Jón Gunnlaugur Stefánsson, alltaf kallaður Jonni í Höfðabrekku, fæddist á Arnarstöðum í Núpasveit 16. maí 1925. Hann lést á Dvalarheimilinu Hvammi 8. október 2020.

Foreldrar Jóns voru Stefán Tómasson, f. 1891, d. 1967, og Oktavía Stefanía Ólafsdóttir, f. 1891, d. 1934. Eiginkona Jóns var Ingibjörg Indriðadóttir frá Lindarbrekku, f. 19. apríl 1929, d. 15. maí 1998. Systkini Jóns voru tíu og ein hálfsystir.

Börn Jóns eru: 1) Kristín Erla, f. 1951, maki Garðar Tyrfingsson, f. 1953. Þau eiga tvo syni og fjögur barnabörn. 2) Margrét, f. 1957, d. 2020. Hún átti einn son og eitt barnabarn. 3) Ari Þór, f. 1969, maki Ragnheiður Helgadóttir, f. 1972. Þau eiga tvö börn.

Jón Gunnlaugur starfaði meðal annars við brúarsmíð, keyrði fyrir KNÞ og vann við vegagerð og landgræðslu. Lengst af var hann bóndi í Höfðabrekku.

Útför Jóns Gunnlaugs fer fram með nánustu aðstandendum frá Garðskirkju 17. október 2020.

Elsku afi. Þú varst afi eins og alla dreymir um; áttir heima í sveit með traktor, hund, hesta, kött og önnur dýr. Um svona afa lesa flestir bara í sögubókum en ég, önnur barnabörn og barnabarnabörn fengum að upplifa það flest hvernig var að eiga afa sem átti heima í sveit. Það eru mikil forréttindi og minningarnar sem skapast hafa í Höfðabrekku eru endalausar og ógleymanlegar.

Fyrir mig verður Höfðabrekka alltaf næst því að vera mitt annað heimili. Þar líður mér alltaf óskaplega vel. Ófá sumur dvaldi ég hjá ykkur ömmu í sveitinni með Grétu frænku þar sem aldrei var skortur á verkefnum.

Mesta fjörið var í kringum heyskap og man ég vel þegar ég var 10-11 ára gamall og þá á ferðalagi með foreldrum á Vestfjörðum að í ljós kom að ég myndi missa af heyskap það árið vegna ferðalagsins og góðrar tíðar sem fram undan var í sveitinni. Ég grét úr mér augun að missa af þessu því mér þótti þetta svo gaman og fannst mér ég örugglega líka vera aðeins að bregðast þér.

Önnur verkefni voru t.d. girðingarvinna, tína upp kartöflur og annað sem kom til. Þetta var skemmtileg vinna og flest kvöld fórum við í útreiðartúr, þú á Blakk eða Sörla og ég á Grána. Eins og flestir sem þig þekkja varstu mikill söngmaður og áttir það til að söngla á leið okkar út í sand. Ég reyndi að taka undir en kunni ekki alltaf textana en reyndi þá bara að raula laglínuna með. Í sveitinni fékk ég iðulega að keyra hjá þér, bæði bíl og traktor, en við látum það ósagt hér hvenær ég var farinn að keyra traktorinn einn.

Í verslunina Ásbyrgi fannst mér alltaf mjög gaman að koma og allt sem mig langaði í mátti setja í reikning á Jón G. Stefánsson enda var það oftast svo að ég kom aðeins bústnari til baka úr sveitinni á haustin enda sögðuð þið amma aldrei nei við mig.

Ég segi Kristófer Orra reglulega sögur úr sveitinni og mun gera það sama með Kjartan Ara þegar hann eldist en Kristófer fannst mjög merkilegt að eiga langafa sem var orðinn 95 ára gamall og hefur oft spurt mig hvort þú hafir ekki örugglega fæðst árið 1925. Það merkilegasta af öllu er þó líklega það að þú dvaldir í Höfðabrekku fram yfir níræðisaldurinn, það vel varstu á þig kominn. Mikið vona ég að ég verði jafn hress og þú varst þegar ég kemst á efri árin.

