— Morgunblaðið/Hallur Már
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Með því að opinbera töluna yfir fjölda sjálfsvíga á Íslandi árið 2019, 39, vill Geðhjálp í samstarfi við Píeta-samtökin annars vegar ræða sjálfsvíg og þann skyndilega missi og sorgina sem af þeim hlýst og hins vegar ræða ástæðuna sem býr að baki slíkri...

Með því að opinbera töluna yfir fjölda sjálfsvíga á Íslandi árið 2019, 39, vill Geðhjálp í samstarfi við Píeta-samtökin annars vegar ræða sjálfsvíg og þann skyndilega missi og sorgina sem af þeim hlýst og hins vegar ræða ástæðuna sem býr að baki slíkri gjörð og orsakaþætti geðheilbrigðis. Sunnudagsblaðið ræðir þetta mál við einn af stofnendum Píeta-samtakanna og verkefnastjóra sjálfsvígsvarna hjá Embætti landlæknis. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Með því að opinbera töluna yfir fjölda sjálfsvíga á Íslandi árið 2019, 39, vill Geðhjálp í samstarfi við Píeta-samtökin annars vegar ræða sjálfsvíg og þann skyndilega missi og sorgina sem af þeim hlýst og hins vegar ræða ástæðuna sem býr að baki slíkri gjörð og orsakaþætti geðheilbrigðis. Sunnudagsblaðið ræðir þetta mál við einn af stofnendum Píeta-samtakanna og verkefnastjóra sjálfsvígsvarna

hjá Embætti landlæknis.

Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Þurfum að grípa unga fólkið

Pétur, sonur Benedikts Þórs Guðmundssonar, svipti sig lífi árið 2006, aðeins 21 árs að aldri. Það varð til þess að Benedikt hafði frumkvæði að stofnun Píeta-samtakanna sem opnuðu sína þjónustu vorið 2018 en hlutverk þeirra er að sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur.

Píeta-síminn, 552 2218, er opinn allan sólarhringinn alla daga vikunnar og hvetur Benedikt alla sem líður illa og eru í brýnni þörf fyrir að ræða sín mál við einhvern til að hafa samband. Það geti orðið fyrsta skrefið að bjartari framtíð. Samtökin eru til húsa á Baldursgötu 7 í Reykjavík og kynna má sér starfsemina nánar á heimasíðu þeirra, pieta.is.

Benedikt situr ekki lengur í stjórn Píeta en hefur nú það hlutverk innan samtakanna að halda utan um stuðningshópa fyrir aðstandendur fólks sem fallið hefur fyrir eigin hendi eða fyrir fólk sem óttast að ástvinur muni grípa til slíkra örþrifaráða.

Ekki þarf að fjölyrða um ástandið í samfélaginu vegna kórónuveirufaraldursins og Benedikt segir merki þess að fleiri, ekki síst fólk á aldrinum 18 til 25 ára, séu að hafa samband við Píeta-samtökin. „Þetta fólk er gjarnan dottið út úr skóla og ekki að vinna. Það er ráðalaust, með mikinn kvíða og líður mjög illa enda þótt meirihlutinn sé alla jafna ekki í sjálfsvígshugleiðingum. Það getur verið stórt skref að biðja um hjálp en ég hvet fólk til að hika ekki við það; það að tala um ástandið og líðan sína getur haft mjög góð áhrif og verið upphafið að bataferlinu,“ segir hann.

Ekki næg eftirfylgni

Að sögn Benedikts er margt af því unga fólki sem leitar til Píeta-samtakanna félagslega einangrað og ekki mikið fylgst með því. Það sé orðið átján ára og þar af leiðandi ábyrgt fyrir sjálfu sér. „Það er ekki nægilega mikil eftirfylgni með þessum krökkum og það þurfum við að laga. Hlúum betur að börnunum okkar, þó að þau séu orðin sjálfráða.“

Benedikt segir margt vel gert í samfélaginu hvað viðkemur stuðningi við fólk sem líður illa og margir reiðubúnir að leggja sitt lóð á vogarskálarnar, ekki síst sjálfboðaliðar. Kerfið sem slíkt megi þó standa sig betur. „Kerfið virðist ekki vera að sinna þessum einstaklingum nægilega vel. Eftir að börn verða átján ára og öðlast sjálfstæði missir kerfið svolítið sjónar á þeim. Foreldrarnir eiga líka erfiðara um vik; geta ekki lengur hringt til að kanna hvort barnið mæti í skólann og annað slíkt. Allt ber þetta að sama brunni, við verðum að sinna unga fólkinu okkar betur.“

– Hefur kerfið lítið liðkast síðan þú fórst að gefa þessum málum gaum?

