Sómamaður Góða eðliskosti Gunnars á Hlíðarenda má sjá í Njálu.
Sómamaður Góða eðliskosti Gunnars á Hlíðarenda má sjá í Njálu. — Morgunblaðið/ Gísli Sigurðss
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kosturinn við að vera íslenskufræðingur er að maður þarf ekki að hafa skoðun á sóttvörnum né vera talnaglöggur.

Kosturinn við að vera íslenskufræðingur er að maður þarf ekki að hafa skoðun á sóttvörnum né vera talnaglöggur. Þó skiptir tölvísi máli í fornritum eins og þegar talað er um stór hundruð og dyrnar á Valhöll sem einherjar Óðins ganga um í Grímnismálum , alls 432.000 dyr – sem reynist öllum til furðu vera fjöldi ára í Kali Yuga-öld Hindúa á Indlandi.

Í Gautreks sögu , kátlegri frásögn af gerð fornaldarsagna, er lýst háttum skógarbúa á Vestur-Gautlandi. Til þeirra villist Gauti konungur og fær kuldalegar móttökur hjá húsráðendum, Skafnörtungi og Tötru. Snotra dóttir þeirra kvartar undan foreldrum sínum við Gauta; móðirin „vill aldrei önnur klæði hafa en það sem áður er slitið og að spjörum orðið, og þykir henni það mikil hagspeki“. Aðhaldsemi þeirra hjóna er með slíkum eindæmum að til að spara sér framfærslu gamalmenna hefur fjölskyldan þann hátt á að ganga fyrir Ætternisstapa: „þar með fækkum vér vort ætterni [...] og deyja þar allir vorir foreldrar fyrir utan alla sótt og fara þá til Óðins, og þurfum vér af engu voru foreldri þyngsl að hafa né þrjósku því að þessi sældarstaður hefir öllum verið jafnfrjáls vorum ættmönnum...“ Gauta konungi bregður ekki við þessa fjölskylduhefð og stingur upp á því að Snotra sofi hjá honum um nóttina. „Hún bað konung því ráða.“

Oft er vitnað til frelsis og sparnaðarráðs fjölskyldunnar á Vestra-Gautlandi í sömu andrá og til frásagnar úr viðauka Landnámu í Skarðsárbók: „Óaldarvetur varð mikill á Íslandi í heiðni í þann tíma er Haraldur konungur gráfeldur féll, en Hákon jarl tók ríki í Noregi. Sá hefir mestur verið á Íslandi. Þá átu menn hrafna og melrakka, og mörg óátan ill var etin, en sumir létu drepa gamalmenni og ómaga og hrinda fyrir hamra. Þá sultu margir menn til bana, en sumir lögðust út að stela og urðu fyrir það sekir og drepnir.“

Sómamaðurinn Gunnar á Hlíðarenda sýnir eðliskosti sína í miklu hallæri í Njálu og miðlar „mörgum manni hey og mat og höfðu allir þeir er þangað komu meðan til var“. Þegar birgðir Gunnars þrýtur fer hann til Otkels og vill kaupa af honum vistir en Otkell þvertekur fyrir að láta nokkuð af hendi, dyggilega studdur af Skammkatli sem „var maður illgjarn og lyginn, ódæll og illur viðureignar. Hann var vinur Otkels mikill.“ Er ekki ofsögum sagt að þessir tveir vinir séu ein mestu hrakmenni Íslandssögunnar fyrir að vilja ekki deila vistum í hallæri. Þegar Njáll á Bergþórshvoli heyrir af vandræðum Gunnars ráðleggur Bergþóra húsfreyja bónda sínum að bregðast drengilega við og gefa Gunnari bæði hey og mat. Þakkir Gunnars óma enn í skálaræðum: „Góðar eru gjafir þínar, en meira þykir mér verð vinátta þín og sona þinna“ en aldrei hefur spurst til þess að nokkur hafi hreykt sér af líkindum við Otkel og Skammkel. Þótt gamlar séu eru fornsögurnar oft góður áttaviti þegar ekki sést út úr hríðarkófi samtímans.

Gísli Sigurðsson gislisi@hi.is