Ármann Jakobsson
Ármann Jakobsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Angústúra gefur út bland af frumsömdum og þýddum bókum fyrir þessi jól. Frumsömdu bækurnar eru ætlaðar börnum og ungmennum, en þýddu bækurnar eru margar við hæfi þeirra sem eldri eru.

Angústúra gefur út bland af frumsömdum og þýddum bókum fyrir þessi jól. Frumsömdu bækurnar eru ætlaðar börnum og ungmennum, en þýddu bækurnar eru margar við hæfi þeirra sem eldri eru.

Hjörleifur Hjartarson og Rán Flygenring vöktu athygli fyrir fuglabók sína fyrir tveimur árum, en sú bók seldist einkar vel og var einnig gefin út á ensku. Nú gefa þau íslenska hestinum gaum, í bók sem heitir einfaldlega Hestar , allt frá því fyrsta fylfulla merin steig óstyrkum fæti á íslenska strönd seint á níundu öld; laus við keppnisrembing, upphafningu og tildur.

Nóra heitir bók fyrir yngstu börnin eftir Birtu Þrastardóttur, en áður kom út eftir hana bókin Skínandi .

Prófessor Ármann Jakobsson sendi frá sér sína fyrstu ungmennabók á síðasta ári og sagði frá bölvun múmíu Hóremhebs, sem ríkti yfir Egyptum fyrir þúsundum ára. Nú kemur út framhald þeirrar bókar og heitir einfaldlega Bölvun múmíunnar. Seinni hluti . Síðustu bók lauk þar sem múmían Hóremheb var í ræningjahöndum en Júlía, María og Charlie ætla ekki að játa sig sigruð. Þau taka sér far með glæsilega skipinu Henriettu, rekast þar á ýmsa óvini og fyrr en varir eru þau fangar. Við tekur æsispennandi atburðarás þar sem ekkert er sem sýnist.

Af þýddum bókum má nefna Uppljómun í eðalplómutrénu eftir írönsku skáldkonuna Shokoofeh Azar í þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur. Fjölskylda Beetu flýr Teheran í kjölfar ofsókna í byltingunni árið 1979 og sest að fyrir utan afskekkt þorp í von um að geta lifað í friði. Enginn fær þó komist undan brjálæðinu sem ríður yfir landið og snertir bæði lifandi og látna, aldna og unga. Uppljómun í eðalplómutrénu er fyrsta skáldsaga Azar og hún hlaut fyrir hana tilnefningu til Alþjóðlegu Booker-verðlaunanna 2020.

Japanska rithöfundinn Yoko Tawada þekka margir, enda er hún höfundur bókarinnar Etýður í snjó sem kom út fyrir tveimur árum og var gestur Bókmenntahátíðar í Reykjavík af því tilefni. Skáldsagan Sendiboðinn , sem Elísa Björg Þorsteinsdóttir þýddi, segir frá Japan sem hefur verið lokað um hríð vegna ónefndra náttúruhamfara af mannavöldum. Eldra fólkið lifir lengi við hestaheilsu og annast um börnin sem eru viðkvæm og gömul fyrir aldur fram. Mumei býr með Yoshiro, fjörgömlum langafa sínum. Drengurinn er veikburða og með hitasótt en hann er klókur og alveg laus við sjálfsvorkunn og bölsýni. Yoshiro einbeitir sér að því að fæða og klæða Mumei, útvalinn sendiboða, þjakaður af samviskubiti vegna gjörða sinnar kynslóðar og afleiðinga þeirra.

Tíkin heitir bók kólumbíska rithöfundarins Pilar Quintana sem Jón Hallur Stefánsson íslenskaði. Hún segir frá Damaris sem þráir það heitast að verða móðir en þrátt fyrir töfradrykki, smyrsl og helgiathafnir geta þau Rogelio ekki eignast barn. Þegar henni býðst að taka að sér tíkarhvolp grípur hún tækifærið feginshendi en tíkin lætur ekki temja sig frekar en náttúran. Tíkin hlaut kólumbísku bókmenntaverðlaunin Biblioteca de Narrativa.

