— Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Hvernig leggst það í þig að taka við sem umsjónarmaður tónleikaraðar HÍ? Rosalega vel. Ég tek við góðu búi af Margréti Jónsdóttur prófessor sem hefur haldið utan um þessa röð undanfarna áratugi.
Hvernig leggst það í þig að taka við sem umsjónarmaður tónleikaraðar HÍ?

Rosalega vel. Ég tek við góðu búi af Margréti Jónsdóttur prófessor sem hefur haldið utan um þessa röð undanfarna áratugi. Ég finn að mig langar að setja mitt mark á tónleikaröðina og nútímavæða hana aðeins. Þetta hefur hingað til verið mikil klassík en mig langar að hafa fjölbreytta tónlist; sígilda, djass, rokk, popp og rapp undir yfirskriftinni: Háskóli fyrir alla, tónlist fyrir alla.

Hvers vegna er Háskóli Íslands að bjóða upp á tónleika?

Það er eðlilegt að háskólar leggi rækt við menningu og mér finnst mikilvægt að þeir tali við og út til samfélagsins og endurspegli það sem er að gerast í menningunni. Þetta eiga ekki að vera fílabeinsturnar. Núna, út af Covid, finnst mér það líka ákveðið ábyrgðarhlutverk háskólans að reyna að styðja við samfélagið, lyfta því upp og gleðja, bæta og næra.

Hvernig verða tónleikarnir núna í Covid?

Eftir bollaleggingar ákváðum við að best væri að blása bara til raðarinnar og hafa þetta í streymi eingöngu. Sóttvarnir eru því algerlega hundrað prósent og við verðum með flotta vefútsendingu úr glæsilegum hátíðarsal háskólans.

Hver ríður á vaðið?

Næsta miðvikudag í hádeginu spilar Mikael Máni og hans hljómsveit en Mikael er djassgítarleikari og alveg ótrúlegt efni. Svo í nóvember verður nútímatónlistarbandið Dymbrá sem er skipað þremur kornungum stelpum. Við endum haustið svo með jólatónleikum um miðjan desember. Þá er það hljómsveitin Umbra en þær vinna meðal annars með miðaldalegar jólastemmur. Mjög töff allt saman!