Völlurinn Svona leit Laugardalsvöllurinn út í gær, eftir þrjá landsleiki í október. Dökka rákin hægra megin í dekkri fletinum sýnir annan staðinn þar sem grafið var í gegnum völlinn til að koma vökvunarkerfinu fyrir.
Völlurinn Svona leit Laugardalsvöllurinn út í gær, eftir þrjá landsleiki í október. Dökka rákin hægra megin í dekkri fletinum sýnir annan staðinn þar sem grafið var í gegnum völlinn til að koma vökvunarkerfinu fyrir. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Völlurinn Kristján Jónsson kris@mbl.is Óvenju mikil landsleikjatörn er nú yfirstaðin á Laugardalsvelli og það í október. Ekki er óalgengt að landsliðin spili tvo heimaleiki í einni hrinu en nú lék karlalandsliðið í knattspyrnu þrjá leiki fyrir utan æfingarnar á vellinum. Áhorfendur veittu því athygli að þökur rifnuðu upp á vissum stöðum á vellinum þar sem hann virðist ekki hafa jafnað sig eftir framkvæmdir í sumar. Morgunblaðið hafði samband við Kristin Jóhannsson vallarstjóra og spurði hann í hvaða framkvæmdir var ráðist í sumar.

Völlurinn

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Óvenju mikil landsleikjatörn er nú yfirstaðin á Laugardalsvelli og það í október. Ekki er óalgengt að landsliðin spili tvo heimaleiki í einni hrinu en nú lék karlalandsliðið í knattspyrnu þrjá leiki fyrir utan æfingarnar á vellinum. Áhorfendur veittu því athygli að þökur rifnuðu upp á vissum stöðum á vellinum þar sem hann virðist ekki hafa jafnað sig eftir framkvæmdir í sumar. Morgunblaðið hafði samband við Kristin Jóhannsson vallarstjóra og spurði hann í hvaða framkvæmdir var ráðist í sumar.

„Við ákváðum að leita til borgarinnar til að fá að setja vökvunarkerfi í völlinn. Sú framkvæmd hófst í lok júlí og lauk um 10. ágúst. Við eigum í erfiðleikum með ákveðin svæði á vellinum vegna þessara framkvæmda. Svo óheppilega vildi til að tæklingar urðu á þessum svæðum og þá komu stór sár í völlinn.

Ég taldi að þessar framkvæmdir myndu ekki hafa áhrif á landsleikina í september og október. Þeir aðilar sem ég talaði við voru á sama máli, til að mynda Bjarni Hannesson, doktor í grasvallafræði, sem starfað hefur með okkur.

Við höfum klórað okkur í hausnum yfir af hverju grasið festi sig ekki og höfum verið í stöðugu sambandi út af þessu. Hann hefur til að mynda rætt við kollega sína bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum. Þeir hrista einnig hausinn yfir þessu. Þetta er óeðlilegt og við höfum ekki skýringar enn sem komið er. Vanalega tekur þetta um viku að jafna sig en sú varð ekki raunin í þessu tilfelli. Ræturnar náðu ekki að gróa við völlinn. Ótrúlegt en satt. Þar af leiðandi verður hann laus í sér.

Fróðir menn hafa skoðað völlinn með mér og skilja þetta ekki. Við munum fara vel yfir þetta á næstu dögum til að völlurinn verði sem bestur næsta vor.“

Lögðu á sig mikla vinnu

Kristinn segir að hann og annað starfsfólk Laugardalsvallar hafi lagt á sig mikla vinnu til að gera völlinn sem best úr garði í aðdraganda landsleikjanna.

„Okkur þykir leiðinlegt að ekki skuli hafa tekist nógu vel til og það er erfitt að skilja ekki hvað gerðist. Þetta leit að sjálfsögðu illa út í sjónvarpi þegar stóru sárin mynduðust og eðlilegt að sé velt fyrir sér. Við eyddum ótrúlegum tíma í að vinna í vellinum síðan í september. Við vorum í marga klukkutíma á milli leikja, jafnvel fram yfir miðnætti, til að láta þetta ganga upp. Ég er stoltur af mínu starfsfólki. Þau hafa staðið sig vel enda gaf ég þeim langt helgarfrí þegar þessari törn lauk,“ sagði Kristinn og hann bendir á að ekki hafi verið um nema 3% af vallarfletinum að ræða.

„Við náðum að spila þrjá leiki, sem var aðalmálið. Við starfsfólkið vonuðumst eftir því að völlurinn yrði betri. Bjuggumst við því en annað kom á daginn. Þetta tókst ágætlega miðað við aðstæður. 97% af vellinum eru í frábæru standi og við erum auðvitað ánægð með þann hluta vallarins. Sérstaklega miðað við sextíu ára gamlan völl á Íslandi í október,“ sagði Kristinn í samtali við Morgunblaðið. Laugardalsvöllurinn er ekki alveg kominn í vetrarfrí því fyrirhugaðir eru bikarúrslitaleikir karla og kvenna á vellinum 6. og 8. nóvember, ef keppni verður ekki aflýst.