Sálfræði Ný hæfni í gullakistunni á sumardaginn fyrsta, segir Kristín Linda Jónsdóttir.
Sálfræði Ný hæfni í gullakistunni á sumardaginn fyrsta, segir Kristín Linda Jónsdóttir. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sjómenn draga björg í bú og ungt fólk fer í skóla til að afla sér menntunar, sem gefur góð laun. Sálarlífið þarf að vera í lagi svo megi bregða sér í ferðalög sem skapa hagvöxt. Allt helst í hendur og úr verður samfélag. sbs@mbl.is

Sjómenn draga björg í bú og ungt fólk fer í skóla til að afla sér menntunar, sem gefur góð laun. Sálarlífið þarf að vera í lagi svo megi bregða sér í ferðalög sem skapa hagvöxt. Allt helst í hendur og úr verður samfélag. sbs@mbl.is

Frjálst fólk velur sér störf

„Frjálst fólk velur sér störf og reynir að skapa sér eigin hlutskipti í lífinu,“ segir Ágústa Rut Haraldsdóttir, formaður nemendafélags Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri, en hún er frá Sauðafelli í Dölum.

„Auðvitað getum við sagt að búskapur sé lífsstíll en slíkt gildir þá líka um margar aðrar atvinnugreinar. Slíku fylgir auðvitað ekki að fólk ætli að sætta sig við litlar tekjur eða geta ekki lifað mannsæmandi lífi. Við viljum því að landbúnaðarráðherra vinni í þágu bænda. Orð hans á Alþingi í síðustu viku um að sauðfjárbúskapur væri að nokkru lífsstíll ollu vonbrigðum.“

Ágústa Rut segir sóknarfæri íslensks landbúnaðar vera mörg. Draga megi úr innflutningi afurða og auka innanlandsframleiðslu, sérstaklega á grænmeti. Færst hafi í vöxt að neytendur óski þess að þekkja uppruna matvæla sem þeir kaupa og vilji vita hver aðbúnaður dýra hafi verið. Hagsmunir íslensks landbúnaðar snúist bæði um aðstæður og kjör bænda en líka fæðu- og matvælaöryggi þjóðar.

„Í matvælaframleiðslu Íslendinga eru strangar reglur og háir staðlar hvað varðar velferð dýra og lyfjanotkun. Hér er ágæt vinnulöggjöf sem á að tryggja réttindi og kjör starfsmanna í landbúnaðargreinum. Að ætla sér að flytja inn matvæli, sem oft er erfitt að upprunarekja og eru sjaldnast framleidd við jafn háa staðla og á Íslandi, er óviðunandi. Slíkt getur vakið siðferðisspurningar um ábyrgð okkar sem þjóðar. Fjöldi ungs fólks hefur áhuga á landbúnaði og vill mennta sig til starfa þar. Því er sorglegt að viðbrögð stjórnvalda séu þau að þessi atvinnugrein skipti ekki miklu máli og ekki þurfi að tryggja réttmæt kjör fólksins sem starfar við hana,“ segir Ágústa Rut.

Gefur stolt og styrk í sál

„Þótt við fólkið í landinu reynum að vera saman í stríðinu við Covid-19 erum við alls ekki öll í því sama. Neikvæð áhrif sjúkdómsins eru mismunandi og tillitsleysi er að segja alla á sama báti,“ segir Kristín Linda Jónsdóttir sálfræðingur í Reykjavík. Sjálf rekur hún stofuna Huglind en þangað leita margir eftir aðstoð.

„Skerðing á daglegu lífi fólks og möguleikum þess er afar mismunandi. Því er alveg svart og hvítt hvort áhrif Covid hafi verið ótti og neyð vegna afkomu og atvinnumála eða alls engin. Sumir hafa misst og syrgja, aðrir búa við skerta heilsu vegna Covid en fæstir hafa orðið fyrir heilsutjóni. Staðan er því afar misjöfn. Ég get þó sagt að flestir finna fyrir auknum áhyggjum, kvíða og depurð og það reynir á í nánum samskiptum á heimilum. Hætta á sárum og ósamkomulagi eykst ef grunnurinn er ekki heilbrigður og traustur. Viðvarandi ytri ógn vekur líka pælingar um endurskoðun á eigin lífi. Þá eru fleiri en venjulega að íhuga sambandsslit. Þá er aukin hætta nú en áður á heimilisofbeldi og ég hvet þá sem upplifa slíkt til að leita sér hjálpar.“

