði Halldór tengdapabbi við mig að það hefði alla tíð verið svo auðvelt að þykja vænt um Jóa.

Það er mikils virði að eiga góðar minningar um þá sem fara á undan okkur. Þær höfum við sannarlega um Jóa bróður.

Innilegar samúðarkveðjur til barna hans og barnabarna.

Bjarney, Haukur

og fjölskylda.