„Já, því miður, og kerfinu hefur farið minnst fram þegar kemur að því að sinna yngstu hópunum. Það er eins og það kunni ekki almennilega að taka á móti þessu fólki. Það skortir sérúrræðin. Greinist fólk með krabbamein eða hjartasjúkdóma er strax tekið á móti því en viðbragðið er af einhverjum ástæðum ekki það sama gagnvart andlegum veikindum. Við megum ekki skilja þarna á milli. Andleg veikindi geta verið alveg jafn lífsógnandi og krabbamein og hjartasjúkdómar. Einmitt þess vegna er forvarnarstarfið svo mikilvægt sem raun ber vitni og okkur ber, sem samfélagi, að snúa saman bökum. Við getum bjargað þessum krökkum og tryggt þeim betra líf. Grípum okkar veikasta unga fólk áður en það er um seinan.“

Það er tilfinning Benedikts að samfélagið sé uppteknara af því unga fólki sem gengur vel í lífinu. „Ekki misskilja mig, það er að sjálfsögðu hið besta mál, við eigum að gera gott fólk ennþá betra, en gleymum bara ekki hinum, sem vegnar ekki eins vel. Hjálpum þeim að komast aftur inn á sporið.“

Fjarnám er víða stundað um þessar mundir vegna faraldursins og Benedikt segir það henta fólki misvel. Píeta-samtökin þekki mörg dæmi þess að fjarnám hafi stuðlað að félagslegri einangrun og meiri vanlíðan, ekki síst hjá þeim sem séu veikir fyrir. Á móti komi að öðrum líði betur, það er þeim nemendum sem líður alla jafna illa í skólanum og hentar því fjarnámið betur.

Betur má ef duga skal

Bendikt áréttar að víða sé veitt góð þjónusta og ríki og borg hafi verið að sækja í sig veðrið á umliðnum árum og misserum. „Það er markvisst verið að hafa samband við fólk sem líður illa og kanna hvernig það hefur það. Ekki veitir víst af eins og ástandið er núna. En betur má ef duga skal og ég óttast því miður að herðum við ekki róðurinn og verðum sýnilegri gagnvart þessu unga fólki eigi það eftir að skapa enn meira vandamál til lengri tíma litið.“

Að sögn Benedikts er heldur ekki nóg að grípa fólk þegar það veikist; forvarnir skipti einnig gríðarlega miklu máli. Að búa unga fólkið okkar sem best undir lífið, kenna því dyggðir á borð við þrautseigju og breyta íslensku skólakerfi. „Við þurfum að nálgast krakkana með öðrum hætti, til dæmis með því að tengja betur saman skóla og hreyfingu og styðja betur við unga stráka í skóla.“

Fjórtán ár eru síðan sonur Benedikts féll fyrir eigin hendi. Hann kveðst ekki hafa hugmynd um hvort það hefði farið á annan veg hefði syni hans verið kunnugt um hjálparþjónustu á borð við Píeta-samtökin. „Auðvitað veltum við því mikið fyrir okkur og það varð kveikjan að stofnun samtakanna. Það voru til sorgarsamtök á þessum tíma, vegna maka- eða barnamissis, svo sem Ný dögun, sem voru mjög merkileg samtök, en ekkert sem sneri sérstaklega að sjálfsvígum. Hvort samtök eins og Píeta bjarga beinlínis mannslífum er erfitt að meta en okkur fannst alla vega rík ástæða til að bjóða upp á þessa þjónustu. Í öllu falli getur það ekki skaðað.“

Að dómi Benedikts er brýnt að halda vel utan um grasrótarsamtök út um allt land. „Það skiptir ekki máli hvar þú býrð, þú átt alls staðar að geta fengið hjálp. Þess vegna hvet ég ríkið, sveitarfélög og fyrirtæki til að styðja dyggilega við bakið á þessari starfsemi. Það er ofboðslega margt fólk reiðubúið að hjálpa til af hugsjón og í sjálfboðavinnu og okkur hjá Píeta-samtökunum langar að opna skjólshús á Akureyri og jafnvel víðar um landið. Það er svo mikilvægt að fólk geti leitað á einhvern tiltekinn stað, þó ekki væri nema til að spjalla.“

Á endanum snýst þetta hins vegar alltaf um fjármagn. „Því minni tími sem fer í fjáröflun og utanumhald þeim mun betur er hægt að sinna skjólstæðingunum. Nú er Ljósið komið inn á fjárlög og fleiri slík samtök eiga að mínu viti erindi þangað líka að uppfylltum tilteknum skilyrðum, svo sem Píeta-samtökin.“

Hafa sannað gildi sitt

– Hafa Píeta-samtökin sannað gildi sitt á þessu hálfa þriðja ári?

