Alþingi Steingrímur segir ekki gaman að sjá forsætisnefnd skipaða skökkum kynjahlutföllum.
Alþingi Steingrímur segir ekki gaman að sjá forsætisnefnd skipaða skökkum kynjahlutföllum. — Morgunblaðið/Eggert
Karitas Ríkharðsdóttir karitas@mbl.is Forsætisnefnd Alþingis hefur lagt fram frumvarp til breytingar á þingsköpum. Með frumvarpinu er lagt til að kynjahlutföll í forsætisnefnd verði fest í lög.

Karitas Ríkharðsdóttir

karitas@mbl.is

Forsætisnefnd Alþingis hefur lagt fram frumvarp til breytingar á þingsköpum. Með frumvarpinu er lagt til að kynjahlutföll í forsætisnefnd verði fest í lög. eða eins og segir í frumvarpinu: „Þess skal gætt að hlutfall kvenna og karla í forsætisnefnd sé eins jafnt og niðurstöður alþingiskosninga og kynjahlutföll innan þingflokka bjóða.“

Skemmst er frá því að segja að af sjö forsetum Alþingis er Bryndís Haraldsdóttir eina konan.

„Við erum í þessum verulega vanda að kynjahlutföllin gengu til baka almennt um tíu prósentustig síðast. Það sem bætist svo við er að kynjahlutföllin eru mjög skökk í tveimur þingflokkum [...] Það endurspeglast í þessu frumvarpi og greinargerðinni að menn horfast náttúrlega í augu við þær takmarkanir sem útkoman í alþingiskosningum er og hvernig kynjahlutföll innan einstakra þingflokka geta verið, það setur þessu miklar skorður,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, í samtali við Morgunblaðið. Hann segist ekki vita hvort til standi að gera frekari breytingar á forsætisnefnd á næstunni en nokkrar breytingar hafa verið gerðar á yfirstandandi kjörtímabili.

„Forsætisnefnd, það er ekkert sérstaklega gaman að sýna hana svona,“ segir Steingrímur.

Í greinargerð frumvarpsins segir:

„Ljóst er að Alþingi er bundið af niðurstöðum þingkosninga og hlutföllum kvenna og karla innan þingflokka við skiptingu nefndasæta en það ætti þó ekki að koma í veg fyrir að festa í þingsköp tilmæli um að hugað verði að jafnrétti kvenna og karla við nefndaskipanir eins og unnt er.“

Frumvarpið er eins og áður segir lagt fram af forsætisnefnd og áheyrnarfulltrúar í nefndinni styðja flutning málsins. Aðdragandi þess er heildarendurskoðun laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sem hófst árið 2019. Í tengslum við endurskoðunina óskaði forsætisráðherra eftir að vilji þingsins til breytinga á þingsköpum til samræmis jafnréttislögum yrði kannaður. Hingað til hefur verið litið svo á að jafnréttislög eigi ekki við þegar fulltrúar í nefndir, ráð og stjórnir eru kosnir á Alþingi.