Guðni Einarsson gudni@mbl.is Útlendingastofnun bárust 80 nýjar umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi í september síðastliðnum. Alls eru þær orðnar 514 fyrstu níu mánuði ársins. Það sem af er bárust flestar umsóknir í júlí þegar þær voru 107 talsins.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Útlendingastofnun bárust 80 nýjar umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi í september síðastliðnum. Alls eru þær orðnar 514 fyrstu níu mánuði ársins. Það sem af er bárust flestar umsóknir í júlí þegar þær voru 107 talsins.

Af umsóknum í september voru 35 frá umsækjendum frá Palestínu og voru þær þá orðnar alls 76 á árinu. Næstflestar voru frá Írökum eða tólf, en alls hafa borist 79 umsóknir frá ársbyrjun frá fólki frá Írak. Fyrstu þrjá mánuði ársins voru langflestar umsóknir frá Venesúelabúum en mjög dró úr þeim í sumar. Þær voru sex í september og voru orðnar alls 102 alls á þessu ári í lok mánaðarins.

Útlendingastofnun veitti sex umsækjendum vernd í september, 26 fengu viðbótarvernd og fimm mannúðarleyfi. Kærunefnd útlendingamála veitti auk þess tveimur vernd í mánuðinum og sjö mannúðarleyfi. Tveimur aðstandendum flóttamanna var veitt vernd sem gerir samtals 48 leyfisveitingar í september sl. Oftast er um að ræða maka eða börn.

Á heimasíðu Útlendingastofnunar (utl.is) kemur fram að samkvæmt lögum um útlendinga eigi sá sem sætir ofsóknum í heimalandi sínu vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana rétt á alþjóðlegri vernd sem flóttamaður hér landi.

Í viðbótarvernd felst að „sá sem á á hættu dauðarefsingu, pyndingar eða ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða að verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka verði hann sendur aftur til heimalands síns, án þess þó að sæta eða eiga á hættu ofsóknir af einhverri af fyrrgreindum ástæðum, hefur rétt til alþjóðlegrar verndar sem flóttamaður“.