Grímur Bjarni Markússon fæddist í Borgareyrum, V-Eyjafjöllum hinn 21. maí 1942. Hann lést á Sólvöllum á Eyrarbakka 26. september 2020.

Foreldrar Gríms voru Sigríður Magnúsdóttir frá Álfhólahjáleigu í Vestur-Landeyjum, f. 30. apríl 1905, d. 11. febrúar 1997, og Markús Jónsson frá Borgareyrum, bóndi og söðlasmiður, f. 6. mars 1905, d. 28. júlí 1988.

Grímur er sjöundi í röðinni af tíu systkinum en þau eru: Hulda, f. 1930, d. 1987, Hrefna, f. 1931, Magnús Sigurður, f. 1932, d. 1991, Eygló, f. 1933, d. 2009, Erla, f. 1936, d. 2017, Ester, f. 1940, d. 1945, Ester, f. 1944, Þorsteinn Ólafur, f. 1946, og Erna, f. 1947.

Grímur giftist 28. júlí 1973 Soffíu Einarsdóttur, f. 8. febrúar 1945. Þau byggðu sér hús á Lýsubergi 7 í Þorlákshöfn og hófu búskap þar árið 1973. Grímur og Soffía eignuðust eina dóttur, Bettý, f. 20. mars 1973, gift Árna Hrannari Arngrímssyni, f. 18. maí 1974, börn þeirra eru: Arngrímur, f. 28. júní 1999, og Soffía Sif, f. 20. október 2005.

Grímur byrjaði ungur að árum að vinna við bústörf á Borgareyrum. Þegar hann flutti að heiman fór hann að vinna ýmis störf. Þegar hann flutti til Þorlákshafnar vann hann m.a. í vélsmiðju, sem verkstjóri á vélaverkstæði og við vélgæslu í frystihúsi.

Grímur sinnti ýmsum félagsstörfum og starfaði í mörg ár í Björgunarsveitinni Mannbjörg í Þorlákshöfn. Hann sat í sveitarstjórn í tvö kjörtímabil fyrir Sjálfstæðisflokkinn og sat í barnaverndarnefnd í 16 ár.

Útför Gríms fór fram frá Þorlákskirkju í gær, 16. október 2020.

Fallinn er frá mágur minn og kær vinur, Grímur Markússon. Kynni okkar hófust þegar hann og systir mín Soffía hófu samband. Grímur varð strax hvers manns hugljúfi í fjölskyldu okkar og féll aldrei skuggi þar á.

Grímur var í eðli sínu sveitamaður og sem ungur maður stefndi hann á að verða bóndi. Hann var alinn upp við bústörf og kynntist hann hinum gömlu búskaparháttum og tók þátt í þeim nýjungum sem hófust í landbúnaði upp úr 1950. Grímur var viðloðandi búskap fram undir 1970, en þá snéri hann sér að því sem síðar varð ævistarf hans, að starfa sem vélvirki.

Grímur var sjálfmenntaður snillingur í öllum viðgerðum á hvers kyns vélbúnaði. Í sveitinni þurftu menn að bjarga sér og þar lærði hann handtökin. Það var sama hvort hann setti niður nýjar vélar í trollbáta, gerði við flóknustu fiskvinnsluvélar, stórar eða smáar, allt lék í höndunum á honum. Fór hann meðal annars til Færeyja að gera við slíkar vélar. Eitt sinn fór hann á suðunámskeið og fór út með það að hann hefði þar ekkert að gera því hann kynni meira en leiðbeinandinn. Um langt árabil sá Grímur um verkstæði Glettings og síðar Árness í Þorkákshöfn. Á vertíðum var þá unnið á öllum tímum sólarhringsins því ekki máttu bátar eða vélar stoppa ef bilun kom upp. Þá byggði hann mestu leyti með eigin höndum hús þeirra hjóna við Lýsuberg.

Margs er að minnast þegar maður lítur yfir farinn veg með Grími. Ég var sem ungur maður mjög handgenginn honum og var ýmislegt brallað, farið á skytterí, ádrátt og laxveiði og þá var mikið líf og fjör í ferðum.

Þá eru ógleymanlegar fjölskylduferðir sem við fórum árum saman í veiði í Vatnsá og víðar en þar var Grímur hrókur alls fagnaðar.

Grímur hafði sterkar skoðanir á stjórnmálum og þjóðmálum. Hann tók um árabil virkan þátt í sveitarstjórnarmálum Ölfushrepps og voru þeir fóstbræður í þeim efnum Bjarni heitinn Magnússon og Grímur. Í sveitarstjórnarmálum lagði Grímur sérstaka rækt við þá sem minna máttu sín eins og börn sem bjuggu við bágar aðstæður og fylgdi hann þeim málum vel eftir.

Dagfarspúður var Grímur og var það með ólíkindum hvað hann gat haldið ró sinni í því mikla vinnuálagi sem hann bjó við nær alla tíð. Hann tranaði sér ekki fram var hlédrægur að eðlisfari en maður glaður í góðra vina hópi og gat verð smá hrekkjóttur á góðlegan hátt.

Þó Grímur væri ekki langskólagenginn var hann mjög vel greindur, margfróður og víðlesinn í íslenskum bókmenntum. Hann kunni ógrynni af kveðskap og lausavísum sem gengu manna á meðal hér áður fyrr.

Síðustu ár voru Grími erfið. Hann missti heilsuna og þurfti að liggja síðustu ár á sjúkrastofnun en hann tók veikindum sínum af æðruleysi.

Samskipti okkar Gríms síðustu mánuði voru þau að hann hringdi iðulega í mig milli klukkan 10 og 11 á kvöldin og við ræddum saman um menn, málefni og liðna tíð. Síðast ræddum við saman kvöldið áður en hann dó.

Með Grími er genginn heiðarlegur góður drengur sem öllum vildi gott gera og sennilega fórnaði hann heilsu sinni með allt of mikilli vinnu og ósérhlífni.

Við María og fjölskylda vottum Soffíu og Bettý og fjölskylduokkar dýpstu samúð.

Ingileifur, María

og fjölskylda.