„Algjörlega. Þeim sem leita til samtakanna hefur fjölgað um 140% milli ára, það er mjög mikið að gera og við höfum bætt laugardögum og sunnudögum við. Við fáum reglulega að heyra að þetta sé úrræði sem hafi vantað í íslenskt samfélag. Það er ekki lengur tabú að viðurkenna að maður þurfi á hjálp að halda, það skynjar unga fólkið ekki síst, sem er mjög jákvætt. Það er allt í lagi að tala við mömmu og pabba, kennarann eða góðan vin. Umræðan í samfélaginu er líka orðin miklu opnari og það skiptir máli að fólk stígi fram og segi sína sögu, ekki síst fólk sem notið hefur mikillar velgengni en líður samt af einhverjum ástæðum illa.“

Fjöldi fólks kom að stofnun Píeta-samtakanna og segir Benedikt þau hafa verið svo heppin að fá til starfa Sirrý Arnardóttur sem var fyrsti framkvæmdastjóri samtakanna „Sirrý var mikill ísbrjótur með stórt tengslanet í kringum sig og Kristín Ólafsdóttir núverandi framkvæmdastjóri hefur haldið því góða starfi áfram af miklum myndarskap.“

Píeta-samtökin hafa, að sögn Benedikts, átt gott samstarf við aðra aðila sem sinna geðheilbrigðismálum, svo sem Rauða krossinn og hjálparnúmerið 1717. Algengt sé að fólki sem hringi þar inn sé vísað yfir til Píeta-samtakanna. „Þetta samstarf er mjög mikilvægt og hefur verið að aukast.“

Skilningurinn að aukast

– Þegar þú horfir yfir sviðið, er þá skilningur á þessum málaflokki að aukast?

„Já, ég er sannfærður um það, miðað við kraftinn og skilninginn hjá íslensku þjóðinni. Við finnum, eins og ég segi fyrir mikilli hvatningu. Nú læt ég mig bara dreyma um að Píeta-samtökin og önnur samtök sem vinna að bættri geðheilsu fái meiri stuðning frá hinu opinbera. Það skiptir höfuðmáli að samfélagið í heild komi að þessu verkefni og grasrótin verður að vera til staðar. Við þurfum á fjölbreytninni að halda, það hentar ekki öllum að leita til spítala og stofnana. Þess vegna þurfa grasrótarsamtök að fá að vaxa og dafna. Við hjá Píeta-samtökunum erum þakklát fyrir stuðninginn til þessa og munum halda ótrauð áfram á sömu braut.“

Benedikt Þór Guðmundsson, einn af stofnendum Píeta-samtakanna, segir grasrótina mjög mikilvæga þegar kemur að forvörnum gegn kvíða, vanlíðan og sjálfsvígum. Hann hvetur til samstillts átaks allrar þjóðarinnar í geðheilbrigðismálum.

Verðum að geta talað um þessar hugsanir

Embætti landlæknis réðst árið 2019 í eftirfylgd á aðgerðaáætlun í sjálfsvígsvörnum með styrk frá heilbrigðisráðuneytinu. Um er að ræða á bilinu fimmtíu til sextíu aðgerðir sem sumar hverjar eru þegar komnar til framkvæmda. Upphaflega átti átakinu að ljúka um næstu áramót en nú hefur fengist framhaldsfjárveiting fyrir árið 2021. Hildur Guðný Ásgeirsdóttir, verkefnastjóri sjálfsvígsvarna hjá Embætti landlæknis, fagnar þessu enda sé um langhlaup að ræða; flest lönd í kringum okkur hafi gefið sér á bilinu fimm til tíu ár í þessa vinnu. „Við erum eitt af 38 löndum í heiminum með svona áætlun en tekið er mið af gagnreyndum aðgerðum sem þekkjast víða og hafa skilað góðum árangri. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, leiðbeinir okkur í þessum efnum en einnig höfum við horft til nágrannalandanna, svo sem Noregs og Svíþjóðar, auk nýjustu rannsókna,“ segir Hildur Guðný.

Hún hefur stýrt verkefninu frá upphafi en hverfur frá borði um áramótin, þegar hún fer í barneignarleyfi.

