Stuðningur Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnti tillögurnar í Hörpu í gær ásamt Lilju Alfreðsdóttur.
Stuðningur Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnti tillögurnar í Hörpu í gær ásamt Lilju Alfreðsdóttur. — Morgunblaðið/Eggert
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynntu í Hörpu ásamt fulltrúum Bandalags háskólamanna og Bandalags íslenskra listamanna í gær tíu stuðningsaðgerðir stjórnvalda fyrir listir og menningu á...

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynntu í Hörpu ásamt fulltrúum Bandalags háskólamanna og Bandalags íslenskra listamanna í gær tíu stuðningsaðgerðir stjórnvalda fyrir listir og menningu á tímum kórónuveirunnar.

Aðgerðirnar eru fjölþættar og eiga að miða að því að bæta stöðu starfandi listamanna og menningartengdra fyrirtækja, en þær fela m.a. í sér að sjálfstætt starfandi listamenn og menningartengd fyrirtæki geti sótt um rekstrarstyrki til að mæta tekjusamdrætti vegna kórónuveirufaraldursins. Ráðgert er að fjármunir sem varið verður til almenns tekjufallsstuðnings nemi rúmum 14 milljörðum kr.

Þá verður tímabundin hækkun starfslauna og styrkja fyrir árið 2021 og tímamörk verkefnastyrkja til menningarmála framlengd, og gert er ráð fyrir stofnun Sviðslistamiðstöðvar og Tónlistarmiðstöðvar, og 25 milljóna króna fjárveiting lögð í Iceland Airwaves.

Lilja sagði í tilkynningunni að íslensk menning væri sterk og hefði staðið af sér marga storma. „En menningarlífið hefur orðið fyrir miklu höggi vegna heimsfaraldursins og við teljum brýnt að bregðast við því með þessum aðgerðum sem eru framsýnar og metnaðarfullar, en jafnframt raunsæjar. Ég ber væntingar til þess að þær muni liðsinna sem flestum og trúi því að framtíðin sé björt í íslenskri menningu og listum,“ sagði Lilja meðal annars, en hún þakkaði einnig BHM, BÍL, ÚTÓN og fleirum fyrir frábæra samvinnu við undirbúning tillagnanna.