Brexit Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, telur fullreynt á samningaviðræður við ESB um fríverslun að lokinni úrgöngu Breta úr sambandinu.
Brexit Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, telur fullreynt á samningaviðræður við ESB um fríverslun að lokinni úrgöngu Breta úr sambandinu. — AFP
Breska ríkisstjórnin hafnaði óskum Evrópusambandsins (ESB) um aukinn þunga í viðskiptaviðræðum vegna úrgöngu Breta úr sambandinu og segir þær tilgangslausar.

Breska ríkisstjórnin hafnaði óskum Evrópusambandsins (ESB) um aukinn þunga í viðskiptaviðræðum vegna úrgöngu Breta úr sambandinu og segir þær tilgangslausar. Frost lávarður, aðalsamningamaður Breta, hringdi í Michel Barnier, aðalsamningamanna ESB, og sagði honum að sleppa því að koma til viðræðna í Bretlandi eftir helgi.

Þessi harða afstaða Breta kemur eftir að 15. október rann upp og leið án þess að nokkuð þokaðist í viðræðunum, en Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, hafði áður gert hana að úrslitadagsetningu ef takast ætti að koma á einhverskonar fríverslunarsamningi Breta við ESB, sem tekið gæti gildi um næstkomandi áramót. Boris sakaði leiðtoga Evrópusambandsins um það í gær, að hafa fallið frá hugmyndinni um fríverslunarsamning við Bretland, og sagði löndum sínum að búa sig undir samningslausa úrgöngu úr ESB.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, brást við þeim orðum eins og ekkert hefði í skorist, hét því að ESB myndi reyna samninga til þrautar, og taldi ekkert því til fyrirstöðu að samningaviðræður héldu áfram í Lundúnum í komandi viku.

Hyggjast ræða saman í vikunni

Þrátt fyrir kaldar kveðjur sögðust þeir Frost lávarður og Barnier myndu ræða saman snemma í vikunni, sem viðheldur vonarneista um að ná megi samningum, þótt Bretar telji það um seinan.

Talsmaður Johnson sagði frekari viðræður tilgangslausar, nema ESB-ríkin myndu breyta afstöðu sinni í lykilmálum og taka til við eiginlegar samningaviðræður um viðskipti Bretlands og ESB. Til þessa hefur strandað á kröfum ESB um reglugerðarjöfnuð og sameiginlegt samkeppnisumhverfi, auk krafna Frakka um áframhaldandi fiskveiðar í breskri lögsögu. Hins vegar hefur lítið gengið að fjalla um hið eiginlega samningsefni um fríverslun.

„Viðskiptaviðræðurnar eru búnar að vera,“ sagði talsmaðurinn í Downing-stræti 10. „Evrópusambandið hefur í raun bundið enda á þær með því að neita að hnika afstöðu sinni í nokkru.“ andres@mbl.is