Gott og heilbrigt dagskipulag er grunnur lífsgæða. Fjölbreytileiki í viðfangsefnum og upplifun er áskorun á Covid-tímum en mikilvægur, segir Kristín Linda. „Verið skapandi og hangið ekki alltaf yfir því sama. Það gefur stolt og styrk í sál að klára stærri sýnileg verkefni sem hafa setið á hakanum. Svo er valdeflandi að finna eigin getu aukast til dæmis að læra spænsku, á gítar, teikningu, smíði eða prjón. Ef þú byrjar núna verður ný hæfni í gullakistunni þinni á sumardaginn fyrsta.“

Í myrkri við Kolbeinsey

„Nánast allur línubátaflotinn er þessar vikurnar fyrir norðan landið og við á Sighvati GK höfum alveg síðan í ágúst verið mikið talsvert norður af Kolbeiney. Helst erum við að slægjast eftir þorski og karfa og ufsinn er meðaafli. Veiðin hefur verið alveg ágæt, þótt aðstæður þarna í norðurhöfum séu um margt erfiðar. Hafsbotninn er grýttur, þarna koma oft brælur og sjávarstraumar eru þungir,“ segir Óli Björn Björgvinsson skipstjóri.

„Kolbeinseyjarmiðin sem við erum á eru um 80 mílur fyrir norðan landið og nú þegar komið er langt fram í október er þar myrkur nánast allan sólarhringinn. Þetta er því talsvert harðsótt. En mikil vinna skilar sér, því eftir hvern vikutúr erum við stundum að koma í land með 110-120 tonn af fiski sem eru þá 350-360 kör. Sú dagskrá er alveg föst að við á Sighvati löndum á fimmtudögum og í allt haust hefur Siglufjörður verið okkar heimahöfn ef svo mætti segja. Aflanum er svo ekið beint suður í vinnsluhús Vísis í Grindavík. Aðrir bátar fyrirtækisins hafa að undanförnu lagt aflann upp meðal annars á Sauðárkróki og Djúpavogi.“

Sighvatur GK 57 er rúmlega fjörutíu ára gamall bátur, sem var endursmíðaður og gerður sem nýr. Kom úr endurbótunum fyrir um tveimur árum og síðan þá hefur verið sótt stíft og vel veiðist.

„Reynslan er góð og báturinn fer vel með mannskap, segir Óli Björn. „Kúnstin í sjósókninni nú felst meðal annars í sterkum smitvörnum. Áður en farið var í þennan túr fórum við sjö sem komum nýir um borð í áhafnaskiptum allir í skimun á heilsugæslunni og reyndumst góðu heilli vera neikvæðir fyrir Covid. Í landlegum er svo brýnt fyrir mönnum að hitta fáa sem enga, fara ekki í verslanir og láta göngutúra um götur Siglufjarðarbæjar duga.“

Skoða mætti rýmri reglur

„Við köllum eftir því að skoðaðar verði rýmri ráðstafanir í sóttvörnum hér nyrðra, því kórónuveiran hefur alls ekki verið jafn skæð hér og fyrir sunnan. Verið er að vinna reglur á Norðurlöndunum þar sem skilgreind eru ákveðin svæði til ferðalaga, án þess að svæðið sé sett í hættu. Til þessa mætti horfa hér á landi,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdstjóri Markaðsstofu Norðurlands.

Haustið er tími markaðsstarfs í ferðaþjónustu, sbr. kaupstefnur sem þá er efnt til. Nú eru þessi mannamót haldin í hinni stafrænu veröld og á þeim vettvangi er reynt að búa í haginn og selja ferðir næsta sumars. „Núna eru ferðaheildsalar og þau sem skipuleggja ferðir að horfa til þess að bóluefni verði komið næsta vor og þá fari fólk aftur að ferðast. Allt skipulag og starf varðandi erlenda markaði miðast við þetta,“ segir Arnheiður.

Starfsemi ferðaþjónustufyrirtækja á Norðurlandi í sumar gekk þokkalega, enda voru Íslendingar mikið á ferðinni. „Í raun var þokkalegur gangur í þessu alveg þar til nú í byrjun október að samkomutakmarkanir voru settar að nýju. Þessar takmarkanir munu væntanlega hafa áhrif í vetrarfríum grunnskóla í Reykjavík, sem hefjast í næstu viku. Því má gera ráð fyrir að töluvert færri verði á ferðinni nú en áætlað var. Akureyri heillar alltaf og er skemmilegur staður að heimsækja. Það heyrum við oft og víða meðal Íslendinga, ekki síst frá krökkunum, en það er sérstaklega ánægjulegt í ár að sjá hvað Íslendingarnir eru duglegir að ferðast um allt og prófa nýjar slóðir. Við hlökkum til að taka á móti ferðamönnum aftur við fyrsta tækifæri. Verðum tilbúin strax og ferðatakmörkunum verður aflétt að bjóða ferðamenn velkomna norður,“ segir Arnheiður.