Gísli Kr. Björnsson
Gísli Kr. Björnsson
Eftir Gísla Kr. Björnsson: "Núna, í líðandi bylgju faraldursins, er von fyrirtækja í ferðaiðnaðinum um líf eftir covid orðin næsta lítil."

Í Morgunblaðinu laugardaginn 10. október birtust tvær greinar, hvor eftir sinn manninn, hvor um sína hliðina á Covid-ástandinu. Önnur var eftir Ólaf Jóhann Ólafsson, rithöfund og fyrrverandi forstjóra, og bar yfirskriftina „Frelsið og farsóttin“ en hin eftir Arnar Þór Jónsson héraðsdómara og bar yfirskriftina „Til umhugsunar“. Grein Ólafs mætti túlka sem upplifun hins varfærna manns á veikindunum sem farsóttinni fylgir og hversu skæð og bráðdrepandi hún getur verið, og að það sé skylda samfélagsins að vernda mannslíf fyrir veirunni, hvað sem það kostar. Grein Arnars mætti túlka sem viðvörun hins varfærna manns, sem með upplýstum hætti gerir sér grein fyrir áhættunni sem farsóttinni fylgir, en einnig áhrifum aðgerða gagnvart henni, þ.e. á menningarleg og stjórnmálaleg réttindi einstaklinga og fyrirtækja, og alls ekki síst á takmörkun mannréttinda.

Greinarnar báðar eru góðar ábendingar til einstaklinga um að taka upplýstar ákvarðanir sem hafa áhrif á líf og heilsu, sem og áminning um það hver lífæð samfélagsins er. Samspil einstaklinga og fyrirtækja er of samtvinnað í nútímasamfélagi til að hægt sé að skerða réttindi annars án þess að það hafi áhrif á líf hins. Í grein Arnars er það gagnrýnt að ríkisstjórnin, sem situr í umboði lýðræðiskjörins þings, leggi allt sitt traust á vísindamenn, sem taki ákvarðanir um sóttvarnir samfélagsins án þess að fyrir því liggi lýðræðislegt umboð. Í grein Ólafs er fólk hvatt til að fara eftir leiðbeiningum stjórnvalda, til að fyrirbyggja útbreiðslu veirunnar.

Allt frá grunnhugmyndum manna um mannréttindi hafa þau tekið þróun og vernd þeirra aukist. Sú skylda er lögð á ríki að þau tryggi einstaklingum ákveðna vernd en um leið frelsi. Þannig fara saman réttindi og skyldur, rétt eins og hönd í hönd. Segja má að virðing stjórnvalda fyrir mannréttindum hafi tekið vaxtarkipp frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar, og skilað sér m.a. í auknum réttindum til ferða og búsetu, fjármagnsflutninga, atvinnutækifæra og þjónustu. Evrópska efnahagssvæðið hefur haft þetta að leiðarljósi allt frá stofnun, og í næstum 70 ár hafa evrópskar þjóðir vart litið virk landamæri augum, að nokkrum frátöldum á tímum kalda stríðsins. Athyglisvert var í upphafi kórónuveirufaraldursins að sjá þessi landamæri spretta upp á nýjan leik, en enn athyglisverðara var að sjá fréttir af útgöngubanni fólks, sem fylgt var eftir með lögregluvaldi. Núna, í líðandi bylgju faraldursins, er von fyrirtækja í ferðaiðnaðinum um líf eftir covid orðin næsta lítil. Veitingastöðum er lokað í stórum stíl og margir sjá jólaösina sem leiftur fortíðar, að minnsta kosti að svo stöddu.

Á tímum sem þessum er vert að hafa orð þeirra beggja, Ólafs og Arnars, til umhugsunar. Það er hollt og rétt fyrir okkur einstaklingana að gera allt sem í okkar valdi stendur til að takmarka útbreiðslu veirunnar. Það er hreinlega skylda okkar. Á sama tíma er það skylda stjórnmálamannanna að skapa leiðir til að tryggja stöðugt umhverfi fyrir fyrirtæki sem leiðir af sér atvinnu fyrir einstaklinga. Það er okkar réttur. Við núverandi ástand verður hins vegar ekki unað lengi án þess að uppsagnir á atvinnumarkaði fari að leggjast á ríkisvasann af meiri þunga. Uppsagnir þýða færri skattgreiðendur og minni rekstrarumsvif fyrirtækja, sem og fleiri bótaþega og fleiri gjaldþrot fyrirtækja. Slíkt umhverfi leiðir til stöðnunar, eins og nú er farin að gera vart við sig, og síðan til hnignunar. Hættan er þá að ríkissjóður banki á dyr einstaklinga, með kröfur um hærri gjöld og hærri skatta. Ekkert ríki þolir mikinn tekjumissi í langan tíma án þess að það komi niður á lífsgæðum einstaklinga. Ekkert ríki þolir heldur mikinn tekjumissi án þess að það bitni á t.d. heilbrigðiskerfinu. Það getur leitt til enn frekari skerðingar mannréttinda, en um leið aukið við veikindi og dauðsföll, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Alþingi og ríkisstjórnin geta ekki skýlt sér á bak við vísindamenn í þeim efnum, þótt þeirra ráð séu ómetanleg, þeir bera einfaldlega ekki lýðræðislega ábyrgð. Umræður og samtöl um aðgerðir morgundagsins verða að eiga sér stað í dag, og upplýst umræða leiðir af sér betri ákvarðanir viðeigandi stjórnvalda hverju sinni.

Skylda hvers og eins í samfélaginu er að gera kröfur til stjórnvalda um að þau taki upplýstar ákvarðanir hverju sinni, sem byggjast á pólitísku skynbragði og ráðsemi, hvort sem það er til að takmarka útbreiðslu veirunnar eða til að vernda atvinnustig. Sé hvort tveggja gert er hægt að koma þjóðinni frá frekara tjóni, bæði lýðheilsulegu og fjárhagslegu. Hafi stjórnmálamenn lært eitthvað af síðasta efnahagshruni, þá væri það þetta. Með það að leiðarljósi er hægt að skoða endinn áður en lagt er af stað.

Höfundur er lögmaður.