Elísabet Agnarsdóttir
Elísabet Agnarsdóttir
„Það eru allir búnir að fá endurgreitt og að ég held alsælir,“ segir Elísabet Agnarsdóttir, einn eigenda ferðaskrifstofunnar Tripical.

„Það eru allir búnir að fá endurgreitt og að ég held alsælir,“ segir Elísabet Agnarsdóttir, einn eigenda ferðaskrifstofunnar Tripical.

Morgunblaðið greindi frá því í gær að kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefði úrskurðað að ferðaskrifstofan þyrfti að endurgreiða að fullu útskriftarferð nemanda við Borgarholtsskóla til Krítar en nemandinn sendi kæru vegna málsins til nefndarinnar. Elísabet segir að fréttin hafi komið sér spánskt fyrir sjónir enda sé málið fyrir nokkru afgreitt. „Þegar ég fæ bréf frá þessari nefnd er hann löngu búinn að fá endurgreitt,“ segir hún. Jafnframt segir Elísabet að allir útskriftarnemar og aðrir sem áttu bókað hjá ferðaskrifstofunni, fyrir utan örfáa sem hafi gefið upp rangar bankaupplýsingar, hafi fengið endurgreitt, alls 8-900 manns.

Kórónuveiran og ferðatakmarkanir af hennar völdum hafa leikið ferðaskrifstofur grátt. Elísabet segir að Tripical hafi verið vel tryggt og getað sótt lán í ferðaábyrgðarsjóð stjórnvalda. Þótt hart sé í ári ætli fyrirtækið sér að verða til taks þegar rofar til í samfélaginu.

„Þegar blessuð kórónan fer, já. Við erum þegar farin að finna fyrir eftirspurn vegna útskriftarferða á næsta ári, jafnvel frá hópunum sem ætluðu að fara í ár. Það verður kannski bara tvöfalt stuð á næsta ári.“ hdm@mbl.is