Tíkin er komin út og eins bókin Litla land sem er fyrsta bók fransk-rúandíska rapparans Gaël Faye sem Rannveig Sigurgeirsdóttir sneri. Litla land segir frá Gabríel sem er 10 ára og lifir áhyggjulausu lífi í úthverfi Bújúmbúra, í Afríkuríkinu Búrúndí. Allt hverfist um vinina og þeirra uppátæki í botnlanganum sem þeir hafa gert að ríki sínu. En þegar borgarastríð skellur á í landinu, og þjóðarmorð er framið í nágrannaríkinu Rúanda, breytist allt. Falleg saga um vináttu og sakleysi æskunnar, en líka átakanlegur vitnisburður um þau eyðandi áhrif sem stríð og ofbeldi hafa á líf og samfélög manna.

Einnig er væntanleg bókin Jól í Sumareldhúsi Flóru eftir Jenny Colgan sem Ingunn Snædal þýðir, en fyrri bækur Jenny Colgan um Flóru hafa notið hylli.

Nýjar í bókaraðir

Angústúra hefur gefið út þrjár bókaraðir fyrir börn og ungmenni og væntanlegar eru nýjar bækur í þeim sagnabálkum. Þannig koma út fjórða og fimmta bókin af sex í danska bókaflokknum Villinorn eftir Lene Kaaberbøl. Bækurnar segja frá villinorninni ungu Klöru og baráttu hennar við ill öfl. Fjórða Villinornarbókin nefnist Blóðkindin og segir frá glímu Klöru við Bestlu Blóðkind sem er að brjótast út úr prísund sem hefur haldið henni fanginni í 400 ár. Í fimmtu Villinornarbókinni, Fjandablóði , þarf Klara að hjálpa hrafnamæðrunum, því tilvera þeirra er í hættu. Ofsafengni hrafnastormurinn er aðeins fyrsta áskorunin í hættulegri för þar sem Klara verður að finna út hver er sannur vinur og hver raunverulegur fjandmaður. Jón St. Kristjánsson þýðir bækurnar.

Þau Finn-Ole Heinrich og Rán Flygenring ljúka fráögninni af Pálínu Klöru Lind Hansen, stundum kölluð Brjálína, í bókinni Ótrúleg ævintýri Brjálínu. Endalok alheimsins . Í bókinni er mamma hennar nánast rúmföst og Pálína reynir eftir bestu getu að vera henni innan handar. Á æskuheimili Pálínu, Brjálivíu, gengur einnig mikið á því pabbi hennar og kærastan hans, Lúsía de Kleijn, hafa eignast tvíburastráka. Pálína fer með pabba sínum í leit að fjársjóði fortíðarinnar, lærir fornan ástargaldur, safnar minjagripum fyrir Klörusafnið á háaloftinu, kemur Páli besta vini sínum á óvart með heljarinnar afmælishátíð og sýður galdraseyði úr aðalbláberjum með hinni göldróttu Lúdmílu í von um að bjarga lífi mömmu sinnar. Jón St. Kristjánsson þýddi bókina.

Væntanleg bók í bókaröðinni Seiðmenn hins forna, Barið þrisvar , er þriðja bindi í sagnaröðinni eftir Cressidu Cowell, en þó ekki sögulok, þau koma á næsta ári. Í Barið þrisvar hafa stríðsmærin Ósk og seiðstrákurinn Xar verið gerð útlæg og eru á flótta undan seiðmennum, stríðsmönnum og öðru mun hættulegra, nornum. Tekst þeim að finna síðustu hráefnin í nornaförgunarseyðið áður en nornakóngurinn læsir klónum í járnvirka galdurinn? Jón St. Kristjánsson þýddi eins og svo margar aðrar Angústúrubækur.

arnim@mbl.is