Suðurgatan Framkvæmdir hafa staðið yfir um langa hríð á svæðinu.
Suðurgatan Framkvæmdir hafa staðið yfir um langa hríð á svæðinu. — Morgunblaðið/Steinþór
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram fyrirspurn í borgarráði um hvenær áætlað sé að ljúka framkvæmdum, sem staðið hafa yfir í Suðurgötu um langa hríð. „Framkvæmdir hafa átt sér stað í a.m.k.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram fyrirspurn í borgarráði um hvenær áætlað sé að ljúka framkvæmdum, sem staðið hafa yfir í Suðurgötu um langa hríð.

„Framkvæmdir hafa átt sér stað í a.m.k. tvö ár við Suðurgötu vegna vinnu við lagnir og endurnýjun götunnar. Þessar framkvæmdir hafa dregist úr hömlu og enn eiga miklar framkvæmdir sér stað við götuna sem hafa dregið úr umferðaröryggi gangandi, hjólandi og akandi og sem skapar mikið umferðaröngþveiti á álagstímum,“ segir í fyrirspurninni. Henni var vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds.

Fram kemur á framkvæmdasjá borgarinnar að um sé að ræða framkvæmdir við Suðurgötu og hluta af Sturlugötu og sé samstarfsverkefni Veitna og Reykjavikurborgar.

Verkið snýst um að endurnýja fráveitu, vatnsveitu, hitaveitu og rafmagn, fjarlægja gamlar lagnir og hitaveitustokk, endurnýja gangstéttar og ganga frá grassvæðum og bundnu slitlagi. Í desember 2019 var tekin sú ákvörðun að fresta framkvæmd til vormánaða 2020.

sisi@mbl.is