[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fræðimenn sem fjalla um verkin tala allir um styrkinn og kraumandi reiðina...

Af myndlist

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Hún er langfrægasti kvenkyns listmálari ítalska barokksins á 17. öld. Margir sem þekkja sögu þess tíma hafa heyrt um listakonuna sem ungri var nauðgað af málara sem var að segja henni til og þurfti af miklum viljastyrk að staðfesta ásakanirnar meðan hún var pyntuð. Og margir þekkja sögur af því að síðan hafi hún iðulega málað áhrifarík verk þar sem hún fjallar um áreitni og ofbeldi sem konur voru beittar, og verk sem sýndu konur taka af krafti á móti og jafnvel hefna sín á körlum. Færi hafa hins vegar þekkt til eða séð mörg þessara helstu verka listakonunnar, svo fá sem þau eru í raun og hafa dreifst milli safna og eru mörg í einkaeigu. En nú er verið að bæta úr því, sem betur fer, bæði með útgáfu nokkurra bóka sem fjalla um líf hennar og verk og svo var opnuð á dögunum í National Gallery í London sýning sem lengi hefur verið beðið eftir, með nær helmingi þeirra 57 málverka sem staðfest er að séu eftir hana, og gagnrýnendur hafa ausið lofi og stjörnum. „Artemisia“ hafa stjórnendur safnsins kosið að kalla sýninguna, og við hæfi að nota bara skírnar- eða gælunafn eins og tíðkast þegar margir meistarar listasögunnar eiga í hlut – Leonardo, Rafael, Michelangelo, Caravaggio... Artemisia Gentileschi, segja rýnar, getur keik staðið við hlið þeirra, svo áhrifarík séu verk hennar.

Nauðgað af kennaranum

Artemisia Gentileschi fæddist í Róm 1593 og var tólf ára þegar móðir hennar lést. Eftir það var hún alin upp hjá föður sínum, Orazio, sem var þekktur listmálari og enn má sjá fjölmörg verk eftir hann í söfnum. Í frægri samantekt um ítalska listamenn frá miðri sautjándu öld er Orazio sagður líkari skepnu en manni og tal hans æði kaldhæðnislegt. Engu að síður er ljóst að hann sagði dóttur sinni vel til í myndlistinni auk þess sem hún varð fyrir áhrifum af helstu staumum þess tíma, ekki síst nýjungunum sem Caravaggio kom fram með áður en hann lést 1610. Orazio og Caravaggio voru miklir mátar og er talið fullvíst að Artemisia hafi hitt hann.

Þegar hún var aðeins 17 ára, árið 1610, málaði Artemisia fyrstu útgáfu sína af sögunni um hina ungu Súsönnu sem öldungarnir njósna um og reyna að fá til lags við sig. Margir karlar höfðu málað þessa frásögn, þar á meðal Tintotetto og Rembrandt, en aldrei höfðu þeir lýst með viðlíka hætti viðbjóðnum sem gömlu perrarnir vekja hjá ungu stúlkunni. Þótt ýmsu sé tæknilega ábótavant í verki málarans unga þá er tilfinningaþunginn svo mikill að verkið vekur aðdáun – ævisöguritarar velta fyrir sér hvort persónuleg reynsla búi ekki að baki þeim þunga en stúlkan á myndini ber enn fremur svipmót málarans. Artemisia átti eftir að snúa aftur og aftur að þessu þema í málverkum; til eru sex málverk eftir hana sem sýna Súsönnu og öldungana og byggjast öll á því fyrsta sem hér má sjá.

Orazio sá vel hvaða hæfileikum dóttir hans bjó yfir og þegar hún var 18 ára stærði hann sig við greifynjuna af Toskana af því að Artemisia væri þegar fær um að skapa verk sem margir nafntoguðustu málarar þess tíma myndu aldrei ráða við.