Hafið samband!

Hildur Guðný segir geðheilbrigði alltaf mikilvægan málaflokk, sérstaklega í því árferði sem við búum við núna í heimsfaraldri kórónuveirunnar. Við aðstæður sem þessar sé mikilvægara en endranær að fylgjast vel með viðkvæmum hópum í samfélaginu, faraldurinn komi til með að hitta einstaklinga misjafnlega fyrir. „Eitt af því sem við getum gert er að fylgjast með í rauntíma innlögnum á spítala vegna sjálfsvígstilrauna eða sjálfsskaða og sem betur fer sýna þær tölur ekki hækkun miðað við fyrri ár. Hjálparsími Rauða krossins, 1717, og Píeta-samtökin taka líka stöðuna en hægt er að hringja í þau allan sólarhringinn alla daga vikunnar.“

Mikið álag er á heilbrigðiskerfinu vegna veirunnar og sífellt hamrað á því í fjölmiðlum. Hildur Guðný segir þetta geta haft þær afleiðingar að fólk sem þarf á aðstoð að halda vegna geðrænna kvilla veigri sér við að hafa samband til að auka ekki álagið á kerfið. Skilaboð hennar til þessa fólks eru skýr: „Hafið samband! Það er hjálp til staðar og það er alltaf von.“

Í september bjó Embætti landlæknis til plakat og myndband til að vekja athygli á mikilvægi þess að fólk leiti sér aðstoðar vegna geðrænna vandamála og var það sent á framhaldsskólana, heilsugæsluna og fleiri aðila.

Að sögn Hildar Guðnýjar eru sjálfsvígstilraunir og sjálfsskaði algengari meðal kvenna og yngra fólks en sjálfsvíg á hinn bóginn algengari meðal karla og með hækkandi aldri.

Brýnt að efla eftirfylgd

Hún segir mjög brýnt að efla eftirfylgd í kjölfar sjálfsvígstilrauna í allt að tvö ár á eftir en dæmin sanna að fyrri sjálfsvígstilraunir séu alvarlegur áhættuþáttur sjálfsvíga. „Ein af aðgerðunum sem við erum að þróa ásamt Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu er innleiðing á eftirfylgd í kjölfar tilrauna. Eins skiptir miklu máli að efla fræðslu og viðbrögð við sjálfsvígshugsunum og samræma þetta á öllu landinu. Þá erum við að horfa til heilbrigðisstarfsmanna, skólahjúkrunarfræðinga, kennara o.fl. Fólk hefur kallað eftir leiðbeiningum um hvernig tala má við einstaklinga þegar þessar hugsanir knýja dyra.“

– Er það að ræða sjálfsvíg og sjálfsvígshugsanir alltaf jafn mikið tabú?

„Það er ósköp eðlilegt að fólk sé hrætt við að tala um þessa hluti. Þess heldur þarf hjálpin að vera fyrir hendi. Að því sögðu gæti ég alveg trúað því að umræðan um þessi mál sé opnari nú en fyrir tíu eða tuttugu árum. Samfélagið er orðið opnara en áður. Það skiptir líka máli í þessu sambandi að fjölmiðlar hafa á síðustu árum og misserum fengið leiðbeiningar um það hvernig fjalla skuli um þessi mál. Rannsóknir sýna nefnilega að óábyrg opinber umfjöllun getur haft áhrif á sjálfsvíg. Þá er ég til dæmis að tala um þegar einstaklingur sem hefur svipt sig lífi er upphafinn og jafnvel fjallað um aðferðina sem hann beitti. Nær er að fjalla um lausnir og bjargráð, og leggja áherslu á sögu og leiðir þeirra sem björguðust. Þetta er kallað Papagenó-áhrifin og rannsóknir sýna að þessar áherslur geta hjálpað einstaklingum sem eru á vondum stað í lífinu.“

Þess má geta að Papagenó-áhrifin vísa í karakter í óperunni Töfraflautunni eftir Wolfgang Amadeus Mozart en í verkinu íhugar Papagenó að svipta sig lífi þangað til aðrar persónur benda honum á að hann geti leyst sín aðsteðjandi vandamál með öðrum og giftusamlegri hætti.

