Örn Ingólfsson fæddist í Reykjavík 6. september 1936. Hann lést 21. ágúst 2020.

Örn átti tvær dætur, Sigrúnu, f. í Reykjavík 13. apríl 1958, d. 21. september 2000, og Álfheiði, f. 5. júní 1960 í Reykjavík.

Útförin fór fram 13. október 2020.

Í áranna rás hefur stórt skarð verið höggvið í þann góða hóp manna sem voru á bifreiðastöðinni Bæjarleiðum við komu okkar þangað árið 1978. Við fundum strax velvild og að í þann hóp værum við velkomin. Nú kveðjum við enn einn góðan vin, Örn Ingólfsson, eða Össa, eins og hann var alltaf nefndur á stöðinni. Össi var nokkuð sérstakur maður, sem gustaði af í allri framkomu, hreinn og beinn, sagði sína skoðun á mönnum og málefnum umbúðalaust, talaði aldrei á bakið á neinum, heldur beint við viðkomandi ef hann taldi ástæðu til. Hann var tíður gestur á heimili okkar á árum áður og þá var oftar en ekki líf í tuskunum, stundum mikill hávaði í samræðum.

Hin síðari ár, eftir að hann lauk starfi, var oft erfitt að ná til hans, ekki kveikt á símanum. „Hann er bara í sambandi þegar ég þarf að nota hann,“ var svarið þegar hann var inntur eftir ástæðunni. Hann dvaldi hjá dóttur sinni og tengdasyni vestur á Snæfellsnesi, sagðist vera fjósamaður hjá þeim, einmitt þegar Hreyfill keypti Bæjarleiðir. Með fjósverkunum hlustaði hann á fréttirnar í útvarpinu þar sem kaupin voru til umfjöllunar. Hann sagði að sér hefði brugðið svo að hefði hann ekki haft skófluna til að styðjast við hefði hann legið flatur í flórnum! Össi var sannur Bæjarleiðamaður og sveið að stöðin var seld.

Minningarnar eru margar um vin okkar Össa og skemmtilegan orðaforða sem hann viðhafði við spilaborðið. Háspilunum gaf hann sérstök nöfn og stundum mótspilurum líka, ekki síst ef hann taldi sig vera að bíða lægri hlut! Össi var einfari í eðli sínu, vildi fara sínar eigin leiðir, án afskipta annarra, og þannig var hans hinsta ganga. Ekki er það ætlunin að rekja lífshlaup þessa vinar okkar, heldur aðeins að minnast hans lítillega og þakka margar skemmtilegar stundir í leik og starfi. Hvíldu í friði kæri vinur.

Guðbjörg og Hörður.