Það sama ár fékk Orazio málarann kunningja sinn, Agostino Tassi, til að veita dótturinni tilsögn í fjarvídd en Tassi nauðgaði henni. Þegar Tassi neitaði í framhaldinu að ganga að eiga Artimisiu, eins og faðir hennar vildi, þá kærði Orazio hann. Í framhaldinu þurfti Artemisia að gangast undir pyntingar af hálfu lögreglunnar meðan hún var yfirheyrð, til að sanna að hún segði satt um nauðgunina. Skýrsla um yfirheyrsluna er á sýningunni í National Gallery, sýnd opinberlega í fyrsta skipti. Þar er lýst að hún hrópaði meðan fingur hennar voru klemmdir: „Það er satt, það er satt, allt sem ég sagði er satt!“

Refsing Tassis var ekki hörð – honum var bannað að halda til í Róm en dómnum var aldrei framfylgt. Að þeirra tíma sið var Artemisia hins vegar ekki spennandi kostur á hjónabandsmarkaði, ekki lengur hrein mey, en Orazio fann henni samt eiginmann og þau settust að í Flórens þar sem hún tók að koma undir sig fótunum sem listmálari. Sem var erfitt, auk þess sem hún eignaðist á skömmum tíma fimm börn. Aðeins eitt þeirra komst á legg. En hún átti fjögurra áratuga feril þar sem hún varð sífellt þekktari og virtari; hún átti eftir að starfa líka í Napolí, Feneyjum og Róm, og um tíma sem hirðmálari í London. Atremisia lést árið 1656, 63 ára.

Listamaður #MeToo-tíma

Eitt af því sem gagrýnendurnir sem hlaða sýninguna í National Gallery lofi eru sammála um er að Artemisia sé fullkominn listamaður nú á tímum#MeToo-vakningarinnar. Raunsæismálari sem hafði hálfgleymst, en firnafínn listamaður sem auðnaðist að gæða verk sín furðusterkum tilfinningum, verk sem næstum öll fjalla um reynsluheim kvenna. Lesendur geta séð á netinu skrá yfir öll málverk hennar sem staðfest eru og þau sem ekki fjalla um eða sýna fyrst og fremst konur og líf þeirra má telja á fingrum annarrar handar.

Vissulega var í tísku á sautjándu öld að mála táknræn og söguleg verk, oft byggð á sögum úr Biblíunni, en Artemisia hefur ítrekað valið sér viðfangsefni þar sem reiði hennar út í karlmenn og karlveldið fær útrás með táknrænum hætti. Og í mörgum tilvikum er um sjálfsmyndir að ræða.

Sörguðu af honum hausinn

Auk þess að mála endurtekið Súsönnu og öldungana tvo sem læðast að henni með ósæmilegt tilboð, þá eru rómuð málverkin tvö sem sýna gyðingakonuna ungu Júdit sarga höfuðið af assýríska hershöfðingjanum Hólófernesi, með dyggri aðstoð þjónustustúlkunnar sem hjálpar til við að halda tröllvöxnum hermanninum niðri meðan blóðið gusast og höfuðið er skorið frá búknum. Bæði þessi frægu málverk hafa verið lánuð á sýninguna. Þau eru formrænt byggð á öðru enn þekktara, eftir Caravaggio, en hér er tilfinningaþunginn meiri. Fræðimenn sem fjalla um verkin tala allir um styrkinn og kraumandi reiðina sem er að baki verknaðinum. Að auki eru til fjögur málverk eftir Artimisiu sem sýna Júdit og þjónustustúlkuna með blóðugt höfuðið af Hólófernesi. eins og staðfestingu hefndarinnar.

En á sýningunni í London birtast fleiri hliðar á þessum flinka málara og beinast sjónir nú á tímum sjálfunnar til að mynda að endurteknum sjálfsmyndum – myndefni sem var þá óþekkt að konur tækju sér fyrir hendur. Ein þeirra sýnir Artemisiu mála á beran striga og er kölluð táknmynd fyrir málverkið; verk málað af geislandi sjálfsöryggi og er í eigu Bretadrottningar.

Það er synd og skömm að svo merkileg sýning sé sett upp nú á tímum veirunnar sem kemur í veg fyrir ferðalög. Opnunin átti fyrst að vera í vor en var frestað – ekki var hægt að fresta sýningunni lengur vegna lána á verkum. Fyrir vikið missum við mörg af henni því fólk hefði eflaust þyrpst víða að til að sjá og upplifa þau nær þrjátíu málverk eftir þessa mögnuðu listakonu sem er loksins verið að enduruppgötva og tala með svo sterkum rómi inn í þá tíma sem við lifum.