Áhyggjur af auknu atvinnuleysi

Enginn veit hvenær þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins lýkur eða hversu margar fleiri bylgjur við komum til með að þurfa að takast á við. Fyrir liggur að áhrif veirunnar á íslenskt samfélag verða gríðarleg, ekki síst atvinnulífið og efnahaginn. Hildur Guðný segir augljós hættumerki í þessu fólgin þegar kemur að sjálfsvígsvörnum. „Alþjóðasamfélagið hefur miklar áhyggjur af auknu atvinnuleysi en vitað er að langvarandi atvinnuleysi er áhættuþáttur þegar kemur að sjálfsvígum. Embætti landlæknis fylgist grannt með óbeinum áhrifum faraldursins, svo sem auknu heimilisofbeldi og öðru slíku og unnið er að því að setja á laggirnar lýðheilsuvakt í anda velferðarvaktarinnar sem stofnað var til eftir bankahrunið 2008. Sú vakt gafst vel en á meðan sjálfsvígum fjölgaði á heimsvísu í heimskreppunni 2008 þá gerðist það ekki hér.“

– Hverju er það þakkað?

„Ætli samtakamáttur þjóðarinnar hafi ekki ráðið mestu þar um. Við erum lítil þjóð og stöndum gjarnan þétt saman þegar eitthvað bjátar á.“

– Mun það hjálpa okkur að takast á við afleiðingar faraldursins?

„Það myndi ég ætla. Hvert áfall og hver kreppa eru auðvitað mismunandi en við búum að reynslunni úr bankahruninu. Aðalatriðið er að við stöndum öll saman, stjórnvöld, heilbrigðiskerfið, fyrirtæki, stofnanir, fjölmiðlar og einstaklingar. Félagslegur stuðningur einkenndi okkur í síðustu kreppu og mildaði á endanum höggið. Leggist allir á eitt við að setja geðheilsu í forgang ætti það að geta endurtekið sig nú.“

Geðrækt kennd í leikskóla

Hildur Guðný segir geðrækt alltaf snaran þátt í nálgun Embættis landlæknis og mikilvægt sé að skoða geðheilsu frá grunni og spyrja hverjir orskaþættirnir séu. „Þetta er mjög mikilvægur hluti af aðgerðaáætlun okkar, hvernig hægt er að efla geðheilsu og seiglu í samfélaginu og haga starfi og umhverfi sem best til að bæta andlega líðan fólks og draga úr líkum á sjálfsskaðandi hegðun.“

Hún bendir á, að starfshópur hafi í byrjun árs skilað tillögum til heilbrigðisráðherra um geðrækt barna. Þar er lagt til að hún hefjist strax í leikskóla og héldi áfram upp framhaldsskóla, og geri börnum þannig kleift að styðja við eigið geðheilbrigði. „Það er mjög mikilvægt að byrja þessa vinnu frá grunni og að geðrækt verði eins sjálfsögð og að læra að lesa, reikna og skrifa.“

– Hvenær gerirðu ráð fyrir að þessi áætlun komist í gagnið?

„Ráðherra er búinn að samþykkja áætlunina þannig að vonandi verða aðgerðir innleiddar sem fyrst, jafnvel strax á næsta ári.“

Hildur Guðný lýkur lofsorði á geðhjálparátakið 39, nauðsynlegt sé að virkja sem flesta í baráttunni fyrir bættri geðheilsu. „Þessi tala, 39, er auðvitað alltof há en hún á ekki bara við um þá sem féllu fyrir eigin hendi á Íslandi á síðasta ári, heldur er hún einnig meðaltal síðustu tíu ára. Öll viljum við lækka þessa tölu enda skilur hvert einasta líf sem tapast eftir sig mikla sorg. Fjöldi sjálfsvíga á hverja hundrað þúsund íbúa hefur farið heldur lækkandi á heimsvísu en það hefur því miður ekki gerst hér, þar sem talan er svipuð og í nágrannalöndunum. Heimsmeðaltalið var aðeins hærra en er nú svipað og okkar tíðni.“

30% lægri tíðni árið 2030

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur sett sér það markmið að lækka sjálfsvígstíðni um 30% fyrir árið 2030. Hildi Guðnýju þykir eðlilegt að við Íslendingar setjum okkur sama markmið. „Þess vegna er mikilvægt að þessar aðgerðir sem við vinnum að verði sem fyrst að veruleika, að við byrjum þessar forvarnir frá grunni, höfum umræðuna á uppbyggilegum nótum og vinnum öll saman.“

Hildur Guðný Ásgeirsdóttir, verkefnastjóri sjálfsvígsvarna hjá Embætti landlæknis, segir brýnt að innleiða fjölþættar aðgerðir í sjálfvígsvörnum sem fyrst. Hún hvetur þjóðina til að standa saman að því að opna umræðuna og fyrirbyggja ótímabær dauðsföll.