Þrif Mikil vinna og kostnaður fer í að þrífa eigur borgarinnar vegna veggjakrots. Átak var gert í miðborginni í ár.
Þrif Mikil vinna og kostnaður fer í að þrífa eigur borgarinnar vegna veggjakrots. Átak var gert í miðborginni í ár. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Við lítum á allt veggjakrot sem skemmdarverk á eigum borgarinnar. Þetta er mjög hvimleitt í okkar huga,“ segir Hjalti J. Guðmundsson, skrifstofustjóri skrifstofu reksturs og umhirðu borgarlands hjá Reykjavíkurborg.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Við lítum á allt veggjakrot sem skemmdarverk á eigum borgarinnar. Þetta er mjög hvimleitt í okkar huga,“ segir Hjalti J. Guðmundsson, skrifstofustjóri skrifstofu reksturs og umhirðu borgarlands hjá Reykjavíkurborg.

Eins og kom fram í Morgunblaðinu í vikunni voru skemmdir unnar á hljóðmön við Miklubraut á dögunum. Var starfsmönnum borgarinnar falið að hreinsa vegginn. Algengt er að starfsmenn borgarinnar þurfi að þrífa veggjakrot af eignum Reykjavíkurborgar og fellur þó nokkur kostnaður til við hreinsunarstarfið. Ekki er hins vegar algengt að þeir sem valda skemmdunum náist.

Fimm milljóna átak

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg skiptist hreinsun á veggjakroti í nokkra flokka. Stærsti einstaki flokkurinn er fasteignir borgarinnar, þar á meðal grunn- og leikskólar. Í ár hafa 8,7 milljónir króna verið bókfærðar í kostnað sem fellur til vegna veggjakrots á þeim. Árið 2019 var kostnaðurinn 12,3 milljónir yfir allt árið og árið 2018 var hann nær 10 milljónir króna. Kostnaður við hreinsun og yfirmálun á umferðarmannvirkjum, götugöngum, leiktækjum og mannvirkjum á opnum svæðum var um 11 milljónir króna árið 2018, aðrar 11 milljónir í fyrra og það sem af er ári nemur kostnaðurinn rúmum 17 milljónum króna. Þar af eru fimm milljónir í tengslum við sérstakt átak í sumar sem borgin vann í samvinnu við íbúa og rekstraraðila. „Við buðum rekstraraðilum í miðborginni og öðrum kjarnastöðum fram okkar aðstoð. Við vorum með aðila sem veitti ráðgjöf varðandi þrifin en þeir rekstraraðilar greiddu sjálfir fyrir þrifin. Þetta reyndist ágætlega,“ segir Hjalti um tilraunaátakið í sumar.

Hjalti kveðst ekki hafa upplýsingar sem sýni að veggjakrot hafi aukist nýlega í borginni. „Þetta er viðamikið verkefni og það gengur oft á í gusum. Við reynum að þrífa eigur borgarinnar eins fljótt og auðið er, förum reglulega yfir ákveðna fleti eins og undirgöng sem eru mörg vinsæl til þessa brúks. Síðan fáum við ábendingar og bregðumst þá fljótt við þeim. Eina sem við getum gert til að pirra þessa einstaklinga er að leyfa þessu ekki að lifa lengi.“

Erfitt að finna sökudólga

Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn kveðst ekki merkja aukningu í tilkynningum um veggjakrot til lögreglu. Hann telur að algengt sé að eigendur húsa máli yfir skemmdarverkin án þess að tilkynna um eignaspjöll. Erfitt sé að finna sökudólgana án þess að myndbandsupptökur eða aðrar sannanir liggi fyrir. Hann segir að í þeim tilvikum sem sökudólgar náist sé stundum reynd sáttamiðlun, viðkomandi sé boðið að mála yfir skemmdarverkin. Ef það gengur ekki þurfi eigandi byggingar að kæra formlega og óska eftir að viðkomandi verði gerð refsing.

Sömu táknin finnast víða

Morgunblaðinu barst ábending frá lesanda um að svipaðar áletranir hefðu verið krotaðar á hljóðmön við Kringlumýrarbraut og á hljóðmön við Miklubraut. Fylgir sögunni að sömu tákn hafi ítrekað verið krotuð þar.

Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn segir við Morgunblaðið að erfitt hafi reynst að hafa hendur í hári krotara enda vinni þeir skemmdarverk sín oftast í skjóli nætur. „Besti möguleikinn til að vinna bug á þessari plágu er að standa þá að verki. Það er ekki auðvelt enda eru þeir oft með aðra menn til að líta eftir fyrir sig og komast þá í burtu ef einhver nálgast. En ef það eru vísbendingar þá fylgjum við þeim eftir.“