Nú eruð þið amma og Gréta frænka sameinuð á ný og hlýja ég mér við þær hugsanir. Ég á eftir að sakna þín afi og að koma í Höfðabrekku og þú ekki á staðnum verður ekki eins og áður en ég veit að þú verður ekki langt undan því í sveitinni þinni leið þér alltaf best.

Kær kveðja,

Grétar.

Það var vorið 1997. Við hjónin höfðum ákveðið að skoða Lindarbrekku í Kelduhverfi sem var til sölu. Jón í Höfðabrekku geymdi lykil að íbúðarhúsinu og því var knúið dyra í Höfðabrekku. Jón birtist, hávaxinn, spengilegur, skarpleitur. Hann tók erindi okkar vel og fylgdi okkur í Lindarbrekku, sem var nánast í eyði og ekki beinlínis aðlaðandi. En umhverfið, þvílíkt víðsýni! Og Kata konan mín féll fyrir því samstundis og ég hreifst með. Þetta var upphafið að kynnum okkar Jóns bónda í Höfðabrekku sem leiddi til einlægrar vináttu sem aldrei bar skugga á.

Jón var glæsilegur fulltrúi kynslóðarinnar sem komst til manns um miðja síðustu öld. Missti móður sína þegar hann var á níunda ári og tíu barna fjölskyldan leystist upp og Jón, eins og fleiri systkini hans, fór í fóstur. En ekki bognaði hann við það, varð snemma dugnaðarforkur og eftirsóttur vinnukraftur. Tileinkaði sér bjartsýnina og lífsgleðina sem einkenndi unga fólkið á eftirstríðsárunum, sem hikaði hvergi, framfarahugurinn óstöðvandi, allt var hægt. Þannig skellti Jón sér í verkefnin og með ótrúlegum dugnaði og atorku byggði hann upp nýbýlið Höfðabrekku frá grunni, glæsilegt íbúðarhús og ekki voru útihúsin síðri. m.a. tók hlaðan 1000 hestburði af heyi. En Jón fékkst ekki bara við búskap. Hann var fljótur að tileinka sér vélaöldina og var einn eftirsóttasti ýtumaðurinn í sýslunni, bæði í vegagerð og landvinnslu. Hann kom sér upp góðum vélakosti á búinu og ekki voru margir bændur sem óku um á hvítum Range Rover eins og Jón í Höfðabrekku. Notaði hann m.a. til að slóðadraga! „Reinsinn“ var módel 1974 og er enn ökufær og einnig Ferguson frá sama ári. Veldur hver á heldur.

Jón var 72 ára þegar kynni okkar hófust. Það eru engar ýkjur að aldrei hefur fallið skuggi á þau kynni og það var okkur mikil gæfa að eignast Jón að nágranna og vini. Og ekki bara Jón heldur einnig börn hans og fjölskyldur þeirra. Satt að segja var Jón stoð okkar og stytta eftir að við fluttum í Lindarbrekku og alltaf tilbúinn að gera okkur greiða meðan heilsan entist. Jón var gæfumaður í einkalífi, þótt hann eins og margir hafi þurft að mæta áföllum. Þannig lést Ingibjörg kona hans á sjötugasta ári eftir langvinn veikindi og Margrét dóttir hans lést fyrir rúmum mánuði aðeins 63 ára. Börn Jóns og barnabörn hafa verið gæfa hans og yndi í ellinni og önnuðust hann af kostgæfni meðan hann bjó einn í Höfðabrekku.

Jón var einstakt snyrtimenni, félagslyndur, söngelskur og naut þess að gleðjast á góðri stund. En hann var ekki skaplaus og lét engan eiga hjá sér ef honum fannst að sér vegið. Hreinskiptinn og heill maður. Jón var kominn á tíræðisaldur þegar hann flutti á Hvamm, heimili aldraðra á Húsavík, þá þrotinn að kröftum. Þar átti hann gott atlæti síðustu æviárin og hélt fullri andlegri reisn til síðasta dags.

Við hjónin vottum börnum Jóns, öllum afkomendum hans og öðrum nákomnum okkar dýpstu samúð. Guð blessi minningu Jóns í Höfðabrekku.

Gísli G. Auðunsson.